Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 18:15:05 (4069)

2001-01-22 18:15:05# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur með málefnalegum rökum við 1. og 2. umr. þessa máls sýnt fram á að í fjórum grundvallaratriðum gengur þetta frv. gegn dómsorði Hæstaréttar í máli öryrkjanna.

Í fyrsta lagi gengur frv. sem við fjöllum hér um, þrátt fyrir dómsorðið, út á að það er enn heimilt að tengja lífeyrisgreiðslur við tekjur makans. Frv. er skerðingarfrumvarp vegna þess að það skerðir lífeyrisgreiðslur frá því sem nú er, úr 51 þús. í 43 þús. Í þriðja lagi skerðir það greiðslurnar afturvirkt. Í fjórða lagi gengur ríkisstjórnin svo langt varðandi greiðslur sem dómurinn nær til og öryrkjar eiga rétt á sjö árum aftur í tímann, að tekin eru þrjú ár af þeim sjö og einungis greidd fjögur ár afturvirkt. Í fimmta lagi mætti bæta við að það er gengið lengra en maður hefur séð áður við að skerða lífeyri vegna tekna maka.

Ég held, herra forseti, að minni hlutinn hafi sýnt fram á það í áliti sínu að það sem stjórnarandstaðan hélt fram við 1. umr. málsins og snertir þá þætti sem ég hef nefnt á allt við rök að styðjast. Hann hefur teflt fram lögfræðilegum og málefnalegum rökum máli sínu til stuðnings.

Herra forseti. Stjórnarliðar hafa gefið sínar skýringar á þeirri niðurstöðu sem þeir hafa komist að. Þeir hafa kveinkað sér mjög undan því að stjórnarandstaðan hafi haldið því fram að þeir mundu brjóta rétt á öryrkjum og ganga á svig við dómsorðið og brjóta mannréttindi á öryrkjum. Mig minnir að hæstv. forsrh. hafi orðað það svo þegar málið fór til 2. umr. að það væri einsdæmi í sögunni að stjórnarliðum væri brigslað um að brjóta vísvitandi mannréttindi á öryrkjum.

Það þarf hins vegar ekki að fara lengra aftur í tímann en tvö til þrjú ár til að sjá að þá vöruðu nokkuð margir þingmenn úr þessum ræðustól stjórnarliða við því sem þeir þá gerðu, þ.e. lögfestu tengingu við tekjur maka, lögfestu eins og þá var haldið var fram úr þessum ræðustól bæði brot á stjórnarskránni og brot á alþjóðlegum samningum. Samningarnir sem verið var að brjóta voru taldir upp, ákvæði stjórnarskrárinnar, 65. og 76. gr. Minnt var á ný mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá árinu 1995. Ég heyrði í fjölmiðli að átta þingmenn hefðu 30 sinnum varað við þessu sem ég hér lýsi á árinu 1998, þegar lögfesta átti með miklu hraði, á tveimur dögum, ákvæðið sem Hæstiréttur hefur nú dæmt ógilt. Átta þingmenn vöruðu 30 sinnum við þessu fyrir tveimur árum.

Þannig er það ekki í fyrsta skipti nú við þessa umræðu, að stjórnarliðar eru varaðir við að lögfesta ákvæði eins og þeir halda áfram að gera nú þrátt fyrir viðvaranir okkar stjórnarandstæðinga.

Herra forseti. Ég hef lesið bæði meiri- og minnihlutaálitin frá heilbr.- og trn. með athygli og fylgst með þeim umræðum sem hér hafa farið fram í dag. Ég verð að segja að öll lögfræðileg rök og álit standa til þess að hér séu ákvæði stjórnarskrárinnar brotin enn eina ferðina.

Hér hefur verið teflt fram lögfræðingum eins og Margréti Heinreksdóttur, sem er sérfræðingur í mannréttindamálum. Hún er í stjórn Mannréttindaskrifstofunnar og hún heldur því fram að óheimilt sé samkvæmt dómsniðurstöðunni, stjórnarskránni og mannréttindaákvæðum hennar að tengja lífeyrisgreiðslur við tekjur maka. Því hefur Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögumaður einnig haldið fram, sem líka er sérfræðingur í mannréttindamálum, að óheimilt sé samkvæmt stjórnarskránni, mannréttindaákvæðum hennar og alþjóðasamþykktum að tengja lífeyrisgreiðslur við tekjur maka.

Ungur lögfræðingur, Lára Helga Sveinsdóttir, sem ritaði lokaritgerð sína um réttindi fatlaðra stúderaði sérstaklega ákvæðið sem hér er til umræðu í lokaritgerð sinni. Hún heldur því fram með mjög gildum rökum að óheimilt sé samkvæmt stjórnarskránni og alþjóðasamningum að tengja lífeyrisgreiðslur við tekjur maka. Því hefur Magnús Norðdahl einnig haldið fram en hann er lögfræðingur ASÍ. Hann hefur með málefnalegum rökum sýnt fram á að óheimilt sé að tengja lífeyrisgreiðslur við tekjur maka samkvæmt dómsorðinu, samkvæmt stjórnarskránni og samkvæmt ákvæðum alþjóðasamninga.

