Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:31:08 (4183)

2001-01-23 14:31:08# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er nú orðin býsna löng en ég tel samt að ýmislegt hafi verið að koma fram á síðustu stundu. Reyndar hefur umræðan farið að þróast svolítið um víðan völl því að það mál sem við erum að fást hér við snýst um kjör tiltölulega fámenns og afmarkaðs hóps öryrkja og sú umræða sem hv. stjórnarliðar hafa hvað eftir annað dregið upp með því að reyna að setja þau réttindi sem þessir öryrkjar hafa unnið sér til handa með dómi Hæstaréttar á vogarskálar, hvort eigi nú að gera betur við þá öryrkja sem verst hafa það eða ekki, er auðvitað fáránleg umræða. Þar er verið að reyna að tala um annað en er í raun og veru á dagskrá á hv. Alþingi en það er hvernig eigi að skilja og koma til móts við og framfylgja dómi Hæstaréttar í málefnum öryrkja.

Ég verð að segja alveg eins og er, eftir að hafa hlustað á hæstv. forsrh. í upphafi þessara umræðna, en hann hefur síðan ekki sést við umræðuna nema í mýflugumynd í eitt eða tvö skipti ef ég man rétt, að þá er orðið hjákátlegt að rifja það upp sem hæstv. forsrh. sagði um að hv. þingmenn stjórnarliðsins klæjaði eftir að komast í þessa umræðu og það þyrfti að leiðrétta margt og skýra í þessari umræðu. Það hafa a.m.k. ekki margir hv. stjórnarliðar tekið til sín orð hæstv. forsrh. því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið aðaltalsmaður Sjálfstfl. í þessu máli en formaður hv. heilbr.- og trn. og hæstv. utanrrh. hafa síðan borið uppi þá umræðu sem hefur farið fram af hendi stjórnarliða.

Ég held að kominn sé tími til að hæstv. forsrh. fari að sýna sig aftur og fara yfir það sem honum hefur fundist koma út úr umræðunni og bæta þeim skýringum við þá umræðu sem hann boðaði í upphafi að þyrfti að koma á framfæri til að þjóðin skildi um hvað málið snerist.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í rökstuðning Hæstaréttar áður en ég held áfram máli mínu. Þar stendur í IV. kafla á einum stað:

,,Samkvæmt framanrituðu verður 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu`` --- sérhvers einstaklings, hæstv. forseti --- ,,eftir fyrir fram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar hefur almenni löggjafinn vald um það hvernig þessu skipulagi skuli háttað. Skipulag, sem löggjafinn ákveður, verður þó að fullnægja þeim lágmarksréttindum, sem felast í ákvæðum 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verður það að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta ...``

Mér finnst þetta skipta afar miklu máli og í framhaldi af því vil ég lesa á öðrum stað í rökstuðningi Hæstaréttar:

,,Örorkulífeyrir, þar með talin tekjutrygging, er réttur sem öryrkjar fá vegna fötlunar sinnar.``--- Þetta er réttur sem öryrkjar fá vegna fötlunar sinnar. --- ,,Samkvæmt því sem að framan er ritað um skýringu á 76. gr. stjórnarskrárinnar`` --- sem ég var að vitna í áðan --- ,,er það á valdi almenna löggjafans að ákveða þau mörk, sem örorkulífeyrir og tekjutrygging miðast við, svo fremi sem þau uppfylla önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau verða skýrð með hliðsjón af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Réttur sá sem almannatryggingalöggjöfin tryggir öryrkjum er almennur og tekur tillit til jafnræðissjónarmiða milli þeirra sem eins eru settir í þröngum skilningi.`` --- Þetta segir Hæstiréttur hér en í beinu framhaldi segir hann: ---,,Hins vegar mælir ákvæðið`` --- þ.e. ákvæðið sem Hæstiréttur dæmdi ógilt --- ,,fyrir um mismunandi skerðingu lífeyris vegna tekna eftir því um hvaða tekjur er að ræða.``

Og á öðrum stað, hæstv. forseti:

,,Þegar litið er til skipulags réttinda örorkulífeyrisþega samkvæmt almannatryggingalögum og þeirra afleiðinga, sem í raun geta af því leitt fyrir einstaklinga, verður þetta skipulag`` --- þ.e. þessi skerðing sem er verið að ræða hér um --- ,,ekki talið tryggja þeim þau lágmarksréttindi, sem í framangreindu stjórnarskrárákvæði felast, á þann hátt að þeir fái notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar mælir þeim, svo sem það ákvæði verður skilið að íslenskum rétti.``

Í lokin, hæstv. forseti:

,,Í samræmi við það, sem að ofan greinir, er fallist á þá kröfu gagnáfrýjanda, að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 ...``

Ég spyr hv. þingmenn stjórnarliðsins: Hvernig í ósköpunum er hægt að lesa annað út úr því en að Hæstiréttur sé að segja að þarna séu á ferðinni persónubundin réttindi sem megi ekki skerða vegna tekna maka? Ég fæ ekki með nokkru móti skilið að menn geti tekið síðustu setninguna sem ég las hér upp, eftir að hafa lesið hinar í réttri röð á undan, þó ég hafi ekki lesið allan textann, eins og hv. stjórnarliðar gera þar sem sagt er ,,á þann hátt sem gert er``. Þeir slíta hana úr samhengi og halda því fram að af því að sú setning sé þarna til staðar megi skerða með einhverjum öðrum hætti tekjutrygginguna sem Hæstiréttur var að dæma ógilda með dómi sínum.

Þetta eru vitanlega útúrsnúningar og hv. stjórnarliðar verða að þola það þó að ýmsum þingmönnum í stjórnarandstöðunni hlaupi kapp í kinn þegar verið er að ræða mál á grundvelli eins og þessum en hv. stjórnarliðar hafa reynt að leiða þessa umræðu út um víðan völl. Þeir hafa líka komið hér, hæstv. forsrh. fyrstur og hélt því fram að umræðan væri ómálefnaleg og eyddi meiri hluta ræðu sinnar í að tala um einhver þvíumlík atriði og kom ekki að aðalmálinu fyrr en í lok ræðu sinnar. En í framhaldinu hafa hv. stjórnarliðar verið að fara um víðan völl og tala um ýmislegt annað en það sem hér er til umræðu.

Ég missti af fáeinum mínútum úr ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar en allur sá hluti ræðunnar sem ég hlustaði á fjallaði um hvort öryrkjar hefðu orðið fyrir kjaraskerðingum á undanförnum árum, hvernig þær kjaraskerðingar hefðu komið til og hvernig ríkisstjórnin væri búin að bjarga öryrkjum með ákvæðum sem hún hefði sett í lög.

Nú liggur fyrir að öryrkjar hafa ekki notið góðærisins. Ekki þarf að fara í grafgötur með það að öryrkjar hafa á undanförnum árum og mánuðum komið því mjög skýrt til skila hvernig kjör þeirra eru í samanburði við kjaraþróun sem verið hefur í landinu á undanförnum árum. Ég held að þjóðin viti þetta allt saman nákvæmlega. En hæstv. ríkisstjórn virðist ekki gera sér grein fyrir því að þessum skilningi hefur verið komið til skila til þjóðarinnar og allir á Íslandi vita að kjör öryrkja eru slæm. Það mun ekki takast þó hv. stjórnarliðar reyni að koma þeim skilningi til þjóðarinnar að öryrkjar hafi það nógu gott á meðan ekki hefur verið gert meira átak í málefnum þeirra en gert hefur verið fram að þessu. Meira að segja þeir öryrkjar sem eiga að hljóta leiðréttingu mála sinna með þeim dómi sem hér er til umræðu hafa það ekki það gott að þjóðinni finnist að það eigi að hafa af þeim þá leiðréttingu sem Hæstiréttur dæmdi þeim.

Þessi langloka hv. þm. um launaþróunina skilaði ýmsum staðreyndum og áliti hv. þm. aftan úr fortíðinni til okkar sem á hana hlýddu en hann nefndi m.a. það sem komið hefði upp í umræðunni að Sjálfstfl. væri í heilögu stríði við Öryrkjabandalagið, hann tiltók þetta og taldi upp meðal annarra fúkyrða og brigslyrða sem hann sagði að stjórnarandstaðan hefði viðhaft. Ég verð að segja eins og er, þó ég sé ekki gjarn á að taka upp einhver fúkyrði, að ef það eru fúkyrði að halda því fram að Sjálfstfl. sé í heilögu stríði við Öryrkjabandalagið þá verður að hafa það þó að ég fái það á mig á eftir að ég sé með fúkyrði. Ekki hefur farið fram hjá mönnum sem hafa fylgst með í þjóðfélaginu að þarna hafa mæst stálin stinn, og hæstv. forsrh., fremstur í flokki, hefur ekki vandað foringja Öryrkjabandalagsins kveðjurnar á undanförnum mánuðum og missirum. Ég hef ekki betur séð en þarna væri eitthvað á ferðinni sem kalla mætti stríð.

