Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:04:08 (4101)

2001-01-22 22:04:08# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í nál. minni hlutans segir í lokin, með leyfi forseta: ,,Ummæli sem höfð eru eftir gestum í nefndaráliti þessu hafa verið borin undir þá og hafa þeir staðfest að ummælin séu rétt eftir höfð.`` Það eru tiltekin ummæli sem eru höfð eftir þeim mönnum sem hv. þm. hefur vísað til af miklum þunga og spurt: Hvað er rangt í greiningu þeirra?

Skyldi það t.d. vera rangt í greiningu þeirra, herra forseti, að það var sameiginlegur skilningur Eiríks Tómassonar, Sigurðar Líndals og Skúla Magnússonar að við skýringu á dómi vegur þungt ef kröfugerð annars aðila er tekin beint upp í dómsorð? Undir þetta tóku fleiri lögfræðingar sem komu til fundar við nefndina. Þetta var borið undir mennina sem mæltu tvímælalaust með því að túlka dóminn á þann veg sem stjórnarandstaðan gerir. Er eitthvað óskýrt í þessu, herra forseti?

Eiríkur Tómasson hefur komið dálítið til umræðu. Mætur maður og hefur góðar skoðanir á mörgu. Eiríkur Tómasson sagði aðspurður að í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar væri ekki mikið fjallað um þetta atriði, þ.e. að kröfugerð annars aðilans væri tekin beint upp í dómsorðið og hvers vegna það hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu þegar valið er á milli þeirra tveggja skýringarkosta sem eru uppi. Svo var Eiríkur spurður að því hvort sú leið sem ríkisstjórnin færi leiddi til þess að stjórnin væri að taka áhættu vegna ásakana um mannréttindabrot. Eiríkur Tómasson svaraði því til fyrir nefndinni að svo væri vegna þess að ekki væri hægt að fullyrða með óyggjandi hætti hver yrði niðurstaða dómstóla ef málið yrði borið undir þá að nýju. Dugar þetta fyrir hv. þm., herra forseti? Skilur hann nú hvar sannleikurinn liggur? Eða þarf hann að vera eins og Sál, þarf hann að fara til Damaskus til þess að verða lostinn eldingu skilningsins? (EOK: Ég kem aftur upp.)