Það er sérstakt að hlýða á stjórnarliða taka niðurstöðu og dómsorð Hæstaréttar og allar forsendur hans úr samhengi og hengja sig í raun og sanni á þrjú orð í þessari dómsniðurstöðu, í forsendum dómsins og byggja allan sinn málflutning á því. Það er skýrt sýnt fram á það af hálfu minni hlutans í heilbr.- og trn. að það stenst ekki lögfræðilega að lesa úr dómsorðinu eins og meiri hlutinn gerir hér.

Ég vil vitna hér í minnisblað Magnúsar Norðdahl sem lagt var fram í heilbr.- og trn., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í dómsorði Hæstaréttar segir orðrétt: ,,Viðurkennt er, að aðaláfrýjanda, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt frá 1. janúar 1994 á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi.````

Þetta er dómsorðið, herra forseti, sem menn verða að horfa á þegar þeir draga ályktun af þessum dómi. Við höfum haldið því fram að hann sé mjög skýr.

Magnús Norðdahl segir enn fremur að þetta sé mjög skýrt orðalag. Reglugerð var ekki í samræmi við lög. Þar af leiðandi telur hann lögin gilda án reglugerðar og því skuli greiða fulla tekjutryggingu án skerðingar, allt í samræmi við lögin. Þetta dómsorð þarfnast ekki sérstakrar skýringar eða álita þó hver og einn öryrki geti ekki, á grundvelli viðurkenningardóms Hæstaréttar, leitað aðfarar til fullnustu réttar síns. Dómsorðið er í fullkomnu samræmi við íslensk lög um stjórnskipulega stöðu reglugerða gagnvart lögum þegar stoð skortir í lögum fyrir efni reglugerðar.

Síðan vitnar Magnús Norðdahl aftur í dómsorð Hæstaréttar og segir:

,,Í dómsorði Hæstaréttar segir síðan einnig orðrétt og í beinu framhaldi: ,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga ...````

Síðar segir Magnús að þetta sé mjög skýrt orðalag. Lög um skerðingu örorkubóta standist ekki stjórnarskrá og þar af leiðandi gildi lögin án þeirra ákvæða sinna sem mæla fyrir um skerðingu.

Þetta er einmitt kjarni málsins, herra forseti. Orðalagið sem meiri hlutinn hangir fast á sem haldreipi sínu er ekki að finna í dómsorðinu. Það er einungis að finna í inngangi dómsins þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Var það skipulag réttinda örorkulífeyrisþega samkvæmt almannatryggingalögum, að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka hans á þann hátt sem gert væri, ekki talið tryggja þeim þau lágmarksréttindi, sem fælust í 76. gr. stjórnarskrárinnar ...``

Herra forseti. Ef taka hefði átt tillit til þeirra orða sem meiri hlutinn hefur hangið í þá er mjög sérkennilegt að þau birtast ekki í dómsorðinu. Hér stendur: ,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga ...`` --- Þarna stendur ekki ,,á þann hátt`` sem 5. mgr. 17. gr. laga kveður á um.

Þetta er auðvitað mjög skýrt, herra forseti, og minni hluti heilbr.- og trn. gerir þessu mjög vel skil í nál. sínu.

Lögmaðurinn Magnús Norðdahl kemst einmitt að sömu niðurstöðu og segir að þar af leiðandi ætti að álykta svo að greiða skuli fulla tekjutryggingu án skerðingar í samræmi við lögin eins og þau standa án skerðingar.

Þetta finnst mér vera grundvallaratriði, herra forseti, og ég hef nefnt hér fjóra lögfræðinga. Tveir þeirra eru sérfræðingar á mannréttindamálum og komast að þeirri niðurstöðu að í dómsorðinu felist að bannað sé að tengja lífeyri við tekjur maka. Þar er vitnað í stjórnarskrána.

Í nál. minni hlutans er jafnframt vitnað til annarra lögfræðinga, herra forseti. Ég les hér úr minnihlutaálitinu. Minni hlutinn heldur því fram, með leyfi forseta, að það sé:

,,... óumdeild meginregla í lögfræði að við túlkun dóma skuli fyrst og fremst taka mið af kröfugerð aðila annars vegar og dómsorði hins vegar. Minni hlutinn telur ljóst að Hæstiréttur hafi með skýru dómsorði sínu, sem er orðrétt samhljóða kröfugerð Öryrkjabandalagsins, verið að banna þá aðferð sem fram kemur í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993 og felst í því að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega með tengingu við tekjur maka.``

Dómsorðið fer þannig saman við kröfugerð Öryrkjabandalagsins og síðan segir áfram:

,,Ríkisstjórnin hefur hins vegar þá túlkun á dómi Hæstaréttar í frammi að þrátt fyrir skýrt dómsorð hafi Hæstiréttur verið að meina eitthvað annað sem lesa megi úr því sem segir í forsendum dómsins.``

Síðan kemur, sem er kjarnaatriði, herra forseti:

,,Minni hlutinn hafnar slíkri túlkun algerlega og vekur athygli á því að sameiginlegur skilningur Eiríks Tómassonar lagaprófessors, Sigurðar Líndals lagaprófessors og Skúla Magnússonar lektors var að það vægi þungt við skýringu á dómi ef kröfugerð annars aðila væri tekin beint upp í dómsorð.``

Ef kröfugerð annars aðila er tekin beint upp í dómsorði, herra forseti, þá vegur það þungt að mati þessara þriggja lögfræðinga sem meiri hlutinn vísar gjarnan til. Það hefur þungt vægi í dómi ef kröfugerð annars aðilans er tekin beint upp í dómsorð.

