Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:57:11 (4097)

2001-01-22 21:57:11# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm., af því að hann vísar hér í lögspekinga sinnar sveitar --- ég vil nú ekki kalla það stormsveit --- ætti að bera saman t.d. hvað Eiríkur Tómasson sagði um þetta í hv. heilbr.- og trn. og hins vegar það sem sagt er í skýrslu starfshópsins. Þar er nokkur merkingarmunur. Það sem Eiríkur Tómasson sagði á fundi nefndarinnar er haft eftir honum hér í minnihlutaálitinu, borið undir hann og staðfest.

Herra forseti. Að öðru leyti liggur fyrir að við höfum fært rök fyrir því, ákaflega sterk rök sem mér finnst að hv. þm. stjórnarliðsins hafi ekki tekist að hrekja, að dómur Hæstaréttar sé ákaflega skýr. Í dómsorðið sjálft er tekin orðrétt upp kröfugerð Öryrkjabandalagsins og af því má ljóst vera að með því er verið að viðurkenna að sú krafa sem sett er fram af hálfu Öryrkjabandalagsins standist. Hver var krafan? Að tekjur maka skerði að engu leyti tekjutryggingu öryrkjans.

Lái mér svo hver sem vill þó ég komi hingað upp og segi: Hæstiréttur hefur sagt að það megi ekki nota tekjur maka til þess að skerða tekjutryggingu öryrkja. Í frv. stjórnarliðsins er áfram viðhöfð þessi aðferð. Ég dreg því þá ályktun að þar sé verið að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég get ekki annað en sagt að þeir sem eru að gera það eru hv. þm. stjórnarliðsins. Ekki svo að þeir séu óvanir slíku, herra forseti. Það er ekki nema mánuður síðan þessir menn fengu myllustein dóms um háls sér. Þeir voru varaðir við því, ekki bara af stjórnarandstöðunni heldur líka af mannréttindalögfræðingum, árið 1998.