Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:51:50 (4110)

2001-01-22 22:51:50# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:51]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Vegna tímaskorts áðan þá tókst mér ekki að ljúka alveg yfirferð minni yfir fyrri spurninguna, um með hvaða hætti menn kæmust að niðursstöðu um það hvert þetta lágmark ætti að vera, sem væri samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar 25 þús. kr.

Nú er það augljóst að þessar 25 þús. kr. auk grunnlífeyris eru ekki há upphæð. Um það eru allir sammála. Við skulum hins vegar hafa það hugfast að þarna er skilgreint lágmark óháð tekjum. Við erum að skilgreina lágmark sem þjóðfélagið ætlar sér að greiða óháð tekjum makans. Það leiðir til þess, eins og ég hef bent á áður, að nú eykst réttur fólks með til þess að gera háar fjölskyldutekjur til að sækja í opinbera sjóði verulegar fjárhæðir og það er gert óháð tekjum maka.

Að sjálfsögðu er ástæða til, af því þetta er óháð tekjum maka, að fara varlega í að skilgreina þessi réttindi vegna þess að þau geta, eins og ég sagði áðan, flutt réttinn frá þeim sem minna hafa til hinna sem meira hafa. Það er óhjákvæmilegt að fara varlega í þetta.

Hvað fyrningarregluna varðar þá styðst hún við gildandi lög og því er ekkert eðlilegra en að vitna í gildandi lög til að ákvarða (Gripið fram í.) hvernig farið verði í þessa fyrningu.