Þetta finnst mér kjarnaatriði, herra forseti. Það kemur einmitt fram að dómsorðið er samhljóða kröfugerð Öryrkjabandalagsins. Þetta tel ég grunnatriði. Þarna er ekki talað, eins og meiri hlutinn vísar gjarnan í, ,,á þann hátt sem gert er`` o.s.frv. Þarna er ekki verið að vísa til þess. Mér finnst þetta mjög skýrt lögfræðilega, herra forseti.

[18:30]

Ég var ekki viðstödd fund heilbr.- og trn. af eðlilegum ástæðum því að ég á ekki sæti þar, en það er kannski rétt að halda því til haga áfram sem Eiríkur Tómasson sagði 30. desember í Ríkisútvarpinu og vitna ég orðrétt til hans, með leyfi forseta:

,,Eiríkur segir að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun sé viðurkenning á því að tekjutenging maka sé ólögmæt og niðurstaðan sé bindandi fyrir ríkið.``

Ég get ekki lesið þetta skýrar, herra forseti. Eiríkur Tómasson segir orðrétt ,,að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun sé viðurkenning á því að tekjutenging maka sé ólögmæt og niðurstaðan sé bindandi fyrir ríkið.`` Og einnig eins og hér hefur verið haldið til haga að ,,Eiríkur segist þó fallast á það að það hefði komið til greina að byrja að greiða út bæturnar nú 1. janúar án tekjutengingar``.

Ég held að aldrei sé of oft haldið til haga þessum lögfræðilegu rökum, herra forseti, sem við í minni hlutanum byggjum álit okkar á. Það er aðalregla íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Og til hvers er vitnað? Vitnað er til jafnræðisreglunnar í 65. gr., mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar í 76. gr. og stefnumörkunina sem liggur að baki jafnréttislögum, herra forseti. Það hefur kannski ekki nógsamlega verið undirstrikað að í dómnum er einmitt vísað til jafnréttislaganna sem er ákaflega þýðingarmikið, enda eru það að 2/3 hluta til konur sem hafa lent í þessari skerðingu sem Hæstiréttur hefur nú metið úr gildi fallna.

Skoðun mín er því sú að þetta muni hafa mjög víðtæk áhrif líka að því er varðar jafnréttismálin. Hér er litið mjög skýrt til jafnréttislaganna og þetta mun líka hafa áhrif almennt, herra forseti, og hefur gert það með þeim hætti að þetta hefur vakið stjórnarflokkana upp af þeim blundi sem þeir hafa verið í vegna þess að nú fyrst, eftir fimm ára setu í ríkisstjórn, eru þeir allt í einu farnir að uppgötva það að stór hluti öryrkja býr við fátækt á Íslandi.

Herra forseti. Það er athyglisvert einmitt í því sambandi að vitna til þess sem mér hafði nú ekki verið ljóst, sem fram kom í Morgunblaðinu í gær, sunnudaginn 21. janúar, þar sem Páll Þórhallsson skrifar langa og mikla grein sem heitir Með réttlætiskenndina að leiðarljósi, en Páll Þórhallsson starfar sem lögfræðingur hjá Evrópuráðinu en var áður blaðamaður hjá Morgunblaðinu.

Þar kemur fram, sem mér var ekki kunnugt um, að ríkisstjórnin hefur greinilega lent á yfirheyrslubekknum hjá Sameinuðu þjóðunum um það hvernig hún hefur farið með öryrkja á Íslandi. Þar hefur hún lent á sakamannabekknum og verið yfirheyrð vegna þess. En í grein Páls Þórhallssonar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Þó verður að geta þess að í áliti nefndar, dags. 12. maí 1999, sem starfar á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna, um síðustu skýrslu Íslands er mælst til þess að íslenska ríkið rannsaki gaumgæfilega bága fjárhagsstöðu tiltekinna hópa fólks þar á meðal öryrkja með það fyrir augum að rétta hag þeirra.``

Það nær sem sagt út fyrir landsteinana að þjóðum heims er kunnugt um hvernig Ísland hefur farið með öryrkja á sl. árum og það í góðærinu, herra forseti. (Gripið fram í.) Já, ég efast um að ríkisstjórnin hafi séð þetta vegna þess að hún hefur látið allt sem vind um eyru þjóta þar til nú að Hæstiréttur tekur hana á beinið fyrir að brjóta mannréttindi á öryrkjum. Og til að komast hjá að ræða efni máls og niðurstöðu dómsins reynir ríkisstjórnin allt í einu að bera fyrir sig fátækt öryrkja. Hve oft hefur hún ekki verið minnt á fátækt öryrkja hér úr þessum sal af stjórnarandstöðunni? Hve oft hefur þessi ríkisstjórn ekki fellt tillögur okkar stjórnarandstæðinga um að bæta kjör öryrkja? Ríkisstjórnin hefur alltaf og ætíð skellt skollaeyrum við því. Hún hefur verið tekin á beinið vegna þess að hún hefur greinilega brotið mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, hún verið tekin á beinið fyrir það á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem mælst er til þess að ríkisstjórnin vindi sér í það að rétta við hag öryrkja.

