Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:12:35 (4187)

2001-01-23 15:12:35# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir og það hefur verið vitnað í lögmenn sem hafa sagt það á fundi nefndarinnar að þeir teldu þetta vera stjórnarskrárbrot. (KPál: Hvar liggur það fyrir?) Það er hægt að telja það upp fyrir þig á eftir.

Það hefur komið fram í áliti minni hluta nefndarinnar. Lestu álit minni hluta nefndarinnar. Síðan það að þetta sé ekki stjórnarskrárbrot. Ég tel að það liggi í augum uppi að eðlilegt sé að menn álykti sem svo þegar Hæstiréttur er búinn að dæma að það sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins að nota tekjur maka til að skerða tekjutrygginguna. Það liggur í dómnum. Um það er ekki deilt. Í dómsorðinu stendur að Hæstiréttur dæmir. Þess vegna held ég að æðisterk rök séu fyrir því að ekki sé hægt að halda slíku áfram þó að hv. stjórnarliðar telji að svo megi vera.

Síðan vil ég bæta við þessa umræðu um það hvort stjórnarliðar séu í heilögu stríði við Öryrkjabandalagið. Það var ekki það sem sagt var. Það var sagt að Sjálfstfl. væri það og hæstv. forsrh. þar í broddi fylkingar. Þar hefur stríðið staðið. Það hefur staðið undanfarið og menn hafa tekið eftir því í þjóðfélaginu. Mér finnst að mönnum hlaupi býsna mikið kapp í kinn og hafi gert það að undanförnu, stjórnarliðum og sérstaklega Sjálfstfl. Það var eins og menn yrðu viti sínu fjær þegar dómurinn birtist. Það er í svoleiðis geðshræringu sem þær tillögur urðu til sem við erum að fást við á hv. Alþingi.