Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:26:02 (4093)

2001-01-22 21:26:02# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það segir kannski sitt um það hvert umræðan er komin að hv. þm. stjórnarliðsins finna sig tilknúna til að veita okkur í stjórnarandstöðunni sérstaka lexíu um uppeldi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kemur hingað og segir okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar að við eigum ekki að tala niður til fólks og við eigum að haga okkur með öðrum hætti, og hann hagar sér eins og góður tyftunarmeistari sem kann að ala upp óþæg börn. En öðrum þræði fannst mér líka sem hér færi maður sem hefði ekki lengur mikið af rökum í farteski sínu.

Hæstv. utanrrh. kom líka og kvartaði mjög undan því að menn viðhefðu ekki rétt orðbragð hér. Ég verð að segja það, herra forseti, að við skulum ekki setja umræðuna niður á þetta plan. Það er allt í lagi þó að í ræðum manna séu stílhvörf og þó að menn feti hinn hefðbundna veg íslenskra ræðumanna og noti myndlíkingar eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Þó að menn nefni orðið Þýskaland þá er ekki þar með sagt að menn eigi við nasista. Ég vil því biðja hv. þm. um að stilla sig töluvert.

Herra forseti. Ég skil það hins vegar nokkuð vel að stjórnarliðið skuli vera heldur óhresst með stöðuna eftir þessar umræður. Staðan er einfaldlega þannig að mér finnst sem þær röksemdir sem stjórnarliðið kom með inn í þessar umræður hafi eiginlega allar verið felldar. Mér finnst reyndar, herra forseti, að eftir þá ágætu ræðu sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti áðan þurfi ekki að flytja mjög margar ræður í kvöld. Ég held til að mynda að margt af því sem ég ætlaði að fara yfir í ræðu minni sé fullkominn óþarfi. Hvers vegna? Vegna þess að hv. þm. stjórnarliðsins hafa kosið að beina umræðunni frá kjarna málsins sem er sú staðreynd að stjórnarliðið er áfram að feta þann stíg sem Hæstiréttur sagði að ætti ekki að gera, þeir eru að fela þá staðreynd og í staðinn eru þeir að reyna að draga umræðuna að lögfræðilegri þrætubók. Það hefur þeim svo sem tekist með ýmsum hætti en það er kannski ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. kemur hér og kvartar undan því að kjarni málsins eða röksemdirnar í máli stjórnarliða hafi ekki komist til skila. Staðan er nefnilega sú að hv. þm. stjórnarliðsins hafa fyrst og fremst verið að feta hér einhvern lagaþrætustíg í staðinn fyrir að koma fram með allar þær upplýsingar sem þeir töldu að mundu breyta málinu. Það er það sem hefur gerst.

Þegar við horfum yfir umræður þessara tveggja daga, stendur upp úr að engar nýjar röksemdir hafa komið fram af hálfu stjórnarliðsins. Það sem hefur hins vegar gerst, herra forseti, er að í ljós hafa komið alvarlegar veilur á málflutningi stjórnarliðsins. Það er eitt grundvallarhugtak, einn grundvallarskilningur sem allt mál þeirra byggist á. Það er lágmarksupphæðin. Það er sameiginlegur skilningur okkar stjórnar og stjórnarandstöðu að þessi dómur feli í sér þau sögulegu tíðindi að til sé lögvarinn einstaklingsbundinn réttur sem byggist á þeim félagslegu réttindum sem er að finna í hinum nýju mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Við í stjórnarandstöðunni höfum haldið því fram að að gengnum dómi Hæstaréttar sé óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að sú lágmarksupphæð sem menn eiga rétt á úr opinberum sjóði til framfærslunnar sé 51 þús. kr. Hvers vegna? Vegna þess að það er annars vegar samtala grunnörorkulífeyrisins og hins vegar tekjutryggingarinnar. Við erum þeirrar skoðunar og höfum fært rök fyrir því að hana megi ekki skerða með tekjum maka. Það þýðir, herra forseti, að þessi grunntala er samkvæmt skilningi okkar 51 þús. kr.