Fróðlegt væri að vita hvernig þeir sem hafa skrifað þetta á blað líta á það sem ríkisstjórnin er að gera hér gagnvart öryrkjum þessa dagana og gagnvart því dómsorði sem Hæstiréttur hefur kveðið á um réttmætar greiðslur þeim til handa samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindaákvæðum.

Herra forseti. Af því ég var að vitna til mætra lögspekinga, fimm talsins, sem allir eru þeirrar skoðunar að ólögmætt sé eftir niðurstöðu þessa dóms að tengja lífeyri við tekjur maka, þá komst Morgunblaðið einnig að þessari sömu niðurstöðu 23. desember, tveim eða þrem dögum eftir að dómurinn féll. Og Morgunblaðið segir, með leyfi forseta:

,,Grundvallaratriðið að baki almannatryggingakerfinu hefur jafnan verið skýrt; að allir hefðu í sig og á.``

Síðan segir í þessari úttekt, ítarlegri úttekt Morgunblaðsins, sem er reyndar í forustugrein á aðfangadag, sunnudaginn 24. desember:

,,Af þessu er ljóst`` --- þegar Morgunblaðið er búið að rökstyðja það --- ,,að það er 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningar sem ráða þeirri skoðun meiri hluta Hæstaréttar, að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkja, hverjar svo sem tekjur maka hans eru.``

Þetta er Morgunblaðið, herra forseti, sem segir að ljóst sé að það sé 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningar sem ráði þeirri skoðun. Þeir eru alveg klárir á túlkun dómsins hjá Morgunblaðinu, alveg skýrir á niðurstöðunni og dómsorðinu vegna þess að þeir segja að það sem ráði skoðun meiri hluta Hæstaréttar sé 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningar sem segir, herra forseti, og ég vitna orðrétt í Morgunblaðið, ,,að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkja, hverjar svo sem tekjur maka hans eru``. Þetta segir Morgunblaðið, herra forseti, og hefur það nú yfirleitt frekar fylgt línu stjórnarflokkanna en ekki.

Morgunblaðið segir einnig, herra forseti, með leyfi forseta:

,,Túlkun laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra getur heldur ekki leitt til annarrar niðurstöðu.`` --- Þetta er einmitt það sem við höfum verið að halda fram. --- ,,Markmið þeirra er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Því markmiði er ekki varpað fyrir róða við það eitt, að löggjafinn meti stöðu öryrkja með hliðsjón af félagslegum aðstæðum þeirra, þar á meðal hjúskaparstöðu.``

Þetta er alveg ljóst líka. Þeir vitna í lög um málefni fatlaðra, þeir vitna í stjórnarskrána og alþjóðasamninga allt eins og við höfum verið að gera. Til viðbótar þessum rökum, herra forseti, kemur þetta einnig í Morgunblaðinu á aðfangadag, með leyfi forseta:

,,Á hinn bóginn má einnig líta svo á, að sé öryrki peningalega háður maka sínum raski það bæði raunverulegri og sálrænni jafnstöðu á milli hjóna, sem geti valdið margvíslegum vandkvæðum. Það má því færa ákveðin rök fyrir afstöðu meiri hluta Hæstaréttar.``

Þetta kemur til viðbótar þessu, herra forseti, allt lesið upp úr Morgunblaðinu.

Herra forseti. Það má líka minna stjórnarherrana og stjórnarliðana á það sem þeir fengu samþykkt með góðum liðsstyrk stjórnarandstöðunnar hér á þingi sem er þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Hvað segir sú stefna um það viðfangsefni sem við erum hér að fjalla um?

Þar er talað um ,,að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar``. Þar er talað um ,,að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum``.

Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Að gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar verði varðveitt og þess verði meðal annars gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti.``

Mætti ekki jafna því til þess, herra forseti, að öryrki sem gengur í hjónaband verði ekki fjárhagslega ósjálfstæður við það eitt að ganga í hjónaband eins og hann verður, og stjórnarliðar vilja greinilega halda áfram? En í þessari opinberu fjölskyldustefnu er greinilega verið að setja ákveðna varnagla um að gildi hjónabandsins, sem sé einn traustasti hornsteinn fjölskyldunnar, verði varveitt og þess verði m.a., herra forseti, ,,gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti``.

En við vitum og það hefur margoft komið hér fram að öryrkjar standa verr fjárhagslega ef þeir ganga í hjónaband og það svo að þeir geta eða gátu fyrir dóminn hrapað úr 73 þús. kr. í 18 þús. kr. og núna niður í 43 þús. kr.

