Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:11:40 (4086)

2001-01-22 21:11:40# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:11]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef nokkuð hefur orðið til að draga niður virðingu Alþingis þá er það hvernig meiri hlutinn hefur tekið án gagnrýni þeirri niðurstöðu sem að henni var rétt eftir að hópur manna hafði komist að þeirri niðurstöðu að það ættu að vera 43 þús. en ekki neitt annað.

Ég var ekki að líkja nokkrum hér við nasista, ekki einum einasta manni. Og þegar ég talaði um öryrkjamafíuna þá var það meira gert í gamni sökum þess að maður hefur skynjað þann ótta sem ríkisstjórnin virðist hafa af þessu fólki sem er að berjast fyrir þeim sem minnst mega sín. Svo leyfa menn sér að saka okkur um að draga virðingu Alþingis niður.

Virðulegi forseti. Hlustaði einhver á ræðu hæstv. forsrh. hér fyrir tveimur eða þremur dögum? (Gripið fram í: Já.) Gerði það einhver? Hann kom ekki einu sinni í hverfið til þess að ræða það frv. sem við ræðum hér heldur stóð hér upp með fúkyrðaflaum og málflutning sem engu tali hefur tekið. Og ekki bara það, virðulegi forseti. Síðan, í allri þessari umræðu þar sem við höfum verið að sækja eftir rökum, bæði siðferðilegum, lagalegum og öðrum, við höfum verið að sækja eftir þeim í þessari umræðu, þá er okkur borið það á brýn að sýna af okkur eitthvert siðleysi. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að slíkur málflutningur var hreint með ólíkindum. Og ef eitthvað hefur verið til þess að draga niður virðingu Alþingis þá er það hvernig meiri hlutinn hefur haldið á þessu máli.