Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:21:27 (4191)

2001-01-23 15:21:27# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að ég fagna því sem hv. þm. sagði því hann talaði út úr pokanum. Og hvað sagði hann? Hann var að snupra mig fyrir að við vildum þola slíka niðurstöðu Hæstaréttar. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að hann vill ekki þola slíka niðurstöðu. Í hjarta sínu veit hann að ekki er verið að fara að því sem Hæstiréttur sagði og þess vegna talar hann svona. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst gott að einhver skuli þora að segja það sem hann meinar hérna og hann hugsi til framtíðar með því að reyna að smokra sér fram hjá því sem Hæstiréttur meinti með dómnum. En það er það sem stendur til hér.

Annað get ég vel þolað af hv. þm. sem hann hefur sagt um mig og Samfylkinguna. Við erum alveg menn í Samfylkingunni til þess að taka á því sem þar bar á góma og við munum gera það. Ég fagna því að fást við Sjálfstfl. í framtíðinni úr þeim röðum sem ég er kominn í núna og ég efast ekki um að við munum sanna það fyrir þjóðinni og kannski er ekkert svo mjög langt í það, ég býst við því að ekki sé mjög langt í það að við getum sannað það fyrir þjóðinni að við berum hag jafnaðar fyrir brjósti ... (Gripið fram í.) já, að við berum hag þess fólks fyrir brjósti sem minnst má sín. Jafnaðarstefnan er í fyrirrúmi hjá okkur og það fólk sem þarf á því að halda að jöfnuðurinn sé til staðar í þjóðfélaginu. Mér sýnist að annað fólk hafi verið haft í fyrirrúmi á undanförnum árum og að hv. þm. hafi ekki borið hag smælingjanna fyrir brjósti þegar hann hefur stutt ýmsar tillögur um að rétta hag þeirra sem eiga stærstu fjárhæðirnar og eignirnar í þessu þjóðfélagi.