Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:41:06 (4080)

2001-01-22 20:41:06# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að fylgjast með því hversu gjörtöpuð staða hv. þm. stjórnarliðsins er í þessari rökræðu. Nú eru þeir komnir í þá skotgröf, eins og hv. þm. Kristján Pálsson og reyndar fleiri sem hurfu ofan í þá skotgröf fyrr í dag, að segja að þetta sé allt saman því að kenna að Hæstiréttur hafi verið svo óskýr. Ég auðvitað mótmæli því, herra forseti. Ljóst er, eins og við höfum hér hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum fært rök að, að dómsorðið er ákaflega skýrt og einnig þær dómsforsendur sem hv. þm. stjórnarliðsins hafa reynt að hanga á eins og hundar á roði til að snúa við dómsorðinu. Það dugar þeim ákaflega skammt.

Herra forseti. Ég kem aðallega út af þeim orðum sem hv. þm. lét falla um bók Stefáns Ólafssonar, Íslensku leiðina. Nú er það svo, herra forseti, að ekki er rétt að við höfum haldið því fram í umræðunni að sú bók væri áfellisdómur yfir almannatryggingakerfinu á Íslandi, síður en svo. Fram kemur að margt hefur tekist ákaflega vel þar. En í bókinni er hins vegar bent á að ein tiltekin skerðingarregla sé í almannatryggingakerfinu á Íslandi sem sé ákaflega fátíð og það er skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka. Hvað segir prófessorinn um þetta? Hann segir, með leyfi forseta:

,,Sú regla er arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum ...``. Og hann segir líka, herra forseti, að þetta gangi gegn hugsun aldarinnar, þ.e. ,,að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur ...``.

Herra forseti. Aðeins til að varpa skýrara ljósi á hvað menn eiga við sem afleiðingar þessa kerfis, þá bendir prófessorinn á eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,En félagsleg og sálræn áhrif slíks fyrirkomulags eru þó enn alvarlegri því öryrki í slíkri stöðu er að hluta rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.``

Það ætti ekki að vefjast fyrir þingmönnum flokks, sem ber það fagra nafn Sjálfstæðisflokkur, að skilja að það er alvarlegur hlutur fyrir reisn og fyrir sjálfsvirðingu einstaklings sem rændur er sjálfstæði sínu, eins og prófessorinn bendir hér á.