Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:26:15 (4223)

2001-01-23 17:26:15# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mörg stór og þung orð hafa verið látin falla í þessari umræðu. Sumt sem sagt hefur verið er réttmætt, annað ekki. En eðli máls samkvæmt er þetta tilfinningaþrungin umræða. Og hvers vegna segi ég eðli máls samkvæmt? Jú, í fyrsta lagi erum við að fjalla um kjör öryrkja, þess hóps í þjóðfélaginu sem almennt býr við bágust kjörin. Hin ástæðan er sú að kjör öryrkja eru á ábyrgð Alþingis. Þau eru á ábyrgð okkar sem hér erum. Þess vegna skynjum við það öll að miklu máli skiptir hvernig á er haldið. Ég held að það sé almenn skoðun á Íslandi að við höfum ekki búið öryrkjum réttlát skipti. Enda kom það fram í skoðanakönnun sem gerð var fyrir fáeinum dögum að yfir 80% þjóðarinnar eru andvíg aðgerðum ríkisstjórnarinnar, eru andvíg þeim skerðingum sem ríkisstjórnin í krafti meiri hluta á Alþingi er staðráðin í að beita í þessu máli.

Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Við fjárlagaumræðuna fyrir fáeinum vikum bar kjaramál öryrkja á góma og við fluttum um þau tillögu. Ég held að allflestir flokkar stjórnarandstöðunnar hafi flutt slíkar tillögur, allir flokkar. Þær náðu ekki fram að ganga. Ég man eftir því að ég stóð í ræðustól og spurði hvaða mál það væri öðrum fremur sem við litum á sem algert forgangsmál. Það forgangsmál sem ég vildi nefna var að afnema tengingu örorkubóta við tekjur maka örorkuþegans. Þetta töldum við vera forgangsmál. Við lögðum fram tillögu um þetta efni og hún var felld.

Menn hafa fylgst með þróun kjara öryrkja á undanförnum árum og haft nokkrar og reyndar miklar áhyggjur þegar þeir hafa gert sér grein fyrir því hver þróunin hefur verið. Ef litið er á árabilið 1993--1999 hefur verið helmings munur á kjaraþróun þeirra sem njóta bóta úr almannatryggingakerfinu. Þá er ég að horfa til grunntryggingarinnar, tekjutryggingar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar. Það er helmingsmunur á kjaraþróun þessa hóps og láglaunafólks hins vegar, helmings munur. Annars vegar er um að ræða 52% hækkun lágmarkslauna á þessu tímabili og hins vegar er um að ræða 30% hækkun á þeim upphæðum sem ég nefndi, þeim greiðslum sem ég nefndi, þ.e. grunnlífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót, auk eingreiðslna. En þá er einnig á það að líta að inn í þessar greiðslur hafa ýmis fríðindi verið tekin, útvarp, sjónvarp, sími og þar fram eftir götunum, en slíkar greiðslur, slíkur stuðningur hefur verið felldur niður á þessu tímabili. Það lætur því nærri að helmingsmunur sé á kjaraþróun þessara hópa. Enda kemur það fram að þegar farið er að skoða hlutfall grunnlífeyris og tekjutryggingu af dagvinnulaunum verkamanna þá var þetta hlutfall 51,7% árið 1991, en árið 2000 var þetta hlutfall komið niður í 43,6%.

[17:30]

Hvernig gerðist þetta? Flestir þekkja þá sögu þrátt fyrir þá undarlegu umræðu sem fór fram fyrr í dag fyrir forgöngu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Það sem gerðist árið 1995 var að tengingin sem verið hafði á milli bóta í almannatryggingakerfinu við lægstu laun var rofin. Þessi tenging var rofin og menn voru algjörlega í lausu lofti um nokkurt skeið, í tvö ár.

Þessu var harðlega mótmælt hér á þinginu, ekki síst í ljósi þess að fyrir dyrum stóð að stórhækka lægstu launataxta. Það var vitað að ef þessi tenging yrði rofin og tekið mið af öðrum meðaltölum, öðrum stærðum, mundu öryrkjar og aldraðir bera skarðan hlut frá borði. Þess vegna var þessu mótmælt.

