Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 12:43:14 (4165)

2001-01-23 12:43:14# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[12:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði mér upp þau orð að mér fyndist eitthvað vera í lagi. Það er ekki rétt. Ég sagði það ekki. Ég viðurkenni það fúslega að ég er hnugginn yfir bágum kjörum margra öryrkja (Gripið fram í.) og ég er hnugginn yfir bágum kjörum ellilífeyrisþega. Ég er hnugginn yfir bágum launum fjölda fólks, ég viðurkenni það. Og ég er hnugginn yfir því að það skattkerfi sem hv. þm. Pétur Blöndal ber ábyrgð á með meiri hlutanum ívilnar ekki sem skyldi þessu fólki. Það ætti að leggja hærri skatta á þá sem meiri tekjur hafa og hækka þar með skattskilin, hækka frítekjumarkið til skatts. En hæstaréttardómurinn gengur ekkert út á þetta og við erum ekki að ræða það hér. Við erum að ræða dóm Hæstaréttar, ekki um almenn kjör íbúa landsins sem er þó fyllilega ástæða til í því stjórnarfari sem við búum við.

En, herra forseti. Hér er ítrekað drepið á dreif því máli sem hér er til umræðu, þ.e. dómsorð Hæstaréttar sem er skýrt og ber að fara eftir. Hina umræðuna tökum við líka, en bara ekki um leið.