Hv. þm. talaði um að stjórnarflokkarnir lægju undir ámæli og það gera þeir auðvitað og hvernig á annað að vera þegar mál liggur þannig fyrir hv. Alþingi? Að hæstv. heilbrrh. liggi undir boðaföllum í þessari umræðu? Ég held að ekki sé hægt að segja að stjórnarandstaðan hafi ráðist harkalega að hæstv. heilbrrh. Hins vegar verða menn að muna hvernig mál bar að á hv. Alþingi. Hæstv. heilbrrh. hafði lýst því yfir að ekki væri annað að gera en að fara að dómi Hæstaréttar og greiða öryrkjum þær bætur sem dómurinn segði til um. Starfsmenn Tryggingastofnunar, með forstjóra í broddi fylkingar og tryggingaráð, voru að hefja undirbúning að því að gera þetta.

Hvað gerist þá? Þá tekur hæstv. forsrh. til fótanna og tekur í taumana á málum hjá hæstv. heilbrrh. Hæstv. heilbrrh. mætir síðan til þings og segist hafa lagt til að sett yrði á stofn sú nefnd sem bjó málið í hendur stjórnarliða.

En það er undarlegt, a.m.k. fyrir mér, og ég spyr að því hvort einhver stjórnarliða geti ekki svarað því hvort komin sé upp einhver allt önnur aðferð við að setja á stofn nefndir hjá hæstv. ráðherrum þegar hæstv. heilbrrh. leggur til að einhver nefnd verði skipuð að þá sé lögmaður frá Sjálfstfl. hafður þar í fyrirsvari. Það er eitthvað nýtt, eitthvað sem ég hef ekki tekið eftir fram að þessu, að hæstv. ráðherrar velji sér forustumenn í vinnuhópa og nefndir úr öðrum stjórnmálaflokki en þeir eru í sjálfir. Það segir sína sögu um hver það var sem réði þarna ferð. Ef hæstv. heilbrrh. hefur legið undir boðaföllum þá hefur hún legið undir þeim boðaföllum frá eigin samstarfsmönnum í ríkisstjórn sem keyrðu hæstv. ráðherra niður í málinu, komu í veg fyrir að hún færi sínu fram eins og hún ætlaði sér til þess að koma til móts við dóminn og létu hæstv. ráðherra skrifa upp á þá aðferð sem nú liggur fyrir á hv. Alþingi.

[14:45]

Hv. þm. Pétur Blöndal er búinn að spyrja okkur hv. alþm. stjórnarandstöðunnar hvað eftir annað um ýmsa hluti --- ég vona að hv. þm. sé að hlusta á ræðu mína --- ég ætla svo sem ekkert að hafa langt mál um það sem hv. þm. hefur verið að segja, en hann hefur hvað eftir annað komið hér upp til að spyrja sömu spurninganna sem ganga út á það hvort við félagshyggjufólkið séum hætt að vera félagshyggjufólk vegna þess að við styðjum það að öryrkjar fái bætur sínar samkvæmt dómi Hæstaréttar og stöndum gegn því frv. sem hér liggur fyrir.

Þarna er verið að snúa málum gjörsamlega á haus. Skoðun mín er sú, og hún er alveg skýr, að Hæstiréttur hafi, eins og ég var að vitna til áðan, verið að dæma öryrkjum einstaklingsbundinn rétt sem er til kominn vegna fötlunar þeirra og þetta er algjörlega sérstakur réttur. Og það er engin ástæða til annars en að túlka þennan dóm þröngt hvað varðar svona sértækan rétt. Þetta er framlag þjóðfélagsins til að rétta hlut öryrkjans í lífsbaráttunni.