Í opinberri fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar stendur einnig: ,,Að fjölskyldur fatlaðra, sjúkra og annarra hópa njóti nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Grundvallarréttur þeirra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu verði virtur.`` Verði virtur, herra forseti. Þar stendur: Grundvallarréttur þeirra til fjölskyldustofnunar, þ.e. réttur fatlaðra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu verði virtur.

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem þessi dómur hefur verið að vitna til og dómsorðið er, þ.e. að virða rétt fatlaðra, virða það að hinn fatlaði geti lifað með mannlegri reisn og hann verði ekki fjárhagslega ósjálfstæður, missi allan sinn fjárhag niður í nánast ekki neitt við það eitt að ganga í hjónaband.

Hvernig er það, herra forseti, ef fatlaður einstaklingur tekur allt í einu upp á því að ganga í hjónaband? Hér hefur verið tekið saman saman af hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og sýnt fram á með dæmum að þegar maki er með 250 þús. kr. og öryrkinn sjálfur með 30 þús. kr. í tekjur þá skerðist hann verulega við það að ganga í hjónaband. Og hvernig, herra forseti? Fyrir giftinguna hafði hann rúmar 66 þús. kr. Samkvæmt þeim reglum sem Hæstiréttur hefur fellt úr gildi rúmar 18 þús. kr. og samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar 23.424 kr. Það er nú ekki meiri munur á. Áður var það 18 þús., nú er það 23.424, ef hann er með tekjur sem eru um 30 þús. kr. og ætti að hafa samkvæmt dómsniðurstöðunni 50.990.

Þarna munar verulega á. Dómsniðurstaðan gæfi honum 50.990 kr. en samkvæmt frv. hefur hann 23.424 kr. Þar munar verulega.

Herra forseti. Þessu til viðbótar sem kannski hefur minna verið talað um í þessum sal er hin gífurlega bratta tenging og skerðing við eigin tekjur sem birtist í þessu frv. Hvernig getur slíkt dæmi litið út, herra forseti?

[18:45]

Tökum sem dæmi öryrkja með 37.500 kr. á mánuði í tekjur. Samkvæmt frv. væru 25 þús. af þessum 43 þús. kr. strax farin og eftir stæðu 18.424 kr. En fjölskyldan greiðir skatt af þessum 37.500 kr. og ef hann færi yfir mörkin, sem eru 2,2 millj., þá greiddi hann skatt upp á 14.535. Hefði hann ekki þær tekjur, þessar 25 þús. kr., þá greiddi hann í skatt 9.690 kr. Þannig að eftir standa, miðað við 35 þús. í eigin tekjur, 7.655 kr. sem hann græðir á að hafa eigin tekjur. Eftir að hafa aflað sér 35 þús. kr. þá standa eftir 7.655 kr. vegna þess hve skerðingin er brött. Eftir standa 7.655 kr. af 35 þús. kr. sem gætu enn skerst, t.d. vegna barnabóta eða vaxtabóta. Hvað erum við að gera með þessu? Það er a.m.k. ekki mjög álitlegur kostur fyrir öryrkja að afla sér tekna eða vera á vinnumarkaðnum eftir þetta, eftir svo bratta skerðingu.

Hér er mikið talað um jaðarskatta og tekjutengingar. Ég man ekki eftir svona brattri skerðingu eða tengingu. Í þessu frv. kemur fram hve mikið er verið að skerða vegna eigin tekna. Sá sem hefur 35 þús. kr. í eigin tekjur græðir þegar upp er staðið einungis 7.500 kr. sem gætu svo skerst vegna barnabóta og vegna vaxtabóta. Þetta er það sem við í stjórnarandstöðunni höfum kallað, herra forseti, að skammta fólki mannréttindi. Þetta heitir auðvitað ekkert annað. Við höfum gagnrýnt þetta, að ekki skuli hægt að fara refjalaust og skilmerkilega að dómsniðurstöðunni heldur þurfi að fara alls konar krókaleiðir og skrumskæla dómsniðurstöðuna til að öryrkjar fái sem minnst út úr þessu. Það er sama hvernig á málið er litið, hvort sem það er framfærslueyririnn héðan í frá eða það er það sem öryrkjar eiga inni hjá ríkinu, eftir að ríkið hefur ólöglega haft fjármuni af þeim í sjö ár. Hið sama má segja um það þegar litið er, eins og ég hef hér gert, á sjálfsaflafé öryrkjans og hvernig það skerðir síðan lífeyrisgreiðslurnar.

Það er ekki alls kostar rétt og mér finnst stundum gæta misskilnings í hugtökum í umræðunni þegar sagt er: Öryrkinn sem hafði 18 þús. kr. áður hefur að lágmarki 43 þús. kr. núna. Það er bara ekki jafneinfalt og menn vilja setja það fram, herra forseti.

