Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 12:13:25 (4161)

2001-01-23 12:13:25# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[12:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Frv. er ætlað að uppfylla dóm Hæstaréttar frá 19. des. sl. í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun ríkisins. Forsaga þessa máls hefur verið ítarlega rakin bæði í fjölmiðlum og hér á Alþingi. Öryrkjabandalag Íslands höfðaði mál til viðurkenningar á því að Tryggingastofnun ríkisins hefði verið óheimilt frá 1. jan. 1994 til 31. des. 1998 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka sem ekki væri lífeyrisþegi með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna örorkulífeyrisþegans. Þá vildi Öryrkjabandalagið einnig fá viðurkennt að slík skerðing hefði verið óheimil eftir að hún var lögfest 1. jan. 1999.

[12:15]

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í málinu að óheimilt hefði verið að skerða tekjutrygginguna á fyrrnefnda tímabilinu en taldi skerðinguna heimila frá 1. jan. 1999, eftir að lögunum hafði verið breytt.

Öryrkjabandalagið, gagnáfrýjandi í málinu, áfrýjaði til Hæstaréttar 29. maí árið 2000 og krafðist þar staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að einnig verði viðurkennt með dómi Hæstaréttar að aðaláfrýjanda, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins, hafi frá 1. jan. 1999 verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap skv. 5. gr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.

Herra forseti. Hér er höfðað mál á klárum og einföldum forsendum, tiltekinn gjörningur sem er skerðing tekjutryggingar einstaklings, örorkulífeyrisþega, á grundvelli tekna maka. Vísað er skýrt til þeirra stafliða í lögum sem beitt hefur verið við ákvörðun um skerðingu tekjutryggingarinnar. Allt er þetta afar skýrt að mínu mati. Ákveðin upphæð liggur fyrir, bæði grunnlífeyrir og tekjutrygging, og skerðing hennar er kærð. Ekki þarf að gera neinar sérstakar kröfur vegna upphæðarinnar. Hún liggur fyrir, bæði í þeim lögum og reglum sem farið er eftir og í því verklagi sem beitt hefur verið og var báðum aðilum vel kunn.

Beðið er um svar Hæstaréttar við einfaldri spurningu: Var þessi skerðing eins og henni var þarna beitt heimil eða ekki? Svar Hæstaréttar var klárt: Hún var ekki heimil.

Dómsorðið er líka skýrt og svörin eru mjög afdráttarlaus fyrir mér. Nei, skerðingin var ekki heimil og viðurkennt er af aðaláfrýjanda, svo vitnað sé í dóminn, herra forseti, að Tryggingastofnun hafði verið ,,óheimilt frá 1. jan. 1994 á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki er ekki lífeyrisþegi.``

Herra forseti. Upp á það hljóðaði krafa Öryrkjabandalagsins og um það var dæmt. Upp á þá kröfu kom þetta skýra svar. Ekki var verið að leggja alla almannatryggingalöggjöfina undir dóm Hæstaréttar. Nei, herra forseti, tiltekin ákveðinn gjörningur var það sem var verið að óska úrskurðar um.

Herra forseti. Áfram segir í dómsorði Hæstaréttar, herra forseti: ,,Einnig verði viðurkennt með dómi Hæstaréttar, að aðaláfrýjanda hafi frá 1. jan. 1999 verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.`` Bein spurning og beint svar.

Að sjálfsögðu er dómurinn reifaður. Hinar ýmsu forsendur eru tíndar til. Farið er yfir rök bæði sækjanda og verjanda í málinu. Það er velt fyrir sér ýmsum þáttum í almannatryggingunum. Velt fyrir sér sjálfstæði, rétti einstaklingsins til samfélagslauna, gagnkvæmum rétti og skyldum samborgaranna og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Afar eðlilegt er að þessu skuli velt upp bæði í reifun Hæstaréttar og í aðfaraorðum að dóminum.

