Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:06:11 (4102)

2001-01-22 22:06:11# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:06]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér er athyglisverður ágreiningur uppi um það hvort staðhæfingar í áliti meiri hluta og minni hluta fái staðist um það sem sagt var á fundi nefndarinnar. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur beðið stjórnarandstöðuna að skýra þetta, sérstaklega hv. formann Samf., og hefur ekki fengið fullnægjandi skýringar á þessu. Ég held að ég verði að segja eins og er að ég treysti mér til að skýra þennan ágreining og á þann hátt að bæði nefndarálitin, bæði álit meiri hluta og minni hluta, vitni rétt í gesti nefndarinnar, fari rétt með þar sem þeir eru að vitna í það sem segir í nefndinni. Enda hafa þeir staðfest þetta í báðum tilfellum og mikilsvert að menn komist að einhverri niðurstöðu í því máli um hvað sá ágreiningur fjallar sem hér hefur birst.

Mér er nauðsynlegt í þessu að vitna aðeins í nefndarálitin tvö og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstutta tilvitnun í nefndarálit meiri hlutans, en þar stendur svo:

,,Í máli Eiríks Tómassonar kom fram að það væri meginregla að túlka bæri viðurkenningardóma sem kvæðu á um valdmörk löggjafarvaldsins þröngt sem felur í sér að nota eigi þá skýringarleið sem hefur minnstar skerðingar á valdheimildum löggjafans í för með sér. Í þessu tilviki sé því réttast að túlka dóminn þannig að hann feli ekki í sér algert bann við tekjutengingu tekjutryggingar við tekjur maka, enda gefur dómurinn ekki skýrt til kynna að svo sé.``

Þetta er borið undir þennan ágæta lögspeking og hann segir að þetta sé rétt. Þetta felur að sjálfsögðu í sér að það er ekki niðurstaða dómsins að fortakslaust sé bannað að skerða tekjutengingu vegna tekna maka. Það er alveg ljóst. Það þýðir jafnframt að frv. sem lagt er fram, en það felur einmitt í sér að þessar tekjutryggingar eru tekjutengdar, er ekki að þessu leyti neitt brot á stjórnarskránni enda var Eiríkur Tómasson spurður að því sérstaklega. Það er gott að hv. formaður Samf. er að hlusta á þessar umræður vegna þess að ég treysti mér til að skýra þetta. Lögfræðingurinn Eiríkur Tómasson var beinlínis spurður að því, eins og allir þessir þrír lögspekingar, hvort hann teldi að í framlagningu frv. væri fólgið brot á stjórnarskránni. Hann sagði að svo væri ekki.

Hvernig rímar þetta við þá tilvitnun sem er í áliti minni hlutans í þennan ágæta lögfræðing, Eirík Tómasson? Þar kemst sá ágæti lögfræðingur, Eiríkur Tómasson, að þeirri niðurstöðu, og hér vitna ég í þetta orðrétt:

,,Aðspurður hvort með leið ríkisstjórnarinnar væri hún að taka áhættu vegna ásakana um mannréttindabrot svaraði Eiríkur Tómasson því til fyrir nefndinni að svo væri vegna þess að ekki væri hægt að fullyrða með óyggjandi hætti hver yrði niðurstaða dómstóla ef málið yrði borið undir þá að nýju, en það væri hins vegar pólitískt mat hvort slík áhætta yrði tekin.``

Hvernig rímar þetta við fyrri ummæli? Það rímar að því tilliti að Eiríkur Tómasson er þeirrar skoðunar að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið fólgin í því að lágmarkið sem gildandi lög segja nú til um hafi verið dæmt of lágt. Sú leið sem ríkisstjórnin fer er að setja nýtt lágmark. Þá kemst hinn ágæti lögfræðingur að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að meiri áhætta sé fólgin í því að setja lágmark en að setja ekkert lágmark og sætta sig við 51 þús. kr. Í þessu er ágreiningurinn fólginn. Rétt er haft eftir hinum ágæta lögfræðingi í báðum nefndarálitum og um þetta á ekki að þurfa að vera þessi ágreiningur.

Reyndar er athyglisvert að ekki er algengt í nefndarálitum sem þessum að höfð séu bein ummæli eftir gestum nefndarinnar en það er gert í þessum tilvikum í báðum nefndarálitunum og það er borið undir viðkomandi lögfræðinga og þeir samþykkja þau. Ég held að fullkomlega eðlilega sé staðið að þessu í báðum nefndarálitum og ég vona að ég hafi að einhverju leyti skýrt þennan misskilning sem hér hefur verið í gangi í umræðunni í þingsalnum. En það er að sjálfsögðu talsvert mikils virði að reyna að eyða misskilningi þegar það er hægt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og er ánægjulegt ef það tekst og veit ég þó ekki hvort það hefur tekist með þessari tilraun minni.

Ég vil einnig koma að öðru atriði og ég hefði óskað eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson yrði viðstaddur þegar ég fer yfir það. En þar vék hann að því í ræðu sinni fyrir skömmu hvernig hann skildi niðurstöðu minni hluta Hæstaréttar. En ég tel að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi einmitt misskilið ágreininginn sem er á milli minni hluta og meiri hluta Hæstaréttar um einmitt þetta atriði. Ég skal koma inn á það á eftir en það snertir einmitt sama misskilninginn og kom fram í umfjöllun um nefndarálitin. En ég treysti mér ekki til þess að fara í þetta fyrr en hv. þm. kýs að koma í þingsalinn og hlýða á þetta.

(Forseti (ÁSJ): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess.)

Ég er þakklátur hæstv. forseta fyrir það.

Það sem mér finnst hafa komið fram mjög skýrt í umræðunni og þá ekki síst eftir að gestir heilbr.- og trn. höfðu flutt sitt mál, er sú niðurstaða að dómurinn er óljóst orðaður. Nokkrir gestir heilbr.- og trn. töldu reyndar að svo væri ekki og töldu niðurstöðuna skýra. Ljóst er að fjórmenningarnir töldu svo ekki vera enda hefur það komið fram í þingskjalinu sjálfu en það er líka alveg ljóst að þeir þrír lögfræðingar, Sigurður Líndal, Skúli Magnússon og Eiríkur Tómasson, tóku allir mjög skýrt fram að dómurinn væri óskýr. Þeir tóku einnig mjög skýrt fram, svo ég endurtaki það, að dómurinn væri með þeim hætti að ekki væri hægt að líta á hið framlagða frv. sem brot á stjórnarskránni.

Einn af þessum ágætu lögfræðingum sagði mjög skýrt að það væri frumskylda Hæstaréttar og dómstóla almennt að leysa úr ágreiningi en ekki að búa ágreininginn til. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði að það er frumskylda dómstóla að leysa úr ágreiningi en ekki að búa ágreining til. Þetta mál er með þeim hætti að úrskurður Hæstaréttar hefur skapað mikil átök á þjóðþinginu og í þjóðfélaginu öllu og það verður að harma að dómstóllinn standi ekki við það hlutverk sitt, frumskyldu sína að leysa úr ágreiningi fremur en að búa hann til.

Af því ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson heiðrar mig með nærveru sinni ætla ég að gera smáhlé á málflutningi mínum og víkja að því hvernig hann túlkar niðurstöðu minni hluta dómsins og segir að niðurstaða minni hluta dómsins sanni í raun og veru að meiri hluti dómsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Þetta stenst ekki nákvæma skoðun og skal ég nú víkja að því.

[22:15]

Í þessu máli eru meginálitaefnin tvö. Annars vegar er því haldið fram að niðurstaða dómsorðsins sé sú að lágmarkið sem er til umræðu, lágmarkið sem gildandi lög nú segja til um sé of lágt, það þurfi annað lágmark sem standist kröfur stjórnarskrárinnar. Þetta er önnur túlkunin. Hin túlkunin er sú að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að skerða. Minni hlutinn kemst mjög skýrt og skorinort að því að ekki sé ástæða að hagga því lágmarki sem lögin segi til um. Nú skal ég vitna í dóminn.

Þegar hann hefur komist að þeirri niðurstöðu í aðfaraorðum að það sé eðlilegt og málefnalegt að taka nokkurt mið af því við lagasetningu um aðstoð við öryrkja hvers stuðnings öryrki megi vænta af maka sínum --- hann telur sem sagt að það sé fullkomlega heimilt að tengja tekjutrygginguna við tekjur maka --- þá kemst hann hins vegar að niðurstöðu í þessu máli og niðurstaðan er svohljóðandi:

