Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:05:54 (4184)

2001-01-23 15:05:54# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson kvartaði yfir því að einhver fúkyrði og brigslyrði hefðu fokið í umræðunum fyrr í dag. Ég átta mig ekki almennilega á því hvers vegna hv. þm. er að kveinka sér yfir því að umræðan geti orðið hörð í ljósi þess að minni hluti í Alþingi er að ásaka meiri hluta Alþingis um að hann sé að fara vísvitandi út í að brjóta stjórnarskrána og mannréttindi á fólki. Mér hefur ekki fundist það koma neitt sérstaklega vel fram hjá minni hlutanum hvernig í dauðanum þetta eigi að geta átt sér stað. Aftur á móti hefur mjög ítrekað verið bent á það í umræðunni hvernig meiri hluti heilbr.- og trn. hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé um stjórnarskrárbrot að ræða eða brot á mannréttindum.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa upp úr áliti meiri hlutans sem hljóðar svo:

,, ... Sigurðar Líndals prófessors, Eiríks Tómassonar prófessors og Skúla Magnússonar lektors sem allir komu á fund nefndarinnar. Í máli þeirra kom fram það samdóma álit að hvorki 1. gr. frumvarpsins né frumvarpið í heild væri í andstöðu við stjórnarskrána. Í sama streng tóku lögfræðingarnir Guðrún Gauksdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir sem einnig komu á fund nefndarinnar.``

Herra forseti. Ég hef hvergi getað séð það í gögnum minni hlutans hvar þeir styðjast við t.d. virta lögmenn úti í bæ eða lög annars staðar frá úr hinum vestræna heimi. Það er einmitt úr vestrænum gögnum sem menn hafa séð að þessi framkvæmd er á ósköp svipaðan máta og tíðkað hefur verið á Íslandi að tekjutengja laun við maka í sambandi við örorku og ellilífeyri og að vera að tala um að menn séu vísvitandi að fara í stjórnarskrárbrot er afskaplega hörð og óvægin ásökun á hendur meiri hluta Alþingis.