Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:16:32 (4154)

2001-01-23 11:16:32# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Enn spyr hv. þm., og ætti ekki að þurfa að spyrja vegna þess að allar þessar upplýsingar komu fram í nefndinni við umfjöllun málsins: Hvað á að greiða? Það er ákvörðun ráðherra hverju sinni hvaða frítekjumark hann setur í reglugerðir og það hefði ráðherra getað gert í þessu tilviki. Ef hann má ekki tengja samkvæmt tekjum maka hefði verið hægast að setja frítekjumark miðað við einstakling og ákveða þá síðan hvert það frítekjumark væri. Það er auðvitað á valdi ráðherra. Síðan hefði þingið þurft að koma saman og fjalla um frekari afleiðingar þessa dóms.

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. þar sem hann talar um greiðslur úr lífeyrissjóði, þá vil ég minna hv. þm. á --- ég veit það þarf ekki að gera það en ég ætla að gera það samt --- að þeir sem eru fatlaðir frá fæðingu eiga engan rétt í lífeyrissjóðum. Við höfum líka talað um húsmæður og við höfum talað um unga öryrkja. Samkvæmt upplýsingum í staðtölum Tryggingastofnunar eru ungir öryrkjar mun fleiri á Íslandi en í öðrum löndum og þeir eiga lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóði.