Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:08:27 (4072)

2001-01-22 20:08:27# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg makalaus málflutningur, ég verð að hafa þau orð um þetta. Í fyrsta lagi er rangt að stjórnarandstaðan hafi ekki flutt tillögur á Alþingi um að bæta kjör öryrkja. Síðast felldi stjórnarmeirihlutinn slíkar tillögur við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin. Þetta er staðreynd. Ég vil beina því til hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að hann fari með rétt mál. Þetta er rangt sem hann var að fullyrða.

Hitt er rétt sem hann sagði að tekjutryggingin byrjar að skerðast þegar maki öryrkjans er með meira en 134.280 kr. á mánuði. Það er langt innan við meðaltekjur launamanns á launamarkaði. Og það er líka rétt hjá hv. þm., ef hann reiknar þær bætur sem öryrkinn fær, þær greiðslur sem hann fær frá almannatryggingum og laun makans, að skerðingin byrjar þegar samanlagðar fjölskyldutekjur eru meira en 185 þús. kr. Finnst hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og ég beini þeirri spurningu einnig til annarra fylgismanna ríkisstjórnarinnar þetta vera sæmandi einfaldlega vegna þess að þær tekjur fyrir fjölskyldu duga engan veginn og eru allt of lágar og ég held mig við fullyrðinguna --- smánarlegar?