Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:43:20 (4081)

2001-01-22 20:43:20# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um arfleifð, sem Stefán Ólafsson talaði um í bók sinni, að það skerðingarákvæði sem núna er til umræðu sé einhver arfleifð frá því fyrir 1935. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér algerlega á óvart hvar maðurinn hefur lesið þá niðurstöðu. Ég held að ég fari rétt með að tekjutryggingin sjálf og tekjutengingarnar við hana komi ekki fyrr en á 8. áratugnum aftur að nýju. Þetta er því engin arfleifð frá þeim tíma, það var löngu, löngu búið að kippa þessu úr sambandi. Það sem var virkilega sláandi í gömlu lögunum, áður en þessi mannréttindabrot sem þá voru voru tekin út, var fyrst og fremst það að menn töpuðu kosningarrétti, menn töpuðu fjárræði sínu ef þeir þurftu að þiggja af sveitinni. Þetta eru stærstu breytingarnar sem gerðar voru með framfærslulögunum sem sett voru á ný árið 1935. En að vera að vitna í þessi mannréttindabrot sem tíðkuðust á þeim tíma, á fyrri hluta 20. aldarinnar, er algerlega út úr kú, herra forseti.