Tveimur árum síðar eru ný ákvæði fest í lög. Í 65. gr. almannatryggingalaga og í greininni segir um bætur almannatrygginga, með leyfi forseta:

,,Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Miðað við þær aðstæður sem þarna voru uppi, að engin tenging var fyrir hendi, þá töldu mörg okkar þetta ákvæði til bóta. Enda þótt við hefðum viljað hafa bindinguna við lægstu laun, í ljósi þess að fyrir dyrum stóð að hækka þau stórlega umfram meðaltal, var þarna þó komin nokkur trygging, viðmiðið skyldi vera almenn launaþróun, sem flestir skilja sem launavísitölu eða þróun neysluverðs, þ.e. neysluvísitölu. Við töldum að þarna væri komin ákveðin trygging ef samdráttur yrði í launum, kjararýrnun og verðlag þróaðist hraðar en launin þá væri þarna ákveðið öryggisnet. Mörg okkar töldu þetta til góðs þrátt fyrir, og á það legg ég áherslu, að við vildum hafa aðra tengingu.

En hvað gerist svo? Ekki einu sinni þessi lög gat ríkisstjórnin staðið við, ekki einu sinni þessi lög. Hún braut líka þessi lög.

Ég lagðist yfir það í mars sl. að kanna þetta sérstaklega. Ég kannaði hækkun bóta með eingreiðslum í almannatryggingakerfinu, hver þróunin hefði verið á árinu 1999. Ég rifja það upp nú vegna þess að hér var fullyrt áðan að við þessi lög hefði verið staðið í einu og öllu. Á árinu 1999 kannaði ég hver þróun hefði orðið í hækkun bóta með eingreiðslum. Reyndar skiptir mjög miklu máli hvaða reiknireglur eru notaðar. Það koma út mismunandi stærðir eftir þeim reiknireglum sem eru notaðar. Ég prófaði af þeim sökum þrjár aðferðir. Skoðaði ársmeðaltalið 1999, kannaði hækkun frá janúar 1999 til janúar árið 2000 og í þriðja lagi hækkun frá desember 1998 til desember 1999. Þetta eru mismunandi aðferðir sem iðulega er beitt. Síðan kannaði ég vísitölu neysluverðs. Ég skoðaði ársmeðaltalið, skoðaði hækkun frá janúar 1999 til janúar 2000 og ég skoðaði hækkun frá desember 1998 til desember 1999. Síðan skoðaði ég launin. Ég skoðaði ársmeðaltalið 1999, hækkun frá janúar 1999 til janúar árið 2000 og hækkun frá desember 1998 til desember 1999.

Í öllum tilvikum, hvernig sem dæmið er reiknað, var ekki staðið við lögin. Í öllum tilvikum var hækkunin á bótum í almannatryggingakerfinu minni en annaðhvort neysluvísitalan eða launaþróunin. Ekki einu sinni þetta gátu þeir staðið við. Þeir þóttust vera að búa til öryggisnet fyrir örorkuþega og aldraða en einnig það var rifið. Það var ekki farið að þeim lögum sem menn hafa montað sig af hér í dag. Þetta er staðreynd. Ég óska eftir því ef þetta er vefengt að menn geri það. Þetta hefur legið fyrir í langan tíma.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, í ljósi þeirra fullyrðinga að öryrkjar hafi aldrei haft það betra á Íslandi og hagur þeirra hefði aldrei verið betri, frá landnámi held ég það hafi verið, hvort ekki væri rétt að skoða hlutskipti þessa hóps eins og annarra Íslendinga, með tilliti til þess hvernig við deilum þjóðarauði okkar. Við erum meðal ríkustu þjóða heimsins og við hljótum að skoða þessa spurningu í ljósi þess hvernig við förum með þennan auð, hvernig við skiptum honum og hver hlutdeild öryrkja hefur verið í þeim þjóðarauði, í sameiginlegum verðmætum okkar.

Ég fór yfir það áðan hver sú þróun hefur verið. Hún hefur því miður verið afar slæm fyrir þessa hópa. Kjör þeirra hafa þróast verr en hjá öðrum hópum í þessu landi. Ég ætla ekki að fara út í umræður um sjúkrakostnað, lyfin, símann og annan stuðning sem hefur verið tekinn af öryrkjum og öldruðum. Það þekkja menn. Það þýðir ekkert að koma með blekkingar eins og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa reynt að beita í þessu máli.