Eina vandamálið sem ég kem auga á og er alvarlegt í sambandi við framhald málsins skapast af því kerfi sem við höfum búið við á Íslandi sem felst í því að þegar öryrki kemst á ellilífeyrisaldur þá hættir hann að vera öryrki. Það gæti að mínu viti orðið erfitt að útskýra það og halda því til streitu að öryrki sem hefur fengið þennan rétt sem hér um ræðir missi hann daginn sem hann verður ellilífeyrisþegi. En það er eitt af því sem menn þurfa að taka á í framhaldi af þessu máli.

Hv. stjórnarliðar skrifuðu upp á tillögu starfshópsins sem ég nefndi áðan án þess að breyta stafkrók í þeirri tillögu þó að hæstv. utanrrh. segði að álit starfshópsins hefði verið haft til hliðsjónar, þá get ég ekki séð við yfirlestur að neinu hafi verið breytt af því sem starfshópurinn lagði til. Afstaða stjórnarliða hefur því skapast gjörsamlega í tengslum við álit starfshópsins sem lagði þessa tillögu til.

Mér finnst það vera frekar niðurlægjandi fyrir Alþingi og alþingismenn, stjórnarliða, að fullsköpuð frv. um svona mál dúkki bara upp í stjórnarflokkunum. Ég hef svo sem ekki tekið þátt í ríkisstjórn og því að styðja ríkisstjórn en mér mundi finnast það og finnst það alla vega ekki góð tilhugsun að maður eigi von á því að málin dúkki upp alsköpuð á þingflokksfundi stjórnarliða og þar geti menn ekkert nema rétt upp hönd með því sem að þeim er rétt og kemur frá starfshópi eins og þessum, og það í máli sem svo margar hliðar eru á eins og því sem hér um ræðir. En þannig var það nú.

Í þessu áliti sem tekið er beint upp í þingmálið er klásúla þar sem vitnað er til þess hvernig eigi að fara með eigin tekjur öryrkja. Vitnað er í þessa klásúlu úr áliti starfshópsins í athugasemdum við lagafrv. en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Í tillögu starfshópsins er lagt til að eigin tekjur örorkulífeyrisþega hafi áhrif á sérregluna um krónu fyrir krónu en jafnframt er bent á að ákvörðun um hvernig eigin tekjur hafi áhrif á sérregluna sé pólitísks eðlis. Í frumvarpinu er lagt til að 2/3 hlutar tekna öryrkjans skuli hafa áhrif á sérregluna.``

Þetta er tekið beint upp úr athugasemdum við lagafrv.

Hæstv. forseti. Ég bið um að ég verði leiðréttur á eftir ef ég hef rangt fyrir mér, en áhrif af þessari sérreglu sem þarna er á ferðinni sýnist mér vera þau sem ég greini frá á eftir.

Öryrki hefur 18.424 kr. í grunnlaun og við skulum gefa okkur að hann hafi unnið sér sjálfur inn 37.500 kr. á mánuði. Þessi tala er ekki valin út í loftið, hún er valin vegna þess að þegar öryrkinn hefur unnið sér inn þessar 37.500 kr. á mánuði þá er 25 þúsundkallinn fokinn sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til að hann fái.

Þessi öryrki fær frá ríkinu 221.088 kr. á ári. Þetta þýðir að árstekjur hans persónulega eru þá 671.088 kr. áður en þau lög taka gildi sem hér er verið að ræða um. Eftir að lögin hafa tekið gildi og ríkisstjórnin hefur fengið fram túlkun sína á dómi Hæstaréttar fær þessi öryrki nákvæmlega ekki neitt í viðbót. Hann fær ekki neitt í viðbót, hann getur lagt fjölskyldu sinni til áfram sömu upphæð og fyrr. Jú, hann fær einn möguleika. Hann getur valið um möguleika. Og hver er hann? Sá möguleiki er fólginn í því að hann hætti að vinna, hætti að þéna þessar 37.500 kr. Hvað gerist þá? Þá fær hann 25 þús. kr. í viðbót frá ríkisstjórninni. Og ef tekið er tillit til skatta af báðum upphæðunum, þá lækka tekjur hans eingöngu um 7.655 kr.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að val þessa öryrkja sem þarna er um að ræða um hvort hann vinnur eða vinnur ekki byggist á því að hann fái þegar upp er staðið hámarkið 7.655 kr. fyrir þá vinnu sem hann áður fékk 37.500 kr. fyrir, en reyndar hélt hann ekki eftir, eftir skatta af þeirri upphæð nema 22.900 kr. en hann mundi halda eftir skatta af þeirri upphæð sem ríkisstjórnin skammtar 15.310 kr. eða samtals, svo ég fari þá yfir lokatölurnar, þ.e. hann gat skaffað fjölskyldu sinni 41.389 kr., en ef hann hættir að vinna getur hann skaffað fjölskyldunni 33.734 kr. Mismunurinn er 7.655 kr. og það eru þessar 7.655 kr. sem hann hefur í mismun ef hann heldur áfram að vinna.

