Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:10:54 (4211)

2001-01-23 17:10:54# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að verða við þeirri beiðni hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að skýra fyrir henni hæstaréttardóminn. Ég reyndi þetta reyndar í gær og lagði í það nokkra vinnu og fékk engin viðbrögð við því. Það var samþykkt sem ég sagði þar og ekki dregið í efa.

Að sjálfsögðu er ágreiningur minni og meiri hluta fólginn í eftirfarandi: Meiri hlutinn telur óheimilt að ákveða lágmarksstuðning eins og það er gert með lögum og skerða síðan tekjutryggingu með tilliti til tekna maka. Minni hlutinn kemst að þeirri skýru niðurstöðu að löggjafinn hafi haft heimild til að meta lágmarkið eins og kveðið er á um í lögunum og sér ekki efni til að hagga því mati eins og stendur skýrt í niðurstöðu minni hlutans. Ef hv. þm. les með lestrarkunnáttu sinni, sem ég dreg ekki í efa, síðustu tvenn greinarskil niðurstöðu minni hlutans kemur þetta skýrt í ljós. Sjálfsagt er að vitna í þetta orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ekki eru efni til, að dómstólar haggi því mati,`` segir minni hlutinn. Hann endurtekur þetta hér: ,,Á hinn bóginn hafi aðaláfrýjandi mátt skerða tekjutrygginguna frá 1. janúar 1999, eftir að heimild til þess hafði verið leidd í almannatryggingalög með lögum nr. 149/1998.``

Þarna stendur mjög skýrt að dómurinn sér ekki efni til þess að hagga þessu mati.