Þetta er annað atriðið sem veldur því að þessi umræða hefur verið tilfinningaþrungin. Menn þekkja þessa þróun og menn gera sér grein fyrir því að þetta er á okkar ábyrgð, okkar hér á Alþingi. Reyndar ætla ég í fullri hógværð að vísa ábyrgðinni á ríkisstjórnina og þann meiri hluta sem hún styðst við. Við í stjórnarandsstöðunni höfum ítrekað lagt fram tillögur um að breyta þessu.

Þegar þeir leyfa sér að koma hingað í pontu, í ræðustól á Alþingi og segja að þeir vilji forgangsraða í þágu þeirra sem lakast standa í þjóðfélaginu þá veit ég ekki hvaða orð á að nota til að lýsa því, bíræfni sennilega. Hafa menn þá gleymt umræðum frá því fyrir fáeinum vikum um skattleysismörk? Hafa menn gleymt þeim, þegar skattar voru hækkaðir án þess að persónuafslátturinn fylgdi með þeim afleiðingum að skattleysismörkin munu lækka sem bitnar fyrst og fremst á þeim sem hafa minnstar tekjur? Eru menn búnir að gleyma þessu? Hafa menn gleymt því að ríkisstjórnin sem hér situr og styðst við meiri hluta á þingi valdi það sem sérstakt forgangsverkefni að lækka skatta á stærstu bíla um hálfa milljón á bíl? Eru menn búnir að gleyma þessu? Þetta er sama ríkisstjórnin og er að þrátta hér um 7.500 kr. sem hún vill hafa af öryrkjum. Þetta eru sömu aðilar.

Hafa menn gleymt átökum sem hér urðu fyrir fáeinum vikum um söluhagnað af hlutabréfum þar sem fram kom í upplýsingum frá skattstjóra að 636 einstaklingar hefðu á tveimur árum komist hjá því að greiða skatta af um 20 milljörðum kr. og að öllum líkindum hefðu þeir skotið þessum upphæðum til útlanda? Hér voru samþykkt lög á Alþingi þar sem skattar af slíku fé eru lækkaðir, færðir niður úr tekjuskattsprósentu og niður í 10%. Hafa menn gleymt þessu? Ég auglýsi eftir því að fulltrúar stjórnarmeirihlutans komi aftur upp og tali um forgang ríkisstjórnarinnar og þess meiri hluta sem hún styður sig við á Alþingi. Ég auglýsi eftir þeirri umræðu.

Þetta eru sömu öflin, sama ríkisstjórnin og sami meiri hlutinn og núna leitar allra leiða til að hafa 7.500 kr. af öryrkjum. Ekki nóg með það, hún ætlar að beita fyrningar\-ákvæðum í lögum til að komast hjá því að greiða öryrkjum það sem þeim sannanlega ber. Þetta er náttúrlega slíkt hneyksli og málatilbúnaðurinn þvílíkur að það er ekki að undra að mönnum verði heitt í hamsi.

Enn er á það að líta að við erum þrátt fyrir allt að fjalla um niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. Við erum að fjalla um stjórnarskrá lýðveldisins vegna þess að dómsorðið byggir á stjórnarskránni, það byggir á tilvísun í stjórnarskrána, dómurinn gerir það. Sú niðurstaða sem Hæstiréttur kemst að byggir á ákvæðum í stjórnarskrá Íslands sem eiga að verja einstaklingsbundin lágmarksmannréttindi. Þar er líka vísað í mannréttindasáttmála sem Íslendingar eiga aðild að.

