Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:42:23 (4105)

2001-01-22 22:42:23# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:42]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Látum vera að vitna í fjarstadda menn um hvor túlkunin sé rétt. Ég vil einungis spyrja hv. þm. tveggja spurninga:

Er dómsorðið ekki í fullu samræmi við kröfugerð Öryrkjabandalags Íslands? Það er fyrri spurningin.

Önnur spurningin er þessi: Ef það var skoðun Hæstaréttar að hann gerði fyrirvara við kröfugerð Öryrkjabandalags Íslands og málflutning þess allan í þessu máli af hverju gerði hann það ekki í dómsorði til að fyrirbyggja allan misskilning á túlkun dómsins og niðurstöðu hans? Hæstarétti var í lófa lagið að gera það. Hæstaréttardómarar hljóta að vita um þá algengu túlkunarreglu að þegar kröfugerð er tekin beint upp í dómsorð þá hljóti það að vega mjög þungt við túlkun dóms.

Herra forseti. Ég mótmæli því að hægt sé að leyfa sér að líta fram hjá þessu en leita í stað þess lúsa í forsendum dómsins fyrir rökstuðningi niðurstöðu sinnar og neita að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að kröfugerð Öryrkjabandalagsins er tekin beint upp í dómsorðið og enginn fyrirvari er gerður við það í dómsorði. Ég vil gjarnan fá svar við þeim tveimur spurningum sem ég bar fram, herra forseti.