Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:08:10 (4146)

2001-01-23 11:08:10# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það orðið ljóst að hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið hér í ræðustól Alþingis til, eins og við segjum stundum, að skamma Albaníu. Hann er í raun og veru að senda Hæstarétti tóninn þrátt fyrir að hann sé að segja að hann vilji ógjarnan skammast vegna þess að Hæstiréttur talar hiklaust um mannréttindi samkvæmt stjórnarskránni. Það er alvarlegt ef hugtökin í huga þingmanna eru þannig að mannréttindi séu fyrst og fremst þau grófu brot sem við þekkjum úr verstu ríkjum heims.

Í öðru lagi varðandi öryrkja. Ég hef litið á það sem hluta af félagshyggju og félagslegum sjónarmiðum í velferðarríki að öryrkjum og óvinnufæru fólki sé gert kleift að lifa með reisn og ef viðkomandi er öryrki og óvinnufær muni hann fá úr sjóðum samfélagsins hvort sem hann er óvinnufær og öryrki í færri ár eða fleiri.