Í mínum huga er þetta mál mjög skýrt. Það er einfalt og skýrt. Dómsorðið er tíu línur á blaði, svar við skýrum spurningum sem Öryrkjabandalagið beindi til dómstóla til að fá úr því skorið hvort heimilt væri með tilvísun til tiltekinna lagagreina að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Svarið var skýrt: Nei, það er ekki heimilt. Það er ekki heimilt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var það ekki heimilt vegna þess að lagastoð skorti fyrir reglugerð sem kvað á um skerðingu á árabilinu 1994 til ársloka 1998. Það skorti þessa lagastoð. Síðan var skerðingin óheimil vegna þess að eftir breytingu sem við gerðum á stjórnskrá lýðveldisins árið 1995 voru sett inn ákvæði sem tryggja þessi lágmarksréttindi öryrkjans. Þess vegna horfa menn aftur til þess tíma og því er út í hött þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal leggur til að endurgreiðslurnar nái aftur til, ég man ekki hvað, 17. aldar eða eitthvað --- alla vega mjög langt aftur í tímann. Þetta er alveg skýrt. Við erum að fjalla um skýra dómsniðurstöðu.

[17:45]

Ég sagði áðan að þung orð hefðu fallið í þessari umræðu. Þar hefði margt verið réttmætt og annað ekki. Menn sögðu t.d. að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn væru að brjóta gegn stjórnarskrá landsins, fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og einhverjir munu hafa bætt í og sagt að þetta væri gert vísvitandi. Ég held að sá sem hér stendur hafi jafnvel einhvern tíma látið þau orð falla, gott ef ekki var í frammíkalli. Þetta er ómaklegt og ég skal alveg viðurkenna að þessi orð vildi ég ekki sagt hafa. Ég ber þó það mikla virðingu fyrir sjálfum mér að mér finnst ástæða til að það komi fram. Það er engu að síður mat mitt og skoðun mín að hér sé farið gegn stjórnarskrá Íslands og ekki sé farið að niðurstöðu Hæstaréttar landsins. Mér finnst það mjög alvarlegt ef við virðum ekki þessar grundvallarstofnanir Íslands. Mér finnst vegið að rótum réttarríkis þegar slíkt gerist.

Fyrst eftir að niðurstöður dómsins lágu fyrir virtist enginn maður eða fáir menn velkjast í minnsta vafa um hvað hann þýddi. Í leiðara Morgunblaðsins 21. des. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í dómi sínum í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun ríkisins vísar Hæstiréttur til þess, að heimild hafi skort í almannatryggingalögum frá 1993 til að skerða tilkall bótaþega til fullrar tekjutryggingar með setningu reglugerðar. Gera verði þá kröfu til löggjafans, að lög geymi skýr og ótvíræð ákvæði um skerðingu greiðslna úr sjóðum almannatrygginga, sem ákveða megi með reglugerðum. Þar sem lagastoð hafi skort fyrir reglugerðinni er skerðing árin 1994--1998 óheimil. Lögum um almannatryggingar var breytt frá 1. jan. 1999 til að nægileg lagastoð væri fyrir setningu reglugerða um skerðingu bóta, en Hæstiréttur telur þau stangast á við þau lágmarksréttindi, sem felist í 76. grein stjórnarskrárinnar, og þar með að notið verði mannréttinda, sem 65. grein stjórnarskrárinnar kveður á um. Í þessum efnum vísar Hæstiréttur m.a. til mannréttindasáttmála, sem ríkið hafi staðfest.``

Þetta er úr leiðara Morgunblaðsins 21. des. sl.

Forstjóri Tryggingastofnunar óskaði Öryrkjabandalaginu til hamingju og hafist var handa um að undirbúa að greitt yrði út í samræmi við niðurstöðu dómsins.

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., sem var síðar skipaður í nefnd til að vinna að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar virtist heldur ekki vekjast í vafa um biðurstöðu dómsins því að þegar hann mætti Ragnari Aðalsteinssyni í sjónvarpsþætti sagðist hann vilja byrja á því, með leyfi forseta, ,,að óska starfsbróður mínum til hamingju með þennan dóm því að óneitanlega var þetta mikill sigur fyrir hann og sjónarmið sem hann hefur fært fram. Ég er að vísu alveg ósammála dómsniðurstöðunni lögfræðilega, en ég óska honum til hamingju. Þetta var mikill sigur.``

Mikill sigur? Hann var ósammála niðurstöðunni. Hann var ósammála niðurstöðu dómsins. Þetta var mikill sigur fyrir málstað öryrkja.

Hvað hefur gerst síðan? Það kemur hik á Tryggingastofnun. Það fara að birtast annars konar áherslur í Morgunblaðinu og víðar og Jón Steinar Gunnlaugsson fer að starfa í anda erindisbréfs sem hann fékk frá ríkisstjórninni. En hvað skyldi þeim hafa verið falið að gera sem skipaðir voru í þá nefnd?

