Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:19:27 (4090)

2001-01-22 21:19:27# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:19]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði hér fyrir mig nokkrar spurningar sem ég mun reyna að svara eftir bestu getu og eftir því sem tíminn leyfir.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. hvort orðið hefði afstöðubreyting hjá minni hlutanum hvað það varðaði að ekki þyrfti að setja lög í kjölfar dómsins. Við höfum ætíð haldið því fram og höldum því enn fram að til þess að greiða út í samræmi við dóminn, í samræmi við þann skilning sem við höfum á dómnum og höfum talað fyrir alla þessa umræðu hefði ekki þurft að setja löggjöf. Hins vegar er mjög líklegt að breyta hefði þurft öðrum málsgreinum, þ.e. 6. og 7. mgr. í kjölfar þess, en ríkisstjórnin hefur komið með þetta mál hingað inn á þeirri forsendu að það hefði þurft að setja löggjöf til þess að greiða út. En hvað þýddi dómurinn? Hann þýddi að skerðingarheimildir eru brott fallnar. Það þýðir ekki að almannatryggingalöggjöfin sé á bak og burt. Síður en svo. Það þýðir einvörðungu að þessar skerðingarheimildir eru fallnar brott. Þar af leiðandi lá að mínu viti alveg ljóst fyrir hvað ætti að greiða. Tryggingastofnun átti að greiða þetta út og hún hefur fengið verulega fjármuni á fjárlögum þannig að það hefði alveg örugglega dugað langt fram eftir árinu. Oftar en ekki verið svo þegar slíkt kemur upp, þ.e. að dómur fellur á ríkið, að það hefur verið afgreitt í fjáraukalögum síðar. Það var því ekki forsenda fyrir því að þingið væri kallað saman nú að geta greitt út. Það er það sem við höfum fullyrt allan tímann að ekki sé nauðsyn á löggjöf til að greiða út í samræmi við dóminn. Því hefur engin breyting orðið þar á.