Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:23:44 (4092)

2001-01-22 21:23:44# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Ég áttaði mig ekki á hv. þm. í þessari ræðu frekar en í ýmsum öðrum sem hann hefur flutt áður. Hins vegar er það alveg ljóst að það þurfti löggjöf til þess að skerða tekjutrygginguna frá því sem hún er. Það liggur alveg fyrir. Ef menn ætluðu að borga lægra en tekjutryggingin er núna þurfti þar af leiðandi löggjöf.

En ég held að það sé tvennt sem ég þarf að útskýra fyrir hv. þm. Í fyrsta lagi þetta með geðslagið. Það sem ég átti við er það að sú sveit manna sem kölluð var saman til þess að komast að þessari niðurstöðu, komst að ákveðinni niðurstöðu um að greiða ætti 43 þús. kr. Þetta rann í gegnum þingflokkana án athugasemda. Að sögn, og ef marka má fjölmiðla, á hálftíma eða klukkutíma. Það var þetta sem ég átti við þegar ég sagði að mér þætti með ólíkindum að menn hefðu það geðslag að láta þetta yfir sig ganga á ekki lengri tíma.

Mér er bæði ljúft og skylt að útskýra hvað ég átti við þegar ég talaði um stormsveit. Það sem ég átti fyrst og fremst við var að þarna voru á ferðinni fjórir öflugir menn sem fjölluðu um þetta mál. Það er sú sveit manna sem hefur algerlega farið með ferðina fyrir ríkisrtjórnarflokkana í þessu máli. Hún hefur ákveðið hvað felst í dóminum, hvernig á að breyta löggjöfinni og hver eignarréttindi felast í þeim kröfuréttindum sem Öryrkjabandalaginu voru þó til dæmd í þessu máli. (Gripið fram í.) Það er þetta sem ég átti við þegar ég kallaði þessa sveit manna stormsveit af því þarna eru á ferðinni fjórir öflugir menn. Enda hefur komið á daginn að þessi sveit hefur algerlega farið með ferðina. Ég held að alls ekki sé verið að gera lítið úr þessari sveit manna þó hún hafi verið nefnd eins og ég gerði áðan í ræðustól. Það breytir ekki hinu og við getum komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það þarf löggjöf til þess að skerða tekjutrygginguna.