Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:27:28 (4180)

2001-01-23 14:27:28# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Umræðan fer nú út um víðan völl. Ég og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir þekkjumst greinilega ekki nógu vel. Hún heldur að það hafi fyrst gerst í dag að ég færi að hafa áhyggjur af heiminum sem ég lifi í. Ég hef mjög lengi haft áhyggjur af honum eins og ég held að flestir góðir menn geri almennt og yfirleitt. Þannig er það ekki nýtt að ég harmi hlutskipti þessa heims, þeirra hundruða milljóna manna sem búa við vond kjör, hungur og hörmungar.

Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, er haft eftir meistaranum frá Nasaret. Ég trúi því að það hafi verið rétt hjá honum en hitt hefur líka sannast að án skynsamlegrar stjórnar, m.a. skynsamlegrar hagstjórnar hellist óhamingjan yfir þjóðirnar.