Herra forseti. Öll þessi reifun og öll sú greinargerð sem þar birtist er afar upplýsandi. Hún er mjög gott innlegg í þá umræðu sem var nauðsynleg um rétt örorkulífeyrisþega, um rétt ellilífeyrisþega, um rétt sjúklinga og annarra sem geta átt við langvarandi erfiðleika að stríða, auk almennrar fátæktar sem er líka þekkt í landinu. Þetta var afar þörf umræða og þarft innlegg inn í umræðuna um málið á Alþingi þessa dagana.

Mjög eðlilegt er að dómurinn kalli fram þessa umræðu og afar eðlilegt að bæði hv. þm. og samfélagið allt verði upptekin af þessu máli einmitt í kjölfar þessa dóms.

Herra forseti. Dómurinn sjálfur og dómsorðið sjálft er skýrt fyrir mér. Spurningin, krafan sem var lögð fyrir dóminn var einföld og afmörkuð og skýr: Er heimilt að skerða núverandi tekjutryggingu eins og hún er skilgreind samkvæmt þeim lagaákvæðum sem beitt er til þess? Svar Hæstaréttar er afdráttarlaust nei.

Upphæðin sem um er rætt liggur fyrir. Um hana þarf ekki að ræða enda er það svo, herra forseti, og þar með krafa löggjafans að löggjafinn ákveður upphæðir og með auknum þunga hefur verið gengið eftir því að þær fjárupphæðir, ákveðnar fjárupphæðir sem eru háðar fjárveitingum, séu tilgreindar í lögum og er nú verið að vinna að því að láta það ná fram þar sem við á innan ríkiskerfisins.

Herra forseti. Þetta mál var höfðað gegn Tryggingastofnun ríkisins enda er það Tryggingastofnun ríkisins sem fer með framkvæmd almannatryggingalaganna og því afar eðlilegt að svo sé. Hver eru viðbrögð forstjóra eða forsvaramanna Tryggingastofnunar ríkisins, þess sem var í forsvari fyrir þá stofnun sem málið var höfðað gegn þegar þessi dómur var birtur? Hann segir í fréttum miðvikudaginn 20. des. árið 2000 undir fyrirsögn: ,,Við munum kappkosta að vinna eftir niðurstöðum þessa dóms``, með leyfi herra forseta: ,,Þessi dómur kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart enda taldi ég fyrir fram að farið gæti á hvorn veginn sem var. Ég vil nota þetta tækifæri til að óska Öryrkjabandalaginu og þá sérstaklega formanni þess til hamingju með gríðarlegan sigur.`` Eðlilega, í ljósi þeirrar ábyrgðar sem forstöðumaður fyrir þessa stofnun hefur og finnur hjá sér og þeirri þungu ábyrgð sem hvílir á honum jafnframt að bregðast við þessum dómi sem og öðrum verkefnum sem stofnun hans er falið að leysa, þá segir hann að hann eigi eftir að kynna sér dóminn rækilega. ,,Þetta er ekkert einfalt. Flestir hagnast á þessum dómi og við þurfum að velta upp hverjum einasta skjólstæðingi stofnunarinnar síðustu sjö árin og meta áhrif dómsins á stöðu hvers og eins. Við munum að sjálfsögðu greiða það sem á vantar, en þetta verður mikil yfirferð og margt hefur vitanlega gerst á þessum sjö árum. Sumir hafa gifst, aðrir skilið og slíkt hefur breytingar í för með sér á högum fólks.`` Eðlileg viðbrögð af hálfu forstjóra þessarar stofnunar. Hann veltir fyrir sér hvernig hann muni vinna úr þessu en hann víkur sér engan veginn undan þeirri ábyrgð, síður en svo, og viðurkennir að svo geti verið samt ærin vinna.