,,Ekki eru efni til, að dómstólar haggi því mati,`` --- og hvaða mat er það? Það er að sjálfsögðu mat laganna á lágmarkinu sem er skilmerkilega skilgreint, dómurinn kemst ekki að þeirri meginniðurstöðu að taka megi tillit til tekna maka þó að það sé líka niðurstaða hans heldur er meginniðurstaða hans sú að það mat á lágmarkinu sem felst í lögunum standist. Þar af leiðandi er ekki hægt fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að túlka niðurstöðu minni hlutans sem þeim hætti sem hann gerir nema þá að hann kjósi að líta fram hjá orðalagi dómsins þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ekki eru efni til, að dómstólar haggi því mati, enda hefur ekki verið sýnt fram á með haldbærum rökum, að staða öryrkja í hjúskap geti vegna tekna maka orðið á þann veg, að stjórnarskrárvarinn réttur þeirra til samhjálpar sé fyrir borð borinn.``

Hann vill sem sagt ekki hagga því lágmarki sem lögin segja til um. Þetta er skilningurinn sem er nauðsynlegt að leggja í niðurstöðuna. Niðurstaðan er fólgin í tveimur efnisatriðum, annars vegar telur hann heimilt að skerða tekjur örorkulífeyrisþega, skerða tekjutrygginguna vegna tekna maka, og hins vegar lætur hann standa eftir matið á lágmarkinu. Ekki þýðir fyrir hv. þm. að horfa fram hjá þessu.

Með öðrum orðum, hann kemst að þeirri niðurstöðu að matið standi og er ósammála meiri hlutanum um að matið sé of lágt. Ástæðulaust er að gera þetta mál flóknara en það er og reyna að lesa út úr þessum dómum annað en í þeim stendur þegar það er augljóst mál eins og í þessu tilfelli.

Ef menn fallast á það með lögspekingunum þremur að dómurinn sé óljós þá leita menn að túlkun á því hvað hann þýðir. Dómurinn skapar með óljósu orðalagi tómarúm og óhjákvæmilegt er að bregðast við þessu tómarúmi með lagasetningu. Þetta þýðir með öðrum orðum að það var ekki bara valkostur heldur skylda Alþingis að setja lög til að fylla upp í það tómarúm sem úrskurður Hæstaréttar skapaði.

Ég vil einnig leggja áherslu á að lögfræðingarnir þrír sem ég hef verið að vitna í voru sammála um að framlagning frv. fæli ekki í sér brot á stjórnarskrá. Ég hef orðið var við að smámisskilningur hefur verið í gangi. Stjórnarmeirihlutinn hefur hvergi haldið því fram að Hæstiréttur hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að sá háttur sem hafður er á í 5. mgr. 17. gr. laganna stangaðist ekki á við stjórnarskrána. Það er augljóslega niðurstaða dómsins, ég vona að það sé ljóst, það er alveg kristalklárt og viðbrögðin við þessari niðurstöðu felast í því að við leggjum fram frv. En það er þar sem ágreiningurinn er, við föllumst ekki á að framlagning frv. sé brot á stjórnarskránni. Það er annað mál. En ég heyrði að menn blönduðu þessu áðan svolítið saman og vildi þess vegna taka þetta fram til skýringar.

En þremenningarnir töldu að jafnvel þótt orðalagið væri óljóst og mætti skilja það á tvö vegu --- þeir tóku það fram að það mætti skilja þetta á tvo vegu, þessir þrír --- þá væri eðlilegt að skilja úrskurð Hæstaréttar, eins og þeir orðuðu það, þröngt, þ.e. að ekki væri með þessum úrskurði lagst gegn tekjutengingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþeganna. Það mætti sem sagt skerða hana þó að það væri gert með þeim hætti í lögunum sem ekki væri við unað.

Meðal merkilegra atriða sem komu fram á fundi heilbr.- og trn., en þar komu mjög margir athyglisverðir hlutir fram sem fullkomin ástæða er til fyrir þingið að hugleiða rækilega, er vaxandi hlutverk dómstóla, ekki síst stjórnlagadómstóla, og var þá líka sérstaklega vitnað í Evrópudómstólinn í lagasetningu. Þetta er mjög athyglisvert mál og ekki nýtt af nálinni því að raunar hefur um fátt verið skrifað meira en afskipti dómstóla af lagasetningu á seinni árum. Ég býst við því að flestir minnist þess að þegar hæstiréttur Flórída tók að sér að setja lög, setja reglur, var það dæmt ólöglegt af hæstarétti Bandaríkjanna. Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að því og var einróma í niðurstöðu sinni að það væri brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna að hæstiréttur Flórída færi að setja lög og reglur.