Jú, það segir í upphafsorðum skýrslu sem þeir sendu frá sér eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þann 22. des. sl. ákvað ríkisstjórnin að skipa sérstakan starfshóp til að greina með sem nákvæmustum hætti hvaða leiðir séu færar til að bregðast við dómi Hæstaréttar frá 19. des. 2000 í málinu 125/2000, Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök.``

Hvaða leiðir séu færar til að bregðast gegn dómnum.

Nú hefði einhver haldið að menn leituðu þá þeirra leiða sem væru líklegastar til að gagnast öryrkjum. Nei, menn tóku að leita leiða til að hafa af öryrkjum bæturnar og hvernig hægt væri að beita fyrningarákvæðum í lögum til að þeim yrði ekki greitt aftur í tímann. Þá er gott að hafa í huga að langt er síðan öryrkjar hófu baráttu sína gagnvart Alþingi, stjórnmálaflokkum, í almennri þjóðfélagsumræðu og þegar það gagnaðist ekki, þá fyrir dómstólum. Þeir fá niðurstöðu í undirrétti. Ríkið er ekki sátt við hana og dregur lappirnar og síðan er málinu vísað áfram í Hæstarétt. Þaðan kemur aftur afdráttarlaus niðurstaða. Það er ríkið sem er búið að draga lappirnar. En nú á að nota þann drátt sem varð á málinu til að beita fyrningarákvæðum í lögum. Er að undra að menn hafi stór orð um slík vinnubrögð, er það að undra? Mér finnst það ekki.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hvernig stendur á því að Tryggingastofnun er látin komast upp með að fremja það sem ég tel vera ótvírætt lagabrot með því að greiða ekki samkvæmt hæstaréttardómi um síðustu áramót? Svar ríkisstjórnarinnar hefur verið þetta: Það skortir lagaheimild. Til hvers? Til að greiða samkvæmt dómnum? Nei. Það skortir lagaheimild til að skerða dóminn með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar að gera, ekki til að greiða samkvæmt þeim dómi sem var kveðinn upp.

Ég spyr hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem hristir höfuðið mjög kröftuglega og er væntanlega að gefa í skyn að það hafi skort lagaheimild til að greiða samkvæmt dómnum, hvort lagaheimild sé til að beita skerðingu sem Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað ólögmæta. Fróðlegt væri að fá lærðan fyrirlestur um það. (KHG: Þú ert búinn að fá hann.) Er ég búinn að fá hann?

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hann og fleiri hafa verið mjög duglegir að reyna að drepa þessu máli á dreif með ýmsum hætti. Þess vegna hef ég svolítið furðað mig á því hver sé skýringin á þessu og hver sé skýringin á því að menn gangi svona langt í því að hafa þessar réttarbætur af öryrkjum því skýringin getur ekki verið af efnahagslegum toga, ekki peningalegs eðlis. Við erum að tala um mjög smáar upphæðir í reynd, við erum að tala um skerðingu sem nemur 7.566 kr. og gæti gagnast um 700 manns. Ef við reiknum skatta á þessa upphæð heldur einstaklingurinn 4.633 kr. eftir sem samkvæmt mínum útreikningum gerir 3,2 milljónir á mánuði eða 38,4 milljónir á ári. Þetta eru upphæðirnar sem um er að tefla.

Reyndar er mjög margt sem hefur verið sagt misvísandi um þessi mál, ekki bara í þessum sal heldur líka í umræðu almennt í þjóðfélaginu. Það var sagt t.d. í einum ljósvakamiðli fyrir fáeinum dögum að þessi dómur snerti 700 öryrkja og greiðslur til þeirra yrðu samtals 1,4 milljarðar kr. Menn reiknuðu þá þannig út og það er verið að gefa í skyn að þetta væru upphæðirnar sem væri nú um að tefla, að þetta væri fundið þannig út að þá væri um að ræða 350 milljónir á ári, 500 þúsund á mann, 41.667 kr. á mánuði. En inni í þessum tölum eru allar þær greiðslur sem eru fyrir hendi þannig að þetta er afar misvísandi.