Herra forseti. Hins vegar er það alveg rétt þegar velt hefur verið fyrir sér ýmsum lagaheimildum að vel má segja að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki haft beina fjárheimild til að inna þessa greiðslur af hendi vegna þess að ekki hafi verið gert ráð fyrir því á fjárlagaliðum stofnunarinnar. En við þessu getur bæði stofnunin brugðist og einnig er kveðið á um hvernig á svona löguðu skal taka samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins. Í 33. gr. þeirra laga, sem kveða á um fjársýsluna, segir, herra forseti: ,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjmrh. að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjmrh. er skylt að gera fjárln. Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Herra forseti. Þannig er þá leiðin sem hinn ágæti forstjóri Tryggingastofnunar hefði þurft að fara ef hann hefði séð að stofnun hans hefði ekki beinar fjárlagaheimildir til þess að greiða þetta beint út. Hann viðurkennir alveg skyldu sína til þess og víkur sér ekki undan þeirri ábyrgð en hann hefði sjálfsagt þurft á tímabilinu að senda umsókn til fjmrh. um aukna fjárheimild stofnunarinnar til að inna þessar greiðslur af hendi. Nú hefur það ekki verið upplýst hvort hann hafi gert svo eða hvort fjmrh. hafi fengið þá beiðni enda málið þá ekki fengið að vera svo lengi í höndum hans.

Herra forseti. Fyrir mér hefði það verið hinn eðlilegi gangur málsins að til þess þá að taka af öll tvímæli um greiðsluskyldu ríkisins gagnvart þessu máli hefði verið rétt að flytja frv. til fjáraukalaga sem heimilaði þessi auknu fjárútlát af hálfu ríkisins og til þess að forstöðumaður Tryggingastofnunarinnar gæti fullnægt þeim kröfum sem voru gerðar á stofnun hans. Þannig hefðu verið tekin af öll tvímæli því fyrr eða síðar mun hvort eð er þurfa að flytja frv. til fjáraukalaga til þess að mæta þeim aukna kostnaði sem stofnunin verður þarna fyrir, þær greiðslur sem stofnunin þarf að inna af hendi til að fullnusta dóminn.

Herra forseti. Ég hef rakið viðbrögð forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Viðbrögð hæstv. heilbrrh., sem er næsti yfirmaður forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, voru líka afar eðlileg. Í viðtali miðvikudaginn 20. desember í Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta, segir hæstv. heilbrrh., eftir að hún hafði sagt að hún vilji ekki ræða dóminn í einstökum atriðum, hún eigi eftir að skoða hann nánar: ,,Hæstiréttur hefur talað. Ég mun ekki deila við hann. Lögfræðingar ráðuneytisins eru að fara yfir niðurstöður dómsins og í framhaldinu verða næstu skref ákveðin. Meira er ekki hægt að segja á þessu stigi málsins`` sagði hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir alvöru málsins, þarna muni þurfa aukin fjárútlát, og hæstv. ráðherra fer fram á að haldinn verði ríkisstjórnarfundur þá strax um daginn, 21. desember, til þess að fjalla um málið.

[12:30]

Herra forseti. Þá verður breyting í ferli málsins. Ekki er orðið við beiðni hæstv. heilbrrh. um ríkisstjórnarfund heldur er ákveðið að þetta mál bíði hefðbundins ríkisstjórnarfundar sem er haldinn 22. desember og eftir það svarar hæstv. forsrh. fyrir málið. Síðan er ljóst, herra forseti, að málið hefur bæði verið tekið úr höndum Tryggingastofnunar ríkisins, sem málið var höfðað gegn og sem forstjóri þess var reiðubúinn að axla ábyrgð á að framkvæma, og einnig líka úr höndum heilbrrh. sem hafði óskað eftir sérfundi í ríkisstjórninni til að fara nánar ofan í þennan dóm, en við því var ekki orðið.

Herra forseti. Hæstaréttardómar eiga að vera skýrir og eru það. Hins vegar vitum við að með hinni þrætugjörnu þjóð, Íslendingum, er mikill vilji til að snúa út úr og drepa á dreif. Mikill vilji er oft og tíðum til að finna eitthvað, lesa eitthvað annað út úr orðum eða dómum en þar segir. Og það hefur fyrst og fremst birst okkur að mínu mati á Alþingi. Þar hafa ríkisstjórnin og stjórnarliðar lagt sig í líma við að draga sundur og saman dómsorð Hæstaréttar, fara í aðfaraorð Hæstaréttar og gera þau að hluta af dómsorði og auk þess dregið inn hina almennu umræðu um stöðu öryrkja í þjóðfélaginu, sem er vel en er ekki beinn hluti af því að fullnusta þennan dóm Hæstaréttar.