Við höfum auðvitað margfarið yfir það við þessa umræðu og kallað eftir rökum stjórnarliða fyrir þessum 43 þús. kr. Sumir þeirra hafa verið svo heiðarlegir að bókstaflega viðurkenna af hverju farið er í 43 þús. kr. en ekki að dómsniðurstöðunni sem kveður skýrt á um að það eigi að greiða 51 þús. kr. Sumir stjórnarliðar hafa verið heiðarlegir í þessu efni, t.d. hv. þm. Ásta Möller sem sat hér í hliðarherbergi áðan en nú eru engir stjórnarliðar í salnum. Hv. þm. sagði að það hefði verið viðurkenning á fullum rétti annarra til að fá fulla tekjutryggingu án skerðingar við tekjur maka. Það að fara að dómsniðurstöðunni hefði gefið öðrum sambærilegan rétt. Þeir sveigja hjá því að þurfa að greiða öryrkjum það sem þeim ber, t.d. til að þurfa ekki að greiða ellilífeyrisþegum, öldruðum, sem eru í sömu stöðu, sambærilegan rétt. Það er þó heiðarlegt, herra forseti, að viðurkenna að sú sé ástæðan. Þeir hafa líka viðurkennt að þessi tala, 43 þús. kr., sé bara tekin upp úr hatti, herra forseti. Það eru engar forsendur eða rök á bak við hana, tilgangurinn er aðeins að skerða það sem Hæstiréttur segir að öryrkjarnir eigi að fá. Það virðist eini tilgangur þeirra, að skrumskæla niðurstöðuna þannig að ekki sé farið eftir dómsniðurstöðu Hæstaréttar.

Það er eins og ég hef sagt, herra forseti, sama hvar maður leitar, sama hve lágan framfærslugrunn maður finnur, þeir hafa ekki getað fundið lægri framfærslugrunn en þessar 43 þús. kr. Atvinnuleysistryggingarnar fyrir þá sem engar tekjur hafa eru þó 67 þús. kr. Það er skammarlega lágt. Lágmarkslaunin, rúmlega 80 þús. kr., eru skammarlega lág. Fjárhagsaðstoð t.d. hjá sveitarfélögum eins og Reykjavíkurborg, þar fær einstaklingur 60 þús. kr. hafi hann engar aðrar tekjur og hjón 108 þús. Þar munar um 11% á einstaklingi og hjónunum þegar tekjum hjónanna, þessum 108 þús., er skipt í tvennt. Það er hins vegar 30% skerðing þegar búið er að svipta öryrkjann heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót. Það er ekki nægjanlegur mismunur milli einstaklingsins og öryrkja í hjónabandi. Þeir þurfa að fara enn neðar og hafa 40% mun þar á.

Herra forseti. Það er eins og stjórnarliðar sækist eftir því að ýta öryrkjum aftur með sín mál fyrir dómstólana. Það er ansi hart, herra forseti, við upphaf 21. aldarinnar, að öryrkjar eigi sér ekki skjól hjá löggjafarsamkundu þjóðarinnar en þurfi ávallt að leita með mál sín til dómstólanna. Þegar öryrkjar hafa unnið mál fyrir dómstólunum þá vilja stjórnarliðar ekki viðurkenna dóminn en fara alls konar króka og fjallabaksleiðir til að fá allt aðra niðurstöðu heldur en Hæstiréttur kemst að, allt í þeim tilgangi, herra forseti, að skerða þau réttindi, þann rétt sem dómsniðurstaða Hæstaréttar kveður á um.

Herra forseti. Það er ekki bara varðandi greiðslurnar sjálfar, með skerðingargreinunum, sem þeir fara ekki að dómsniðurstöðunni heldur líka varðandi ólögmæta upptöku fjármuna. Þar tefla þeir svo sannarlega á tæpasta vað. Ég held, herra forseti, að það sé ekki nokkrum blöðum um það að fletta að þar er gengið á svig við dómsniðurstöðuna.

Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að fara um það nokkrum orðum sem menn hafa rætt um í tengslum við þetta frv., þ.e. um fjölda þeirra sem rétt eiga samkvæmt þessari dómsniðurstöðu. Það hefur verið rætt um 760 öryrkja sem muni eiga rétt skv. 1. og 2. gr. frv., þ.e. sem fá greitt út núna 1. febrúar. Hins vegar er talið að fjölmennari hópur eigi afturvirkan rétt vegna þess að hæstv. heilbrrh. hefur eitthvað dregið úr skerðingum vegna tekna maka. Mig minnir að þar sé um að ræða, ég hef ekki tölurnar fyrir framan mig, eitthvað um eitt þúsund manns á árinu 1999 og um tólf hundruð manns árið 1998.

Herra forseti. Þó farið yrði að því sem ríkisstjórnin vill í þessum efnum og greitt aðeins fjögur ár aftur í tímann þá er það þó aftur til áranna 1997 og 1998. Samkvæmt skýrslu hæstv. forsrh. sem dreift var hér fyrir tveimur eða þremur árum voru tekjur fjölda öryrkja skertar vegna tekna maka. Árið 1995 voru það 1.664, 1996 1.892, 1997 2.150 og 1998 2.335. Þetta eru allt hærri tölur, herra forseti, en hafa verið nefndar í umræðunni um þetta frv. Ég veit ekki hversu mikið hv. heilbr.- og trn. hefur gert í að kanna þann fjölda sem hér hefur verið nefndur. Sé þetta hins vegar sá fjöldi sem fengið hefur skerðingu vegna tekna maka, 2.335 á árinu 1998, þá hlýtur stærri hópur að eiga afturvirkan rétt samkvæmt dómsniðurstöðunni en nefnt hefur verið. En það kemur auðvitað í ljós þegar farið verður að greiða þetta út.