Þegar vitnað er í Evrópudómstólinn því til sönnunar að dómstólar séu í auknum mæli að setja reglur má aldrei gleyma því að dómstólar eru að dæma um atburði sem orðnir eru. Þegar þeir leyfa sér að setja nýjar réttarreglur eru þeir að setja réttarreglur sem virka aftur á bak. Slíkt athæfi dómstóla er í hæsta máta vafasamt ef skoðaður er aðskilnaður dómsvalds og löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem er hornsteinn lýðræðisins samkvæmt þeim sáttmálum sem við erum aðilar að og samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðsins en Evrópuráðið er í raun og veru vörður lýðræðisins í Evrópu og hefur sérstakan dómstól til að fjalla um slík mál.

Það er allathyglisvert ef menn vitna í afskipti Evrópudómstólsins af lagasetningu og telja að það sé vitnisburður um ný sjónarmið í lýðræðinu, að þetta sé til að styrkja lýðræðið. Það er nokkuð sérkennilegt vegna þess að innan Evrópusambandsins er samkomulag um að kalla þennan þátt dómstólsins í löggjafarstarfinu mjög sérstöku nafni. Þetta heitir hinn lýðræðislegi hallarekstur á Evrópusambandinu, hvorki meira né minna. Þetta er einn af mikilvægustu þáttunum í því sem kallað er hinn lýðræðislegi hallarekstur á Evrópusambandinu. Vil ég minna ákveðna þingmenn á að fara sér varlega í því ef þeir hafa í hyggju að taka mark á upplýsingum sem segja að afskipti Evrópudómstólsins af lagasetningu sé til marks um styrkleika lýðræðisins. Þvert á móti. Menn eru sammála um að þetta sé ein af svörtustu hliðunum á þessum hallarekstri lýðræðisins í Evrópusambandinu.

Menn viðurkenna að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að ráðherraráðið --- en hvor tveggja stofnunin kemur að lagasetningu --- brjóti reglur lýðræðisins og þá ekki síst dómstóllinn sjálfur því að dómstóllinn er skipaður mönnum sem eru ekki kosnir af þjóðum Evrópusambandsins og hafa ekki umboð til lagasetningar eins og það er skilgreint í mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég geri ráð fyrir því að hvort sem menn eru á þessum stað hlynntir aðild að Evrópusambandinu eða andvígir aðild hafi menn sameiginglega áhyggjur af lýðræðislegum hallarekstri Evrópusambandsins því það hafa Evrópusambandsþjóðirnar sjálfar. Þær hafa þungar áhyggjur af þessu. Það vekur mikla undrun mína þegar það er fært fram sem rök fyrir framförum í lýðræðisþjóðskipulagi að dómstólar séu að taka sér vald sem þeir hafa ekki og er kallað framsækin lagasetning dómstóla. Ég held ég ætti að leyfa mér að ganga svo langt að segja að þetta hlutverk dómstóla, sem hefur farið vaxandi, kalli á umræðu og það gagnrýna umræðu og ég held að við hljótum að geta verið sammála um það að ekki fer vel á því í þessum þingsal að lýsa yfir sérstakri ást og aðdáun á því að Evrópudómstóllinn fari út fyrir hlutverk sitt.

Dómstólar leita að sjálfsögðu heimildar í lögum til túlkunar og fyrir kemur að þeir finna tómarúm í réttarfarinu og þá leita þeir heimilda í gildandi lögum til að fylla í það tómarúm. Ef dómstólarnir setja hins vegar nýjar reglur á öðrum grundvelli en grundvelli gildandi laga er verið að seilast inn á afar vafasaman vettvang. Verið er að seilast inn á það svið sem grunnreglur lýðræðisins ætla löggjafanum.

Ekki er góður svipur á því að löggjafarsamkundan sjálf sem Alþingi er skuli fagna slíkri þróun. Þegar við göngumst undir alþjóðlegar skuldbindingar hvílir sú skylda á herðum okkar að laga löggjöf okkar að slíkum skuldbindingum eftir því sem við skiljum þær. Við eigum ekki að taka því fagnandi að dómstólar séu að taka þetta vald í sínar hendur.

Deilan um það hvort heimilt sé samkvæmt dómi Hæstaréttar að tekjutengja tekjutryggingu örorkulífeyrisþega við tekjur maka er á margan hátt athyglisverð deila og merkileg og þá ekki síður sú niðurstaða réttarins að skylt sé að tryggja með lögum rétt sérhvers einstaklings til a.m.k. einhverrar lágmarksframfærslu án tillits til fjölskyldutekna en þannig verða menn að skilja dóminn. Er þessi niðurstaða Hæstaréttar, að ekki sé minnst á þá túlkun stjórnarandstöðunnar á dómnum að það sé beinlínis óheimilt að skerða tekjutrygginguna, í samræmi við alþjóðasamninga?