[21:30]

Það hefur hins vegar komið fram aftur og aftur hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins og er reyndar grunnurinn undir þeirra málflutningi, að talan sem þeir telja nægja til þess að fullnægja dómi Hæstaréttar sé 43 þús. kr. Og við höfum leitað eftir því aftur og aftur á hverju sú tala byggist. Það hafa engin svör komið, herra forseti, fyrr en í dag þegar mér fannst sem formaður heilbr.- og trn. opinberaði alvarlega veilu í málflutningi stjórnarliðsins. Þegar ég spurði hv. þm. Jónínu Bjartmarz hvernig stæði á þessum 8 þús. kr. mun, þ.e. á 51 þús. kr. og 43 þús. kr. á mánuði, þá sagði hv. þm. Jónína Bjartmarz að það mætti skýra með því hagræði sem hlytist af sambúð. En það er þegar búið að taka tillit til þess hagræðis sem hlýst af sambúð. Hv. þm. mat sem sagt hagræðið af sambúð upp á 8 þús. kr.

Hins vegar liggur fyrir að hagræðið af sambúð hefur þegar verið metið upp á mun hærri upphæð. Við vitum að þegar einhleypur öryrki fer í sambúð þá missir hann heimilisuppbótina og hann missir hina sérstöku heimilisuppbót. Þetta eru samtals 22 þús. kr. Þetta eru 30,67% af heildarframfærslunni sem honum var tryggð.

Þetta þýðir, herra forseti, að þarna er um að ræða upphæð sem er nánast þreföld sú sem hv. þm. Jónína Bjartmarz segir að megi meta sem hagræði af sambúð. Ég get því ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þessi grundvallartala, þessi grundvallarskilningur stjórnarliðsins, byggist á misskilningi. Og það finnst mér vera alvarlegasta veilan sem komið hefur fram í málflutningi stjórnarliðsins. Þetta eru einu nýju upplýsingarnar. Ekkert annað sem fram hefur komið varpar nokkru ljósi á hvaðan þau fá þessa tölu.

Sitthvað hefur þó gerst jákvætt í þessari umræðu, herra forseti. Til dæmis finnst mér ákaflega jákvætt að sú taktík sem stjórnarliðið lagði upp með hefur ekki náð fram að ganga. Hvaða taktík var þetta? Hún fólst í því að etja öryrkjum saman. Og það er nú ekki fallega gert af stjórnvöldum að leggja upp í viðkvæma umræðu, tilfinningahlaðna eins og þessa, með það að markmiði að etja saman hópum öryrkja.

Hæstv. utanrrh. spurði áðan hver hefði búið til hugtakið ,,ríku öryrkjarnir``. Það hefur kannski enginn úr hópi stjórnarliðanna sagt það upphátt. En það hefur verið undirliggjandi hugtak í allri þessari umræðu. Það hefur verið reynt að koma málum svo fyrir að segja sem svo að stjórnarandstæðingarnir og Öryrkjabandalagið væru að berjast fyrir einhvers konar sérstakan hóp öryrkja sem hefði nóg að bíta og brenna, hina ríku öryrkja og vegna þess að við hefðum þá í fyrirrúmi, værum við ekki að berjast fyrir hagsmunum hinna, þ.e. hinna verst settu. Og aftur og aftur hefur það komið fram í umræðunni sem eins konar dulbúin hótun að ef þetta næði fram að ganga, ef það næði fram að ganga að fullnægja dómi Hæstaréttar með þeim hætti sem við höfum talið rétt, þá yrði það til þess að ekkert yrði aflögu handa hinum verst settu. Þannig hefur stjórnarliðið reynt að gera tvennt, annars vegar að setja forustu Öryrkjabandalagsins og hins vegar okkur í stjórnarandstöðunni upp sem einhverja sérstaka óvini þeirra sem eru verst settir.

