Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:55:20 (4096)

2001-01-22 21:55:20# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Í áliti minni hlutans á bls. 8 stendur, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við þetta mótmælir minni hlutinn því harkalega að ætlunin sé að skerða bætur til örorkulífeyrisþega í hjúskap aftur í tímann, enda standist það ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.``

Það er fullyrt hér að þetta standist ekki. Hv. þm. var ekki að segja það. Hann sagði að það gæti hugsanlega ekki staðist. Það er mikill munur á því. Stjórnarandstaðan fullyrðir hér að verið sé að brjóta stjórnarskrána. (Gripið fram í: Það er rétt.) Virtustu lögmenn sem hafa fjallað um þetta frv., hafa komið á fund heilbr.- og trn., hafa opinberlega staðfest að þeirra skilningur sé sá að hér sé ekki verið að brjóta stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Það er ótrúleg misnotkun á orðunum finnst mér, herra forseti, þegar minni hlutinn tuðar sífellt um að við séum vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. Mér finnst þetta alvarleg ásökun þegar meiri hlutinn er hér með stóran hóp af virtum mönnum sem segja að þetta sé alls ekki brot á stjórnarskránni og alls ekki brot á mannréttindum, að þá skuli hv. þm. koma með slíkar ásakanir. Mér finnst það með ólíkindum.

Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að heyra formann Samfylkingarinnar segja að það sé ekkert að marka það sem varaformaður Samfylkingarinnar segir. Það er athyglisvert.