Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:43:46 (4106)

2001-01-22 22:43:46# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:43]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég taka það skýrt fram að þegar ég fer hér með tilvitnanir í orð gesta þá á ég einungis við tilvitnanir sem fram koma í nefndarálitunum, sem ég tel sjálfur að séu rétt eftir höfð, eins og sagt er beinlínis í nefndarálitunum að haft hafi verið samband við alla aðila. Ég legg því áherslu á að ég vitna ekki í önnur ummæli en þau sem vitnað er til í nefndarálitunum.

Að því er varðar dómsorðið og afstöðu dómsins til dómskröfu, þ.e. gagnáfrýjandans, þá er dómsorðið skýrara en aðfaraorðin, það er ljóst. En það er líka skýrt af forsendum dómsins að dómurinn hefur skilið það svo sem gagnáfrýjandi væri að draga í efa að lögin stæðust stjórnarskrárákvæðin með þeim hætti sem þau kveða á um þessa skerðingu. Það kemur reyndar fram í forsendum dómsins að það er einmitt þannig sem dómurinn skilur þetta og þess vegna nefnir hann sérstaklega að það standist ekki stjórnarskrána að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka með þessum hætti. (BH: Ekki í dómsorði.) Af því ég hef aðeins tíma til að svara þessu vil ég taka fram að óhjákvæmilegt er, ef menn telja dóminn óljósan m.a. vegna þess sem sagt er í forsendum dómsins, að menn leiti í forsendunum að skilningi á dómnum.