Mér finnst þetta vera algjör óvirðing við öryrkja. Eftir að hafa hlustað á lærðar ræður fram og til baka hér á Alþingi um að taka eigi á jaðarsköttum og loforð hv. stjórnarliða um að tekið verði á jaðarsköttum, þá finnst mér þetta vera að bíta höfuðið af skömminni, að setja í lög jaðarskatt eins og þennan, sem er sennilega sá allra hæsti sem fyrirfinnst því að það er nánast ekkert eftir af því sem öryrkinn þénar. Þetta getur nefnilega skerst meira í viðbót, þessar 7.600 kr. geta skerst vegna t.d. vaxtabóta eða barnabóta.

Ég ætla svo sem ekki að ræða meira um þetta. Mér finnst að hv. þm. stjórnarliðsins þurfi eiginlega að koma upp og útskýra hvernig í ósköpunum þeir geta staðið í því að hafa slíkt ákvæði í lagafrv. því að þetta er með ólíkindum. Í rauninni er verið að segja við öryrkjann: Verið þið bara heima. Ef þið ætlið að taka við þessum vasapeningum sem þið eruð að fá, þá skuluð þið bara vera heima. Annars skulið þið sleppa þessu.

Það lýsir nákvæmlega því hvernig hv. stjórnarliðar virðast líta á þetta mál, þetta sé framfærsla. Þetta sé ekki réttur, eins og Hæstiréttur er í raun og veru að dæma að okkar mati, heldur sé þetta framfærsla sem eigi að ýta yfir á makann ef mögulegt er. Sá möguleiki er valinn, annars vegar að nota tekjur makans til að skerða þessar bætur um milli 7 og 8 þús. kr. og hins vegar eigin tekjur hversu lágar sem þær eru því að skerðingin byrjar strax og öryrkinn þénar eina krónu, þá byrjar hún. Ef hann vill hafa einhverja vinnu til að leggja sitt af mörkum er alla vega lítið út úr því að hafa fyrr en hann fer að þéna eitthvað miklu, miklu meira en hér hefur verið talað um.

Svo gerist annað. Þessi naglalegu ákvæði, ég leyfi mér að segja naglalegu ákvæði um tekjutengingu, eiga að nýtast til að skerða réttindin aftur í tímann. Þetta eru ný ákvæði um hvernig þessi skerðing á að fara fram, og síðan á að nota þau til að skerða þau réttindi sem öryrkjum voru dæmd á árunum sem liðin eru. Mér finnst að okkar ágætu lögmenn sem eru þingmenn á hv. Alþingi þurfi kannski að fara svolítið betur yfir þetta atriði. Að minnsta kosti er ekki vafi á að þetta er ný aðferð við skerðingu. Hún á að nýtast aftur í tímann.

Og nú hefur öryrkinn sem um er að ræða ekki einu sinni val um það hvort hann vinnur fyrir þessum peningum eða ekki vegna þess að skerðingarákvæðin eru fyrir liðinn tíma líka. Það er ekkert ,,replay`` hjá öryrkjum frekar en okkur hinum.

Mér finnst að það hefði mátt eyða dálítið meiri tíma í að útskýra þetta, og datt það í hug í upphafi að við fengjum einmitt miklu betri útskýringar á þessu hjá hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. stjórnarliðsins hvernig það megi vera að nota eigi skerðingarákvæði aftur í tímann og þau alveg ný.

