Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:11:51 (4167)

2001-01-23 14:11:51# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ótrúleg bíræfni og óskammfeilni af hv. þm. að halda fram þessu bulli sínu um kjör öryrkja á sl. fimm árum þegar allir nema hann og þeir sem eru með honum í stjórnarliði vita að samfelld árás á kjör öryrkja hefur verið af hálfu þessarar ríkisstjórnar á síðustu fimm árum. Þeir byrjuðu á því eftir að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar var samþykkt að skera á tengsl launa og lífeyris með þeim afleiðingum að grunnlífeyririnn hækkaði um 25% á sama tíma og launavísitalan hækkaði um 41,5%. Á árunum 1998--2000 hækkuðu lífeyrisgreiðslur um 11% en launavísitalan um 17% þrátt fyrir það ákvæði sem þingmaðurinn nefndi þar sem vitnað var í orð forsrh. um að miða ætti við launavísitölu og allir trúðu því, líka stjórnarandstaðan. En það hefur verið miðað við neysluvísitölu en ekki launavísitölu á þessum tíma og þar með svikið það sem stóð í lögum. Það er því hrein óskammfeilni af hv. þm. að haga orðum sínum eins og hann gerði hér áðan.