Litið hefur verið svo á að þessi dómur sé dómur fyrir lögfræðinga til að lesa og skilja. Fyrir mér, herra forseti, eiga dómar að vera fyrir almennig til að skilja. Það eru lögfræðingar sem kveða þá upp, en það er almenningur sem á að skilja.

Sé eitthvað óklárt, skilji menn ekki íslenskuna í dómsorðinu, væri ekki úr vegi að kalla til íslenskufræðinga. Það væri þess vegna réttara að kalla til íslenska málfræðinga eða Íslenska málnefnd, herra forseti, í þeirri þrætubókarumræðu sem hér hefur verið á Alþingi um einstakt orðalag þessa dóms. Með þessu dómsorði hafa lögfræðingarnir og hæstaréttarlögmennirnir talað, sem ég ber virðingu fyrir og þeir hafa sína menntun til að kveða upp dóma, en það er okkar almennings að skilja. Almenningur hefur með skýrum hætti skilið dóminn. Að mínu viti er hann einfaldur og hann er skýr.

Herra forseti. Mér mundi aldrei detta í hug að taka alvarlega mann sem hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi ef hann segði: --- Ja, við skulum fara yfir þetta nánar og ég ætla að fá vini mína til að kíkja á þetta. Svo athuga ég hvort ég geti ekki komið til móts við Hæstarétt og verið inni svona einn og hálfan mánuð. Ja, einn og hálfur mánuður er kannski ekkert heilög tala í sjálfu sér, tveir mánuðir kannski, en þetta er svona hæfilegt miðað við fjölskylduástæður mínar ef hún skyldi leggja þetta til. Hæstiréttur getur þá bara dæmt aftur og þá skoða ég málin aftur og athuga hvort ég þurfi að ganga lengra til þess að koma til móts við dómsorðið.

Herra forseti. Löghlýðin þjóð sem á að búa við lög sem einstaklingar og hinn almenni borgari skilur getur ekki leyft sér svona málflutning. Og í ummælum Hæstaréttar er það bara dómsorðið sem skiptir mig máli.

Þetta frv., herra forseti, sem hér er flutt og er til umræðu, er að mínu viti ekki beint til þess að verða við dómi Hæstaréttar. Frv. er til þess að skerða greiðslur sem Hæstiréttur var að dæma um.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég hef hér sagt. Dómsorð Hæstaréttar er fyrir mér skýrt. Hæstiréttur reifar málið. Hann drepur á mörg atriði sem snerta almannatryggingalöggjöfina og það er virkilega þörf á að hún sé endurskoðuð. Ég fagna því að nú skuli hafa verið skipuð nefnd til að endurskoða löggjöfina í heild sinni með það fyrir augum að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Ég fagna því að þessi dómur og þessi umræða skuli leiða til þess. Ég tel reyndar að það hefði átt að vera hægt að flýta þeirri vinnu frá því sem hefur verið lagt upp með. En dómur Hæstaréttar er fyrir almenning til að skilja. Vefjist það fyrir einhverjum að skilja hin íslenskulegu orð Hæstaréttar, þá gæti verið stuðningur að því að kalla til íslenska málfræðinga, Íslenska málnefnd eða aðra sem geta þá leyst úr því. En með dómsorði Hæstaréttar hefur Hæstiréttur talað og þar með er að mínu viti þeirri hlið og aðkomu lögfræðinganna lokið.

Ég leyfi mér að lesa aftur upp dómsorð Hæstaréttar, með leyfi herra forseta:

,,Viðurkennt er, að aðaláfrýjanda, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt`` --- er það ekki gjörsamlega skiljanlegt orð? --- ,,frá 1. janúar 1994 á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995`` --- það var skýr krafa í málshöfðun og skýr tilvísun --- ,,að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi.``

Herra forseti. Um þetta var spurt, einmitt þetta. --- ,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Að mínu mati á að hlíta skilyrðislaust dómi Hæstaréttar. Tryggingastofnun er falið að vinna úr því. En það er afar mikilvægt að endurskoða tryggingalöggjöfina og bæta þar um, bæði í ljósi dóms Hæstaréttar og annars þess sem Hæstiréttur minnist ekki á í reifun sinni.