Herra forseti. Ég vísa þessum málflutningi algerlega á bug og ég hlýt að fordæma það viðhorf sem liggur á bak við málflutning af þessu tagi. Það viðhorf er skammarlegt, herra forseti. Og ég vona að hv. þingmenn stjórnarliðsins stökkvi ekki upp á nef sér og komi hingað með lexíur um það hvernig menn eigi tala og haga sér þó að ég segi þetta. Þessi umræða er tilfinningahlaðin og ástæðan fyrir því að okkur í stjórnarandstöðunni rennur í skap yfir skilningsleysi stjórnarliðsins er auðvitað sú að hér er verið að vega að rótum kjarahóps sem á einna erfiðast í samfélaginu. En það segir ákaflega mikið um samstöðu öryrkja og skilning þeirra á málinu að þeir hafa ekki látið etja sér saman. Og það er gott og það er notalegt, jafnvel fallegt að sjá hina órofa samstöðu sem er að finna í hópi öryrkja. Hins vegar, herra forseti, hafa hv. þm. stjórnarliðsins með tali sínu að sjálfsögðu vakið væntingar í hópi þessara verst settu öryrkja.

Herra forseti. Gervöll stjórnarandstaðan, Frjálslyndi flokkurinn, vinstri grænir og Samfylkingin, hefur á undanförnum mánuðum lagt fram tillögur sem miða einmitt að því að bæta hag verst settu öryrkjanna. Ég læt mér nægja að minna á þingmál sem Samfylkingin flutti um sérstaka afkomutryggingu fyrir aldraða og fyrir öryrkja þar sem lögð var sérstök áhersla á að bæta hag ungra öryrkja. Hvað var gert við þær tillögur sem við lögðum fram í tengslum við þessa tillögu í sambandi við fjárlögin? Þær voru stráfelldar. Og menn sem telja sig jafnvel hafa hjartað á réttum stað og hafa það vafalaust, eins og hæstv. landbrh. sem alltaf hefur staðið með lítilmagnanum, létu sig hafa það að stráfella þessar tillögur. Svo kemur þetta fólk hér og talar um að við í stjórnarandstöðunni séum með málflutning sem miðar að því að skáka til hliðar þeim verst settu. Við höfum engar tillögur flutt varðandi málefni öryrkja nema tillögur sem miða fyrst og fremst að því að bæta hag verst settu öryrkjanna.

Sá málflutningur sem við höfum haft uppi hér og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa túlkað þannig að við séum með honum að vega að kjörum hinna verst settu, þær skoðanir okkar byggjast á því mati okkar og þeirri bjargföstu sannfæringu að í dómi Hæstaréttar felist að það eigi að láta öryrkja fá óskerta tekjutryggingu, tekjutryggingu sem skerðist ekki vegna tekna maka. Við teljum og erum þeirrar skoðunar og höfum lagt fyrir því rök hér síðustu sólarhringana að þetta byggist á ákaflega skýrum dómi Hæstaréttar sem beitir fyrir sig mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar í fyrsta lagi, í öðru lagi alþjóðlegum samningum sem við höfum orðið aðilar að og í þriðja lagi breyttri og nýrri löggjöf um jafna stöðu kynjanna.

Herra forseti. Það var alveg rétt sem hv. þm. Kristján Pálsson sagði hérna áðan að menn voru annarrar skoðunar fyrr á öldinni. Það er hárrétt hjá hv. þm. (Gripið fram í.) Á 19. öldinni og líka á fyrri parti síðustu aldar sem nýlega er liðin. En það breytist allt. Viðhorf okkar til jafnréttis kynjanna hafa breyst og sú viðhorfsbreyting hefur fundið sér farveg inn í löggjöfina, m.a. með stuðningi og atbeina hæstv. utanrrh. og alls hans flokks sem hefur síðustu 15 árin lagt ríka áherslu á að bæta stöðu kvenna. Og það er nákvæmlega það sem gerist með þessum dómi. Ég lít svo á, herra forseti, að í þessum dómi felist sögulegur áfangi í jafnréttisbaráttu kvenna og lái mér svo hver sem vill. Það er verið að líta á einstaklinginn þannig að hann hafi tiltekinn lágmarksrétt sem ekki er hægt að skerða.

Og það kemur fram með ákaflega skýrum hætti, finnst mér, hér í dómsorði Hæstaréttar og forsendum dómsorðsins að þarna er um að ræða rétt eins og þann sem við erum að tala um núna, réttinn til atvinnuleysistrygginga, til sjúkratrygginga, til slysatrygginga og fæðingarorlofs. En þar kemur jafnframt fram að heimilt er að beita tekjutengingum og beita hugtakinu fjölskyldutekjur, heimilistekjur, á annars konar bætur sem menn fá í krafti laga, í krafti annarra laga, t.d. laga um félagslega aðstoð. Ég nefni sem dæmi þær tvær tegundir uppbóta sem ég hef hér nefnt og eru ekki veittar í krafti almannatryggingalaganna. Þetta er alveg kristaltært, herra forseti.

Ég segi að eitt af því sem þessi umræða hefur skilað eru loforð stjórnarliðsins um að áður en þessi vetur er úti muni þeir hafa fært hingað inn á þing löggjöf þar sem verulega er tekið á málefnum hinna verst settu. Ég fagna því. Og ég segi við hæstv. utanrrh.: Hafðu heila þökk fyrir þennan skilning. Hafðu heila þökk fyrir þær væntingar sem ráðherrann og aðrir í stjórnarliðinu hafa vakið hjá hinum verst settu öryrkjum. Og það skal svo sannarlega ekki standa á okkur í stjórnarandstöðunni að vera vakandi og sofandi við að minna stjórnarliða á þessi áform og yfirlýsingar og leggja allt af mörkum sem við getum til þess að þetta geti orðið að veruleika, herra forseti.

Ég minni á að hluti þeirra tillagna sem við lögðum hér fram fyrir jólin var líka um hvernig ætti að afla þessara tekna. En mér finnst a.m.k. að þessi umræða hafi skilað því að komin er breið samstaða á Alþingi Íslendinga um að nú sé kominn tími til þess að taka verulega á í kjaramálum öryrkja. Það þarf að hækka grunnlífeyrinn og það þarf að bæta kjörin með öðrum hætti og það þarf sérstaklega að taka á málefnum ungra öryrkja. Við erum svo sannarlega reiðubúin til samstarfs um þetta við Framsfl., við Sjálfstfl., við hvern sem er. Þetta er einna efst á forgangslista allrar stjórnarandstöðunnar. Og það hefur ekki gengið hnífurinn á milli stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Ég get ekki skilið yfirlýsingar hv. stjórnarliða öðruvísi en að þeir séu sömu skoðunar. En vei þeim ef þeir svíkja þau loforð og þær væntingar sem þeir hafa vakið. Vei þeim ef þær væntingar hafa bara byggst á viðleitni til þess að etja saman mismunandi hópum öryrkja. Vei þeim ef þeir standa ekki við stóru orðin.

Ég hef sagt það og við í stjórnarandstöðunni að dómsorðið er ákaflega skýrt. Og það er þannig, herra forseti, að þegar menn höfðu það í höndunum til að byrja með þá var það skýrt fyrir öllum. Hér hafa verið rifjuð upp ummæli og setningar eftir ýmsum aðilum í samfélaginu sem hafa skilið þetta nákvæmlega sama skilningi og stjórnarandstaðan. Ég rifja það upp, herra forseti, að það var Jón Steinar Gunnlaugsson sem sagði í sjónvarpsþætti að hann væri lögfræðilega ósammála niðurstöðunni. Herra forseti. Hvernig í ósköpunum getur viðkomandi lögfræðingur verið ósammála niðurstöðunni lögfræðilega ef niðurstaðan að lokum er sú sem hann sagði sjálfur að væri hin rétta? Það er ein skýring til á því. Hann hefur breytt um skoðun frá því hann sagði þessi orð fyrst. Sá ágæti lögmaður hefur reyndar víðar verið með yfirlýsingar sem er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að þegar hann var í sjokkinu eftir dóminn fyrstu dagana þá sagði hann hug sinn. Hann sagði t.d. í helgarblaði Dags, með leyfi forseta:

,,En það getur ekki verið hlutverk dómstóla að ákveða að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka. Það er þetta sem ég hef gagnrýnt við þennan dóm, dómstóllinn var að þessu leyti að taka sér vald sem hann á ekki að hafa.``

Það liggur alveg kristaltært fyrir í þessum orðum hvað helsti hugmyndasmiður ríkisstjórnarinnar á þessu sviði var þarna að segja. Hann var að segja að dómstóllinn hafi ákveðið að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka. Það er alveg klárt hvað hann áleit þá að væri niðurstaða dómsins.