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 21. janúar er allítarleg grein eftir Pál Þórhallsson, sem er lögfræðingur hjá Evrópuráðinu, en ég hef áður greint þingheimi frá því sem hann veit, að Evrópuráðið mótar, hefur mótað og fylgist með því að farið sé að reglum lýðræðisins, hefur eftirlit með meðlimaþjóðunum, gerir kröfur til þeirra, setur fram reglur sem þessar þjóðir þurfa að uppfylla. Þessi lögfræðingur fjallar nokkuð um þessi mál og er hófsamur í umfjöllun sinni og nokkuð rökfastur og ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna aðeins í grein hans. Hér segir:

,,Ákvæðinu til fyllingar vísar Hæstiréttur til ýmissa alþjóðasamninga. Þau ákvæði alþjóðasamninga sem Hæstiréttur vitnar í (þ.e. einkum félagsmálasáttmála Evrópu og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi) eru flest mjög almennt orðuð og taka ekki nákvæmlega á álitaefninu um tekjutengingu bóta. Undantekningu er þó að finna í 67. gr. alþjóðavinnumálasamþykktar frá 1952 um lágmark félagslegs öryggis. Þar er kveðið á um lágmarksbætur sem hlutfall af launum verkamanns. Einungis megi fara niður úr lágmarkinu þegar aðrar tekjur fjölskyldunnar fari fram úr fyrirfram ákveðnum verulegum fjárhæðum. Með öðrum orðum``, segir lögfræðingurinn, ,, aðrar tekjur fjölskyldunnar eiga ekki að byrja að hafa áhrif strax til lækkunar.``

[22:30]

Ég ætla að bæta við annarri tilvitnun eftir þennan ágæta lögfræðing. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Enn fremur hafnar Hæstiréttur þeim rökum héraðsdóms að gagnkvæm framfærsluskylda hjóna renni stoðum undir það fyrirkomulag að tengja bætur við tekjur maka. Bendir hann á að þetta eigi ekki við um ýmsar aðrar bætur og það sé aðalregla íslensks réttar að slík tekjutenging eigi sér ekki stað, samanber einnig jafnréttisákvæði laga og stjórnarskrár. Er einnig vitnað í 5. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um jafnrétti hjóna og segir Hæstiréttur felast í henni réttur einstaklinga til framfærslu fjölskyldu sinnar.`` --- Og síðan segir lögfræðingurinn: --- ,,Þetta síðastnefnda virðist reyndar vera nokkuð nýstárleg túlkun í þessu samhengi. Niðurstaða Hæstaréttar er því sú að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu.`` --- Og lögfræðingurinn heldur áfram nokkuð neðar: --- ,,Í bakgrunni, þótt ekki sé það beint orðað, virðist vera sú hugsun að það fái ekki samrýmst sjálfsvirðingu einstaklinga að þeir séu alfarið upp á maka sinn komnir fjárhagslega.

Þessi túlkun gengur lengra en alþjóðasamningar beinlínis mæla fyrir um.`` --- Segir lögfræðingurinn og hann bætir við: --- ,,Má benda á að það viðhorf er víða rótgróið að félagslega tryggingar- og aðstoðarkerfið hlaupi einungis undir bagga ef fjölskyldan af einhverjum ástæðum framfleytir ekki viðkomandi. Hæstiréttur er því fyrst og fremst að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli, skulum við segja, nútímaviðhorfa um stöðu fatlaðra, sjálfsvirðingar einstaklingsins og jafnréttis hjóna. En um leið teygir hann sig lengra við skýringu stjórnarskrárinnar en dæmi eru um.``

Þetta segir hinn ágæti lögfræðingur Páll Þórhallsson í þessari grein. Og hann kemur enn að einu atriði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Loks, varðandi það atriði hvort dómurinn taki alveg fyrir tengingu örorkubóta við tekjur maka, má benda á að í 67. gr. alþjóðavinnumálasamþykktar frá 1952 um lágmark félagslegs öryggis sem Hæstiréttur vitnar í er beinlínis gert ráð fyrir að slíkt megi gera enda sé um verulegar viðbótartekjur að ræða.`` --- Þetta segir lögfræðingurinn, og hann bætir við:

,,Túlkun 65. gr. stjórnarskrárinnar telst til nokkurra tíðinda og getur opnað leið síðar í öðrum málum til að slá föstum réttindum sem ekki eru beint orðuð í stjórnarskánni.``

Og hann bætir við:

,,Tenging jafnréttisreglunnar með þessum hætti við félagsleg réttindi auðveldar málshöfðanir þar sem tilteknir þjóðfélagshópar spyrja sem svo: Hvers vegna fáum við minna en hinir? Þannig er gefið undir fótinn með að deilumál sem hingað til hafa fyrst og fremst verið háð á pólitískum vettvangi fari í vaxandi mæli fyrir dómstólana. Þessi þáttur vekur hvað mestar spurningar. Er þetta æskilegt og lýðræðislegt eða einfaldlega óhjákvæmilegt í réttarríki?`` --- spyr þessi ágæti lögfræðingur og fer nú í þetta mál af mikilli yfirvegun og án þess að vera yfirlýsingaglaður en telur að þarna sé gengið lengra en alþjóðlegir samningar segja til um.

Ekki er hægt að neita því að niðurstaða Hæstaréttar hefur á sér sérkennilegar hliðar. Hún leiðir m.a. til þess að nú er opin leið fyrir öryrkja sem ekki hefur sótt um tekjutryggingu vegna tekna maka að sækja um greiðslu óháð tekjum makans. Það er því ljóst að niðurstaða dómsins opnar leið fyrir hjón sem hafa fjölskyldutekjur á mánuði 400--800 þús. eða meira til þess að sækja um aðstoð og þau munu gera það. Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta mun gerast. (Gripið fram í: Ekki hjónin, öryrkinn.) Öryrkinn.

Afleiðingin er óneitanlega sú að fjármunir verða fluttir frá þeim sem minna hafa til þeirra sem meira hafa milli handa. Þetta leiðir af sjálfu sér. Þetta er það álitaefni sem við þurfum að hugleiða hér, hvort þetta samrýmist hugsun okkar um tilgang almannatrygginganna.

Ég ber fulla virðingu fyrir þeim skoðunum sem menn hafa sett hér fram um að menn eigi alltaf ákveðinn einstaklingsbundinn rétt. Ég er hins vegar ekki á þeirri skoðun að það sé forgangsverkefni. Ég minnist þess að þegar Alþfl. var við völd á tímum þegar samdráttar gætti í efnahagslífi þjóðarinnar þá taldi hann fullkomlega eðlilegt að leita leiða til þess að styðja þá helst sem minnstar tekjur höfðu. Þannig er allt þetta eða mikill hluti af þessum tekjutryggingarákvæðum í lögum til komið, að tilhlutan Alþfl. sem þá var í ríkisstjórn og fór með málaflokkinn og hafði á þeim tíma þá skoðun að eðlilegt væri að beina kröftunum til þeirra sem minnstar tekjur hefðu og ég fellst á það sjónarmið. Ég geri mér grein fyrir því að innan flokks míns eru aðilar sem eru andstæðrar skoðunar og telja að þetta séu réttindi sem allir eigi og það eigi þar af leiðandi að afnema tekjutengingar, en ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að við eigum að hafa tekjutengingar og að þetta mál, þ.e. dómur Hæstaréttar, varpi sérkennilegu ljósi á tilgang almannatrygginga almennt.

Fyrir liggur að við munum taka upp umræðuna um tilgang almannatrygginga og ég er reiðubúinn til þess að ræða það mál, ég held að það sé mjög mikilsvert, og mun þá að sjálfsögðu halda því sjónarmiði mínu til haga að megintilgangur almannatrygginga sé að tryggja rétt þeirra sem minnst bera úr býtum innan hvers flokks.

Ég held að þrátt fyrir mikil átök um þetta mál, sem öllum er ljóst að hafa verið djúpstæð, þá hafi málið samt sem áður, umræðan og vinnslan á vettvangi Alþingis leitt fram ákveðna hluti í umræðunni. Mér finnst einsýnt að halda því fram að það hafi verið niðurstaða umræðunnar og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið óljós og óhjákvæmilegt hafi verið að bregðast við með lagasetningu. Í mínum augum er það augljóst að ekki er verið að banna skerðingu á tekjutengingu vegna tekna maka örorkulífeyrisþegans og því er það frv. sem hér er borið fram, sem felur í sér heimild til slíkrar skerðingar en færir lágmarkið upp á við, ekki brot á stjórnarskránni og ég legg áherslu á að frv. verði samþykkt.