Í þessu sambandi vildi ég nefna við hvað er miðað þegar þetta er reiknað aftur á bak. Þá er miðað við það lægsta sem ríkisstjórnin getur fundið til að greiða út. Það er með ólíkindum að þegar lög hafa ekki verið í gildi frá árunum 1994--1998 og þar með auðvitað ekki heimilt að skerða vegna tekna maka, að ríkisstjórnin skuli voga sér að greiða einungis fjögur ár aftur í tímann en ekki sjö ár. Ég er sömu skoðunar og Ragnar Aðalsteinsson þegar hann segir í viðtali við Ríkisútvarpið 9. jan., með leyfi forseta:

,,Þegar búið er að viðurkenna verkabrotið gegn öryrkjunum, þá eignast þeir bótakröfu á hendur Tryggingastofnun ríkisins og bótakröfur fyrnast almennt á 10 árum. Hér er ekki um neitt aðgerðaleysi eða tómlæti af hálfu öryrkja vegna þess að deila hefur staðið alveg samfellt frá 1. janúar 1994 hjá Tryggingastofnun, hjá tryggingaráði, hjá umboðsmanni Alþingis og Alþingi og fyrir dómstólum.``

Mér finnst Ragnar Aðalsteinsson orða þetta skýrt og tel að líta eigi á málið með sama hætti og hann, að þegar öryrkjar hafa orðið fyrir tjóni vegna gáleysis stjórnvalda, vegna mistaka stjórnvalda, sem byggir á reglugerð sem hefur ekki lagastoð og síðan vegna gáleysis hjá Alþingi og við setningu laganna 1998 sem eru í andstöðu við stjórnarskrána, þá hljóti að skapast skýlaus réttur til bótakrafna á þessu tímabili.

Ragnar Aðalsteinsson hefur sagt að ef litið sé á fyrningarfrestinn og fyrningarrof þá verði tvímælalaust fyrningarrof 19. jan. 1999. Þá var stefnan gefin út á hendur Tryggingastofnun í dómsmálinu og það þýðir að greiða verður aftur til 19. jan. 1995, þá er um að ræða sex ár af þeim sjö sem eru til umræðu. Það væri auðvitað algjört lágmark en auðvitað verður að taka á málinu þannig að hér stofnast til bótakröfu þegar um er að ræða það sem flokka mætti undir mistök eða í besta falli gáleysi af hendi stjórnvalda. Hér hefur síðan margkomið fram að ríkisstjórninni ber ekki skylda til að beita fyrir sig fyrningu en gerir engu að síður þó hún hafi augljóslega brotið lög á öryrkjum og brotið stjórnarskrá og mannréttindaákvæði hennar.

[19:00]

Herra forseti. Mér finnst það mjög skýrt, klárt og kvitt að greiða eigi sjö ár aftur í tímann og eru færð mjög gild rök fyrir því af hálfu minni hlutans. Ég tel, herra forseti, að ekki eigi aðeins að greiða 5,5% vexti heldur eigi að greiða dráttarvexti og dráttarvextir eru í dag, herra forseti, 23%. Í 15. gr. laga um dráttarvexti stendur, með leyfi forseta:

,,Skaðabótakröfur skulu bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 10. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.``

En í þessu efni sem öðrum er farið í það sem minnst þarf að greiða, þ.e. 5,5% vexti.

Herra forseti. Þegar einstaklingar eins og öryrkjar standa ekki í skilum með skattaskuld sína þá víla fjmrh. og stjórnvöld ekki fyrir sér að taka dráttarvexti af einstaklingunum og öryrkjunum sem skulda þeim eitthvað í skatt. Ég er einmitt með fyrir framan mig svar fjmrh. við fyrirspurn minni um afskrifaðar skattaskuldir hjá einstaklingum. Svo ég taki bara eitt ár, árið 1995, þá voru afskrifaðir um 5,8 milljarðar og þar af voru dráttarvextir um 2,7 milljarðar eða um helmingur. Dráttarvextir voru um helmingur sem einstaklingar þurftu að greiða ríkinu af því að þeir höfðu ekki staðið í skilum við ríkið. Nú hefur ríkið ekki staðið í skilum við öryrkjana og þá ætti auðvitað ríkið með sama hætti að greiða öryrkjunum dráttarvexti alveg eins og ríkið tekur dráttarvexti af einstaklingum og öryrkjum sem ekki standa í skilum með skattaskuldir sínar. En það er eftir öðru, herra forseti, að á margvíslegan hátt og a.m.k. í fjórum ef ekki fimm grundvallarþáttum er brotinn réttur á öryrkjum með því frv. sem við ræðum hér.

