Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:00:58 (4138)

2001-01-23 11:00:58# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þegar tekjur maka öryrkja ná rúmlega 133 þús. kr. marki byrjar tekjutryggingin að skerðast. Tekjutrygging og grunnlífeyrir eru rúmlega 51 þús. kr. Þegar þessar upphæðir eru lagðar saman fæ ég út um 185 þús. kr. Þetta þýðir að fjölskyldutekjur öryrkja sæta skerðingu innan við 200 þús. kr. markið gagnstætt því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Hann verður að fara með réttar tölur. Það er þó grunnkrafa sem við hljótum að gera til hans.

Hv. þm. gerði mannréttindi og brot á mannréttindum að umræðuefni og sagði að þar við ættum að einskorða okkur við líflát, hópnauðganir og pyndingar. Þessi þrönga skilgreining á mannréttindum er mér ekki að skapi og er ekki harla nútímaleg. Þegar velferðarsamfélög (Forseti hringir.) samtímans, auðugustu ríki heimsins, og við erum þar á meðal, fjalla um skiptingu verðmætanna þá er viðfangsefnið mannréttindi og ég held áfram þeirri umræðu í öðru andsvari.