Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:50:03 (4109)

2001-01-22 22:50:03# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áttað mig á því að það er pólitískt mat ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að hægt sé að komast fram hjá Hæstarétti og standast stjórnarskrá Íslands með því að skerða tekjutrygginguna sem þessu nemur, um 7.500 kr. á hvern öryrkja sem hennar gæti notið. Ég á svolítið erfitt með að skilja hið pólitíska mat og siðferðið sem þarna býr að baki.

Ég vil hins vegar inna hv. þm. nánar eftir lagalegri réttlætingu fyrir því að beita ýtrustu fyrningarreglum í lögum, sem ég tel reyndar að standist ekki og mér finnst sannfærandi rökstuðningur lögmanna sem telja að þessar reglur eigi ekki við. Það er líka póltískt mat hvernig fyrningarreglum er beitt þegar um er að ræða sanngirnismál og augljósan úrskurð Hæstaréttar, því að hluta til þá deila menn ekki um þann úrskurð þó deilt sé um hann að öðru leyti. Menn deila ekki um að það eigi að greiða öryrkjum aftur í tímann. Mér er því óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin kýs að beita fyrningarákvæðum í lögum til að hafa bætur af öryrkjum. Ég auglýsi eftir rökstuðningi, þessa vegna lagalegum, siðferðilegum og pólitískum, frá hv. talsmanni Sjálfstfl. hvað þetta efni snertir.