Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:10:27 (4073)

2001-01-22 20:10:27# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:10]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé engar tillögur frá hv. stjórnarandstöðu um breytingar á þessu frv. Hvar eru þær, herra forseti? Og þegar menn leggja ekki fram tillögur, þá er ekki mikil meining á bak við það sem þeir segja. (Gripið fram í.) Það eru engar tillögur frá stjórnarandstöðunni á borðum þingmanna um að hækka þetta lágmark, engar.

Ég vil svo minna hv. þm. á að tillaga hans í málinu núna var í fyrsta lagi að neita að taka málið fyrir á Alþingi. Í öðru lagi að borga bara út fulla tekjutryggingu þeim sem eiga rétt á henni því að miðað við afstöðu þingmannsins var og er ekki hægt að borga neinum út minna en fulla tekjutryggingu. Með þeim skilningi á dómi Hæstaréttar sem þingmaðurinn leggur í hann er ekki hægt að borga minna en fulla tekjutryggingu vegna þess að þau ákvæði 5. mgr. eru fallin brott. Það þýðir að þingmaðurinn er leggja til að þeir sem fram að dómnum fengu minna en fulla tekjutryggingu, og þeir voru æðimargir, fengju ekki neitt. Hann lagðist gegn því að hér yrði lagt fram frv. til þess einmitt að bregðast við þeirri stöðu.