Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:10:22 (4186)

2001-01-23 15:10:22# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að skoðun meiri hlutans þoli mikla gagnrýni og hafi staðið hana alveg af sér. Ekkert hefur komið fram í máli hv. þm. sem styrkir þá skoðun að minni hlutinn geti ásakað meiri hluta Alþingis um stjórnarskrárbrot, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég heyrði ekki að hv. þm. hefði neitt á takteinum til að sýna fram á að verið væri að brjóta stjórnarskrána nema síður væri. Hann fór út um víðan völl og talaði helst ekkert um það sem verið var að spyrja um. Að stjórnvöld séu í heilögu stríði við öryrkja er náttúrlega hreinasta bull.

Á síðustu tveimur árum hefur verið gripið til mjög margra ráðstafana til að bæta hag öryrkja. Það kom vel fram í máli hæstv. heilbrrh. fyrst í umræðunum að á síðustu tveimur árum er búið að bæta hag þessa fólks mjög mikið og að þessi dómur Hæstaréttar hefði kostað 400 millj. á næstu árum ef ekki hefði verið gripið til neinna ráðstafana á síðustu þremur árum til að bæta kjör þessa fólks en vegna þessara ráðstafana eru um 100 millj. kr. á ári sem þarf að greiða á næstu árum til að fullnægja þeim dómi Hæstaréttar sem hefur verið til umræðu. Að halda því fram að ríkisstjórnin og Alþingi séu í heilögu stríði við öryrkja er eins og út úr kú og náttúrlega í takt við þann málflutning sem mér finnst hafa verið hjá minni hlutanum í öllu þessu máli þar sem verið er að sverta allt sem gert hefur verið, gera lítið úr því sem vel hefur verið gert og reyna svo að draga upp einhverja mynd af hlutunum sem er ekki til í spilunum og engir hafa getað tekið undir með þeim í þessu máli eins og lögmenn sem komið hafa á fund heilbrn. Enginn þeirra tók afdráttarlaust undir þá skoðun minni hlutans að verið væri að brjóta stjórnarskrána, ekki einn einasti. Aftur á móti tóku þeir undir með meiri hlutanum um að hvorki væri verið að brjóta stjórnarskrána né mannréttindi. Svo koma þessir menn hér upp og kvarta en það er ekkert skrýtið vegna þess að málstaður þessara manna er afskaplega slæmur og hlýtur að dæmast af sögunni.