Mörgum brá í brún þegar þeir sáu flennifyrirsagnir í blöðum fyrir fáeinum dögum um heimilistekjur upp á 338 þús. kr. hjá þeim öryrkjum sem væru að að hafa hagsbætur af þessum dómi og reyndar kom ágæt frétt í Morgunblaðinu laugardaginn 13. janúar þar sem talað er um að fjölskyldutekjur öryrkja væru 220 þúsund og alls kyns líkar fyrirsagnir hafa verið uppi. Ég vek máls á þessu til að leggja áherslu á hve auðvelt er að koma með misvísandi upplýsingar. Auðvitað má segja að þetta komi ekkert málinu við, við erum að fjalla um hæstaréttarúrskurð og dóm sem ber að framfylgja, en mig langar samt til að nefna þetta. Það skiptir nefnilega máli hvernig fréttir eru framreiddar.

Í Morgunblaðsfréttinni þar sem talað er um heimilistekjur að meðaltali 338 þús. kr. á mánuði og er þar verið að vísa til þeirra sem hefðu hagsbætur af dómnum kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Mikill meiri hluti öryrkjanna er með litlar sem engar tekjur aðrar en bótagreiðslur Tryggingastofnunar. Yfir 98% alls hópsins hafa minna en 50 þúsund krónur í eigin tekjur á mánuði eða fá eingöngu greiðslur frá Tryggingastofnun.``

Síðan kemur í ljós í þessum sundurliðunum að yfirgnæfandi meiri hluti þessa fólks er láglaunafólk, lágtekjufólk og lágtekjufjölskyldur enda kom fram í úttekt sem birt var á Alþingi fyrir tveimur, þremur árum í skýrslu sem hæstv. forsrh. kynnti þinginu að meðaltekjur maka öryrkja eru 132 þús. kr. á mánuði. Það skiptir því mjög miklu máli hvernig þessar stærðir eru framreiddar.

Á blaðamannafundi sem hæstv. forsrh. boðaði til fyrir nokkru kom fram yfirlýsing sem var síðan birt í leiðara Morgunblaðsins og er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þessi dómur snýr bara að þeim öryrkjum sem búa við hæstar heimilistekjur. Það eru bara þeir öryrkjar þar sem heimilistekjur eru á bilinu 200--300 þúsund kr. á mánuði, sem hafa hagsbót af þessum dómi, aðrir ekki. Það var hvorki stefnt né kveðinn upp dómur í þeim tilgangi að hækka þá sem minna höfðu, heldur eru það eingöngu þeir öryrkjar sem hafa hæstar heimilistekjur, sem fá bætur samkvæmt þessum dómi.`` --- Sem fá bætur samkvæmt þessum dómi. Sem fá bætur samkvæmt úrskurði háyfirdóms hæstv. forsrh. Það er mikill munur á þessu vegna þess að samkvæmt dóminum fá allir þeir bætur sem eru með samanlagðar fjölskyldutekjur yfir 185 þús. kr. Ef tekjutryggingin stendur óhögguð fá þar allir bætur vegna þess að byrjað er að skerða tekjutrygginguna þegar maki öryrkjans er með meira en 134.220 kr. Ef við síðan reiknum hámarkið sem öryrkinn getur fengið, þá er þar um að ræða 18.424 + 34.566, þ.e. óskert tekjutrygging, en samanlagt er þetta 185.370 kr. Þegar fjölskyldan er komin með þetta hefði hún haft hagsbætur af úrskurði Hæstaréttar. Þetta er staðreyndin. Það er af þessu fólki sem ríkisstjórnin sem styðst við meiri hluta sinn á Alþingi ætlar að hafa 7.500 kr. Það er gegn þessu fólki sem þessu er stefnt.

