Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:06:59 (4145)

2001-01-23 11:06:59# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað spurning um notkun á hugtökum. Hvað eru mannréttindi? Í mínum huga eru mannréttindi alltaf mjög alvarlegur hlutur og mér finnst Hæstiréttur, þó að ég vilji ógjarnan gagnrýna hann, ganga nokkuð langt í notkun á þessu hugtaki. Ég skil það miklu alvarlegar, því miður, herra forseti. Ég hef bara þann skilning á hugtakinu mannréttindi.

Varðandi fyrninguna og að öryrkjar geti verið öryrkjar í 29 ár. Vissulega geta þess verið dæmi. En hefur hv. þm. reiknað út hvaða bætur hann fengi þá? Hann fengi ekki eina milljón, tvær milljónir eða fjórar milljónir heldur fengi hann sennilega nær 12 eða 15 milljónum. Er það virkilega vilji hv. þm. sem jafnaðarmanns að fara að borga út andvirði íbúðar til fólks sem er með yfir 200 þús. kr. tekjur á mánuði og jafnvel 300 þús. kr.?