Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:16:58 (4189)

2001-01-23 15:16:58# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi vögguvísa hefði nú átt vel við á einhverri dagvistunarstofnun. Hv. þm. talaði um að láta Hæstarétt leggja niður jafnaðarstefnuna, að við séum tilbúnir til þess að láta Hæstarétt leggja niður jafnaðarstefnuna. Við erum að tala hér um dóm Hæstaréttar í réttlætismáli, í máli sem fjallar um rétt einstaklingsins til hjálpar frá samfélaginu vegna fötlunar. Það geta öll gildi jafnaðarstefnunnar staðið áfram þó að þessi dómur standi og þó að við viðurkennum að persónan, öryrkinn, eigi einhvern rétt sjálfur og einn og þurfi ekki að ganga í hjúskap með öðrum hokinn og án þess að hafa neitt að færa fram til þeirra sambúðar sem hann er að fara í. Það getur allt staðið áfram. Og mér finnst satt að segja ótrúlegt að hlusta á þegar hv. þm. Sjálfstfl. koma hver um annan þveran og hafa áhyggjur af því að við séum búnir að missa hugsjónirnar. Það er ekki þannig.

Við í Samfylkingunni erum ekki í neinum vandræðum með okkar hugsjónir. Við erum sameinuð. Við erum að vinna að verkefni sem við erum stolt af og við munum örugglega velgja Sjálfstfl. undir uggum í framtíðinni. Ég er viss um að hv. þm. á eftir að lifa þann dag að Samfylkingin muni komast til valda og hann sitji þá hér á bekkjum sem stjórnarandstöðuþingmaður og fái að taka á móti tillögum sem Samfylkingin vill bera fram í þeim málum sem hann virðist nú bera mest fyrir brjósti, þ.e. málefnum þeirra smáu, öryrkja og annarra slíkra. Ég held að það hefði þá átt að örla á því fyrr. Hv. þm. hefur verið æðilengi í stjórnarliðinu og hefur haft mikil áhrif og getur örugglega haft áhrif og notað sér þau til þess að koma góðum málum fram.