Því þarf engan að undra þó að tillaga stjórnarandstæðinga sé að leggja til frávísun á þessu máli með okkar rökum. Og vænti ég þess, herra forseti, að eftir því verði nú tekið hvernig stjórnarliðar greiða hér atkvæði þegar þeir hafa fyrir framan sig öll þau lögfræðilegu rök sem við höfum teflt fram sem sannarlega sýna fram á það, herra forseti, að stjórnarliðar eru enn og aftur alveg eins og 1998 að ganga til atkvæða um það sem við höfum sýnt fram á að er að okkar mati brot á stjórnarskránni. Og við höfum teflt fram margvíslegum rökum því til staðfestingar.

Síðan, herra forseti, vil ég nefna það undir lok ræðu minnar að mjög sérkennilegt er að ríkisstjórnin, sem allt í einu hefur vaknað upp við það að öryrkjar búi margir hverjir og stór hópur við fátækt, skuli ætla að bíða fram til 15. apríl samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með að gera nokkuð fyrir öryrkja sem búa við mjög bág kjör. Ekki var það svo að ríkisstjórnin væri að skipa þessa nefnd eftir að dómur féll sem sérstaklega átti að skoða kjör öryrkja almennt heldur er nefndin búin að starfa alveg frá því í september. Veit ég til þess að lífeyrisþegar bundu vonir við að nefndin mundi skila af sér fyrir lok afgreiðslu fjárlaga í desember og þá mundu koma fram einhverjar tillögur um bætt kjör þeirra. En nú kallar ríkisstjórnin það að flýta fyrir, herra forseti, að flýta eigi störfum nefndarinnar sem eigi að skila af sér 15. apríl. Það er ekki vonum seinna, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn uppgötvi bága stöðu öryrkjanna og ótrúlegt, herra forseti, að það hafi farið fram hjá ríkisstjórninni vegna þess að ég man á undanförnum árum eftir því að öryrkjar og lífeyrisþegar hafi a.m.k. þrisvar ef ekki fjórum sinnum þurft að standa hér fyrir framan Alþingishúsið til þess að minna á bág kjör sín frá því að þessi ríkisstjórn settist að völdum.

Það hefur ekkert hrinið á ríkisstjórnina í því efni. Hún lokar algjörlega augum og eyrum fyrir bágri stöðu öryrkjanna nema nú þegar það hentar henni, herra forseti, til að reyna að dreifa athyglinni frá þessum dómi og kannski til að reyna að reka fleyg í raðir öryrkja, af því það er ekki nema hluti öryrkja sem fær aukinn rétt samkvæmt þessum dómi. En það hefur sem betur fer ekki tekist og marka ég það á því sem ég hef verið að ræða við öryrkja og eins það sem kom fram í Morgunblaðinu í gær. Öryrkjar gera sér nefnilega grein fyrir því að þessi dómur getur rutt brautina fyrir betri kjörum þeim til handa ef ríkisstjórnin t.d. stendur við það sem hún hefur sagt í því máli.

Herra forseti. Ég get hvað úr hverju farið að ljúka máli mínu. Það er ágætt að halda því til haga hér í lokin, af því að stjórnarliðar fara út um víðan völl í þessu máli, reyna að drepa málinu á dreif eins og ég hef sagt með því að vitna til þess að öryrkjar almennt fái ekki bætur samkvæmt þessum dómi og eru að vitna til þess að með dómnum sé verið að banna almennt tekjutengingu í landinu. Því hefur auðvitað enginn haldið fram, herra forseti, í þessu efni og eini staðurinn sem hægt er að finna það er, eins og hér hefur verið vitnað til, í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. sem vill afnema allar tekjutengingar lífeyrisgreiðslna í almannatryggingakerfinu.

Þessi örorkudómur er sjálfstæður, persónubundinn stjórnarskrárvarinn réttur vegna framfærslu sem tryggir hverjum einstaklingi ákveðin lágmarksréttindi sem eru miðuð við hann sem einstakling. Öryrki sem er með skerta starfshæfni og örorku getur þess vegna ekki notið persónubundinna mannréttinda sinna sem hann á samkvæmt stjórnarskránni til framfærslu og þess vegna hefur einmitt þessi dómur og mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar ákveðna sérstöðu að því er varðar tekjutengingu við tekjur maka.

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur sýnt mjög skýrt fram á að verið er að brjóta með margvíslegum hætti á réttindum öryrkja og skammta þeim mannréttindi sem gengur algjörlega á svig við það sem dómsniðurstaðan og Hæstiréttur hefur kveðið á um.

Herra forseti. Þessi niðurstaða og það frv. sem við ræðum --- ég tala nú ekki um ef það verður að lögum --- verður ríkisstjórninni til ævarandi skammar.

Herra forseti. Ríkisstjórnin leggst lágt þegar hún enn eina ferðina með aðgerðum sínum er í raun og sanni að beina öryrkjum aftur til dómstóla landsins vegna þess að það sýnir sig að öryrkjar þessa lands eiga ekki skjól í löggjafarsamkundu þjóðarinnar meðan þessi ríkisstjórn er við völd.