[15:00]

Ég tel að fyrst og fremst sé verið að ræða um jafnrétti til mannréttinda án tillits til efnahags og það sé það sem hv. alþm. eigi að horfast í augu við að við eigum að tryggja á Alþingi eftir dóm Hæstaréttar. Mér finnst það að vera að tala um eitthvað annað í þessu sambandi og sú leið sem menn velja hérna sem hefur ekki verið útskýrð með því að það skipti svo miklu máli fjárhagslega þó hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi reyndar margsinnis talað um milljónirnar sem þurfi að borga öryrkjum ef menn bara opni kassann og borgi. Þess vegna eigi að nýta sér allar leiðir til þess að ná fram fyrningum á þessu. Mér finnst ekki gott að hugsa til þess að á Alþingi skuli menn hugsa þannig að þegar Hæstiréttur landsins hefur dæmt einhverjum bætur af þessu tagi og var vísað til mannréttindaákvæða þá skuli menn geta hugsað sér það að þá séu menn að nýta sér einhvers konar fyrningarákvæði. Ég tel það gersamlega fráleitt. Mér finnst jafnvel enn fráleitara að menn geti látið sér detta í hug að setja skerðingarákvæði af því tagi sem ég var að lýsa áðan í lög og láta þau skerðingarákvæði gilda um liðinn tíma til að skerða þau réttindi sem Hæstiréttur var að dæma öryrkjum.

Hæstv. forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að halda langa ræðu. Ég vildi bara koma upp í lokin til að ræða sérstaklega um þessar skerðingar af því að þær hafa ekki verið mikið til umræðu þó að hér hafi langt mál verið og mikið skrafað. Þess vegna vildi ég tala sérstaklega um það og segja síðan það sem ég tel vera aðalatriði málsins, um hvað þetta snýst. Mér finnst að umræðan hafi fært okkur heim sanninn um að hæstv. forsrh. lítur þannig á að Hæstiréttur geti svo sem vel tekið við nýju máli af þessu tagi til sín og afgreitt það öðruvísi. Hann vísaði til afgreiðslu Hæstaréttar á öðru máli þar sem málum var snúið við. Hæstiréttur dæmdi fyrst í Valdimarsmálinu, en síðan, eftir miklar yfirlýsingar og hótanir hæstv. forsrh. um efnahagslegan heimsendi á Íslandi og Kanaríferðir snerust hæstaréttardómararnir sumir hverjir í skoðun sinni og urðu gersamlega ósammála um hvað þeir höfðu meint með fyrri dómnum og dæmdu öðruvísi með þeim seinni.

Ég bendi hv. stjórnarliðum á að þetta mál er ekki eins vaxið og það mál því að minni hluti Hæstaréttar í þessu tilfelli er sammála meiri hlutanum í því hvað meiri hlutinn meinar og velkist greinilega ekkert í vafa um að meiri hlutinn sé að gera hlutina með þeim hætti sem stjórnarandstaðan hefur verið að lýsa og er þess vegna á móti málinu. Minni hlutinn mun ekkert velkjast í vafa um það þegar málið rekur aftur upp í Hæstarétt hvað Hæstiréttur sagði í þessum dómi og mér skilst að dómar hafi fordæmisgildi í Hæstarétti þannig að ég á ekki alveg von á því að það muni verða dæmt með einhverjum öðrum hætti þegar Hæstiréttur fær nýtt mál frá Öryrkjabandalaginu um sama efni, skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka.

Mér finnst satt að segja niðurlægjandi fyrir Hæstarétt að hv. alþm. skuli vera uppi með slíka orðræðu og skuli vera vísað til þess, sem er einsdæmi, að Hæstiréttur snúi við dómum eins og gerðist í þeim sjávarútvegsmálum sem ég nefndi áðan. En hér hefur það verið haft við orð: Kærið þið bara. Er ekki best að þið kærið og fáið botn í málið?

Satt að segja finnst mér eftir þessa umræðu að hún hafi verið að langmestu leyti málefnaleg þrátt fyrir allt, þó að ýmislegt hafi hér fokið. Menn hafa farið mjög vandlega yfir hvert einasta atriði í þessum dómi. Stjórnarliðar hafa gert það, flestir hafa sinnt því að vera hér og tekið til máls. Þeir hafa verið á málefnalegum grundvelli. Hæstv. forsrh. boðaði í upphafi umræðunnar að það ætti aldeilis að taka á málum í hv. Alþingi. Vonandi eigum við eftir að sjá eitthvað af því.