Það sama, herra forseti, kom fram í leiðara Morgunblaðsins sem hér hefur verið lesinn. Menn skulu athuga það að Morgunblaðið er stofnun í samfélaginu sem leggur ríka áherslu á að tekjutengingin sé viðhöfð innan almannatryggingakerfisins, eins og þar sagði einhvers staðar, svo ég rifji nú upp eftir slæmu minni, að tekjutengingar leiði til þess að hægt sé að hjálpa þeim verst settu á sem hagkvæmastan máta. Það er ekki heimskuleg niðurstaða. Þetta hefur verið rauður þráður í skrifum Morgunblaðsins.

En Morgunblaðið var algjörlega klárt á því hvað fólst í niðurstöðu dómsins. Þar segir í leiðara 24. desember, með leyfi forseta:

,,Af þessu er ljóst, að það er 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningar sem ráða þeirri skoðun meiri hluta Hæstaréttar, að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkja, hverjar svo sem tekjur maka hans eru.``

Svona var skilningur allra.

Herra forseti. Eitt af því sem við höfum kannski ekki gert nægilega mikið af hér í stjórnarandstöðunni er að rifja upp minnihlutaálitið. Það er nefnilega ákafalega merkilegt, þ.e. sératkvæði Garðars Gíslasonar og Péturs Kr. Hafsteins. Það kemur fram í því að þeir eru sammála stórum hluta af atkvæði annarra dómenda en þeir gera sterkan ágreining við tiltekin atriði. Og hvaða atriði eru það? Herra forseti. Það er það sem segir í niðurlagi sérálitsins, að Tryggingastofnun hafi mátt skerða tekjutrygginguna frá 1. janúar 1999 eftir að heimild til þess hafði verið leidd í almannatryggingalög með lögum nr. 149/1998. Það er því alveg klárt að þeir eru andstæðir áliti meiri hluta Hæstaréttar vegna þess að þeir telja að það hafi verið í lagi að skerða tekjutrygginguna. Er þá hægt annað en að gagnálykta að sá sem þeir eru að mótmæla hafi talið að það væri ekki í lagi? Þetta liggur alveg skýrt fyrir.

Herra forseti. Tímans vegna ætla ég ekki að rekja þetta frekar í þessu séráliti en það er hægt að tína til hérna fimm sterkar yrðingar þar sem þeir eru alls staðar að mótmæla gagnályktun í áliti meiri hlutans. Ég get sagt það, herra forseti, að þetta sérálit er ein samfelld yfirlýsing um það að við í stjórnarandstöðunni höfum skilið dóminn rétt, vegna þess að við skiljum hann sama skilningi og minni hlutinn. Og hverjir eru í bestri aðstöðu til þess að vita hvað meiri hluti Hæstaréttar var að meina aðrir en þeir sem áttu í daglegri rökræðu vikum saman um dóminn? Þetta eru sterkustu vitni sem hægt er að leiða fram um að hinn upphaflegi skilningur Jóns Steinars Gunnlaugssonar sem kom fram í Degi og Kastljósi, skilningur stjórnarandstöðunnar í dag og skilningur forustu Öryrkjabandalagsins er hinn rétti. Það er ekki hægt að velta vöngum yfir þessu, herra forseti.

[21:45]

Áður en ég hætti, herra forseti, verð ég að geta þess að mér hugnast ekki vinnubrögðin við gerð skýrslu starfshópsins. Þegar maður les skýrslu starfshópsins án þess að hafa til hliðar dómsorðið virðist hún byggjast á rökrænni heild. Þegar maður samles þetta þá kemur hins vegar í ljós að það er verið að beita blekkingum í skýrslu starfshópsins sem mér finnst stappa nærri fölsun. Ég veit að þetta eru stór orð, herra forseti, en stundum er sagt að hálfsannleikur sé lygi. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé lygi að finna í skýrslu starfshópsins.

