Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:37:10 (4078)

2001-01-22 20:37:10# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar er algerlega skýr. Dómsorðið sjálft, sem er dómurinn, er algerlega skýrt. Allar málfundaæfingar stjórnarliðsins hér, undirbygging undir afstöðu sérfræðinganefndarinnar og ríkisstjórnarinnar byggist á því að túlka tilteknar setningar í reifuninni en ekki dómsorðið sjálft. Þau er ekki hægt að túlka. Í dómsorðinu er fallist á kröfu gagnáfrýjanda sem var Öryrkjabandalagið, svo einfalt er það, þannig að skýrari og einfaldari getur dómur ekki verið. Hann tekur til greina kröfur annars málsaðilans. Þannig er nú það.

Að þessi dómur hafi komið á óvart er auðvitað fjarri lagi að hægt sé að halda fram. Menn geta reynt að segja að þetta með tekjutenginguna sjálfa hafi verið tiltölulega nýlegt mál og menn leyfi sér að láta það koma á óvart, en má ég þá minna á að á þetta var bent strax 1998 og þá vöruðu fjölmargir menn við því sem voru vel að sér um almannatryggingalöggjöfina, stjórnarandstaðan varaði við því og lögfræðingar sem komu fyrir heilbr.- og trn. vöruðu við því. Svo kemur þetta algerlega á óvart, segja menn. Menn koma af fjöllum, það hefur aldrei hvarflað að þeim að þetta gæti brotið stjórnarskrána.

Varðandi aðra þætti málsins eins og skortinn á lagastoð frá 1994, þá hafa allir vitað það í mörg ár að þar var ríkið með koltapað mál. Það hefur enginn einasti lögfræðingur, nema þessar setningar, því miður, í áliti umboðsmanns frá 1998, nokkurn tíma gefið neitt annað í skyn, enda eru allir dómendur á báðum dómstigum sammála um að þar sé um koltapað mál af hálfu ríkisins að ræða. Ekki ætti það að hafa komið á óvart og samt áfrýjaði ríkið af fullkominni fólsku þeirri kröfu ásamt hinum í staðinn fyrir að fallast á að sá hluti málsins væri tapaður og bæta það refjalaust. Allt er þetta náttúrlega meira og minna þannig, herra forseti, að harka ríkisins í þessu máli, framganga ríkisins er með miklum ólíkindum.