[18:00]

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið mjög duglegur að tala um hátekjufólkið, og allt lágtekjufólkið og meðaltekjufólkið í ASÍ og BSRB sem þurfi að niðurgreiða til hinna, borga skatta. Hann hefur verið iðinn við að segja þetta. Ég fullyrði hins vegar og vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal taki eftir að við erum að tala um þann hóp í samfélagi okkar sem býr við lægstar tekjur, að hámarki 51 þús. kr. Ég er að sjálfsögðu fyrir löngu farinn að skilja hvað býr að baki málflutningi ríkisstjórnarinnar og fylgismanna hennar hér á Alþingi. Hún þykist af prinsippástæðum vera að verja tekjutengingarkerfið í velferðar- og skattakerfi landsmanna. Hún segir: Það er svo mikið í húfi af því að við erum svo miklir jafnaðarmenn og við verðum að verja þetta kerfi. Þess vegna verðum við að búa til mun á því sem einstæðingurinn fær annars vegar og sá sem er í hjónabandi hins vegar og tengja við tekjur makans. Við erum að verja þetta velferðarkerfi, millifærslukerfi, segja þeir. Þetta er hugsunin. Þetta er rökstuðningurinn. Síðan segja menn að 43 þús. kr. sé eins góð upphæð og hver önnur. Þeir bara ákváðu að setja hana fram. Þetta er hugsunin.

Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa þessari hugsun á bug. Einfaldlega vegna þess að við erum ekki að verja neitt kerfi með þessu móti. Það er enginn sem segir að við getum ekki eftir sem áður beitt millifærslu í skattakerfi eða innan velferðarþjónustunnar. Við teljum að líta eigi á öryrkja, þá einstaklinga sem af einhverjum sökum hafa tapað starfsorku sinni, sem einstaklinga sem eigi rétt sem slíkir á sama hátt og við skilgreinum þá sem tapað hafa vinnunni sem einstaklinga og greiðum þeim atvinnuleysisbætur --- allt of lágar að vísu, 67 þús. kr. á mánuði. Hins vegar spyr enginn hvað maki þeirra hafi í tekjur. Þetta er þeirra (PHB: Þetta er iðgjald.) réttur. Enda iðgjald, það er bókfærsla. Það er allt á einhverjum bókfærslugrundvelli. Við erum að tala um mannréttindi. Við erum að tala um mannréttindasáttmála Evrópu. Við erum að tala um stjórnarskrá Íslands. Við erum að tala um að tryggja einstaklingnum grunnréttindi. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ætlar hins vegar að hafa peningana af fólkinu á einhverjum bókhaldsforsendum.

Ömurlegast finnst mér ef meiri hlutinn hér á Alþingi, einstakir þingmenn, ætlar að axla ábyrgð á því að dæma fólk til varanlegrar fátæktar því það er það sem verið er að gera. Það ætla menn að gera, fólk í þessum sal, allt með miklu hærri tekjur, ekki bara þar sem skerðingin byrjar heldur þar sem hún hættir vegna þess að þar erum við komin í slíkar ofurhæðir. Svo eru menn að tala um hroka. Það er hroki og mannfyrirlitning að fara fram með þessum hætti.

Herra forseti. Ég veit ekki hve lengi ég á að halda þessum lestri áfram. Ég þykist nokkuð viss um að það verði ekki sinnaskipti hjá ríkisstjórninni. Ég vil halda því til haga að ég tel að það sé verið að fremja lögbrot með því að greiða öryrkjum ekki það sem þeim ber samkvæmt úrskurði Hæstaréttar. Ég tel að það sé lögbrot. Ég hef sannfærst um að þetta stríði gegn stjórnarskrá Íslands og brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála sem við höfum gerst aðilar að. Ég tel það bæði ólöglegt og siðlaust með öllu að beita fyrningarákvæðum eins og gert er gagnvart þeim sanngirniskröfum sem uppi eru hafðar. Það er samdóma álit allra dómara í Hæstarétti, ef menn ætla að fara út í þá sálma, að á árunum 1994 til ársloka 1998 hafi skort ákvæði í lögum til að skerða tekjutryggingu öryrkja. Í raun sætir furðu að ríkisstjórnin ætli að leyfa sér að hafa þann hátt á.

Ég held, herra forseti, að það sé rangt að menn séu að varðveita mikilvæg grunnprinsipp með slíkri framgöngu. Það er fyrirsláttur og þetta er rangt. Ég leyfi mér að ítreka þau mótmæli sem komið hafa frá þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem fjallað hafa um þetta mál. Ég vil taka fram að það er fullkominn einhugur í okkar hópi í þessu máli, fullkominn einhugur.