En, herra forseti, á hverju hvílir allur málflutningur starfshópsins? Hann hvílir á þeirri fullyrðingu og staðhæfingu úr dómsorðinu að í lagi sé að taka tillit til þess að einstaklingar séu í sambúð, svo fremi að það sé gert með málefnalegum hætti. Síðan leiða þeir af þessu að í lagi sé að taka tillit til tekna makans við skerðingu tekjutryggingar svo fremi sem það sé ekki gert með þeim hætti sem var í gildi áður.

Herra forseti. Hvað er það sem þeir segja ekki? Hvað gleyma þeir að geta um? Þeir gleyma að geta þess sem fram kemur áður en kemur að þessari setningu, sem hljóðar svo:

,,Talið hefur verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn. Getur það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Þetta er önnur af meginröksemdum í skýrslu starfshópsins. Eins og ég hef áður sagt í þessari ræðu og allir í þessum sal vita þá er þegar tekið tillit til þessa hagræðis með því að öryrki sem fer í sambúð missir heimilisuppbót og hina sérstöku heimilisuppbót. En hverju sleppa þeir í skýrslu sinni? Það er setningin á undan. Setningin á undan hljóðar svo, herra forseti:

,,Tekjur maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks.``

Þeir taka heldur ekki setninguna þar á undan, á undan þeirri sem er annar af tveimur hornsteinum skýrslunnar hjá þeim. Hún er svohljóðandi:

,,Verður að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka.``

Þetta liggur skýrt fyrir þegar maður les þetta. Þetta er enn skýrara þegar maður les síðan sérálit minni hlutans. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri sem Jón Steinar komst að á fyrstu dögunum eftir dóminn.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, spurningu sem ég hef ekki getað svarað og enginn hefur getað svarað. Hvers vegna lagði stjórnarliðið í þessa sjóferð? Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn fóru í að kroppa 8 þús. kr. af tekjutryggingu sérhvers öryrkja í þessum hópi? Hæstv. utanrrh. sagði í sjónvarpsþætti með mér að málið varðaði 700 manns. Þá er auðvelt að reikna út, miðað við að þetta er fólk með góðar tekjur og borgar skatta eins og fram hefur komið margoft í máli stjórnarliða, að á hverjum mánuði þá yrði kostnaðurinn við að hafa ekki 43 þús. heldur 51 þús. sennilega í kringum 3,5 millj.

Til hvers fara menn í þessa sjóferð? Mér er það algjörlega hulin ráðgáta, herra forseti. Er það vegna þess að það eru krytur millum ríkisstjórnarinnar og forustu Öryrkjabandalagsins? Mér hefur stundum komið það til hugar en ég ætla ekki að fullyrða það. Það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ... (Utanrrh.: Hvað eru sjö sinnum sjö?) --- 49 --- og hv. þm. Steingrímur J. Sigússon sögðu hérna áðan um framkomu ríkisstjórnarinnar gagnvart Öryrkjabandalaginu, ég er sammála því öllu.

Hvað er það sem fólki svíður í þessu máli? Því svíður að hópur sem hefur átt undir högg að sækja hefur leitað með kurt og pí á náðir ríkisstjórnarinnar og óskað eftir að fá leiðréttingu sinna mála en verið hrakinn út í málssókn. Þegar málið hefur unnist þá geta þessir herrar ekki tekið ósigrinum heldur búa til sinn eigin hæstarétt. Ekki nóg með það, þeir útiloka alla aðila frá þeim sem sigruðu og hvern setja þeir yfir, herra forseti? Þeir setja þann mann sem nánast einn úr lögfræðingastóði ríkisstjórnarinnar hafði lýst yfir skoðun sinni. Þeir vissu með öðrum orðum þegar þeir settu hópinn hver niðurstaðan yrði. Fólki svíður að sjá þessa meðferð, herra forseti, og sérstaklega að nú að þessu loknu þá komi hv. þm. stjórnarliðsins og segi af dæmalausum hroka: Kærið okkur bara aftur.

Hvers konar framkoma er þetta, herra forseti?