Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:33:15 (4076)

2001-01-22 20:33:15# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kemur hér upp og barmar sér undan því að við tölum um stjórnarskrána og drögum athygli að þeirri staðreynd, sem stjórnarliðar reyna hins vegar að þegja út úr umræðunni, að þetta mál er þannig til komið að lagasetning á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á Alþingi fyrir tveimur árum, í desember 1998, hefur verið dæmd brot á stjórnarskránni. Fram hjá þessu komast hv. þm. ekki og það er í framhaldi af þeirri niðurstöðu Hæstaréttar landsins sem við erum að ræða um þetta frv. og hvernig brugðist er við þessum dómi. En dómurinn um lögin frá 1998 stendur og hann er endanlegur. Þessu verða hv. þm. stjórnarliðsins að kyngja og það þýðir ekkert að reyna að tala sig frá því í einhverjum endalausum skógarferðum og leiðöngrum eins og hv. þm. Kristján Pálsson reyndi áðan. Þetta er ekki mál sem snýr að okkur og illsku eða meinbægni okkar. Þetta á þá að ræða við Hæstarétt ef hv. þm. vilja halda áfram að kveinka sér út af þessu.

Í öðru lagi þessi stórkostlega tölfræði um lögfræðinga. Með því að telja saman lögfræðinga sem komu fyrir nefndina og með því að finna það út að fimm lögfræðingar séu í stjórnarliðinu en bara tveir í stjórnarandstöðunni, þá hljóti þeir að hafa rétt fyrir sér af því að þeir séu fleiri. Eins og þeir séu allir hlutlausir, lögfræðingarnir í stjórnarliðinu: Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde og hæstv. dómsmrh. Sólveig Pétursdóttir. Eru þetta allt saman hlutlausir lögfræðingar í málinu?

Herra forseti. Er ekki hægt að lyfta þessu á aðeins hærra plan, eins og maðurinn sagði í sjónvarpsþættinum um árið?

Af þessum lögfræðingum í stjórnarliðinu er aðeins einn sem ekki var á þingi og greiddi atkvæði með frv. 1998 sem Hæstiréttur hefur núna dæmt brot á stjórnarskránni. Þessir menn eru því greinilega ekki óskeikulir, hv. þm.