Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:16:32 (4216)

2001-01-23 17:16:32# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:16]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar dómur Hæstaréttar er lesinn allur er verið að færa fyrir því í fororði rök að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu sem hann kemst að. Þar er vísað í ákvæði stjórnarskrár. Þar er talað um mannréttindi. Það er talað um lágmarksréttindi og þar er vísað í mannréttindasáttmála. Ég bendi hv. þm. á að skoða þennan dóm vel. Hv. þm. er að verja mjög erfiða stöðu. Ég hef spurt: Hvers vegna leggja menn svona gífurlega mikið á sig til að komast hjá því að borga 8 þús. kr.? Ég hef verið að reyna að leiða rök að því hvers vegna menn geri það þrátt fyrir landsfundarsamþykktir sínar. Við höfum ákveðna skoðun á málinu. Við teljum að þegar Hæstiréttur hefur talað eigi að fara að niðurstöðu hans. Og hann hefur talað þegar meiri hlutinn hefur komist að ákveðinni niðurstöðu. Við höfum þar að auki ákveðna pólitíska skoðun á málinu sem slíku og hún hefur legið lengi fyrir vegna þess að við höfum aftur og aftur verið að flytja þingmál sem fjalla nákvæmlega um það sem hér er til umræðu þessa daga sem við höfum verið kölluð saman til að setja þessi lög.