Bréfaskipti forsætisnefndar og forseta Hæstaréttar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 20:30:49 (4226)

2001-01-23 20:30:49# 126. lþ. 64.91 fundur 266#B bréfaskipti forsætisnefndar og forseta Hæstaréttar#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[20:30]

Forseti (Halldór Blöndal):

Áður en haldið er áfram með dagskrá vil ég geta þess að á fundi forsn. í dag lagði ég fram tillögu um að ég mundi skrifa forseta Hæstaréttar eftirfarandi bréf og er það af því tilefni að áður en málið var tekið til 1. umr. höfðu formenn þriggja stjórnmálaflokka óskað eftir því að ég úrskurðaði um hvort hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða eða ekki. Þegar hér var komið sögu lá það fyrir að frv. hafði farið til athugunar í nefnd og verið samþykkt óbreytt við 2. umr. Eftir miklar vangaveltur boðaði ég til fundar í forsn. í dag sem samþykkti að ég skrifaði svohljóðandi bréf til forseta Hæstaréttar, Garðars Gíslasonar, dags. 23. jan. 2001:

,,Forseti Hæstaréttar,

Garðar Gíslason.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 hefur ríkisstjórnin flutt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er ráðgert að sem fyrr geti orðið skerðing á fjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekjuöflunar maka hans.

Við meðferð frumvarpsins á Alþingi hefur verið deilt um, hvort skilja eigi umræddan dóm Hæstaréttar svo að með honum hafi verið slegið föstu, að almennt sé andstætt stjórnarskránni að kveða í lögum á um slíka tekjutengingu. Vegna þess fer forsætisnefnd Alþingis þess á leit við forseta Hæstaréttar að hann láti nefndinni í té svar við því, hvort dómurinn hafi falið slíka afstöðu í sér.

Halldór Blöndal.``

Rétt í kvöld barst mér svohljóðandi bréf:

,,Forsætisnefnd Alþingis.

23. janúar 2001.

Vísað er til bréfs 23. janúar 2001, þar sem þér farið þess á leit að forseti Hæstaréttar láti nefndinni í té svar við því hvort með dómi Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 hafi verið slegið föstu að almennt sé andstætt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að kveða í lögum á um að skerðing geti orðið á fjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka hans.

Í dóminum var aðeins tekin afstaða til þess hvort slík tekjutenging eins og nú er mælt fyrir um í lögum sé andstæð stjórnarskránni. Svo var talið vera. Dómurinn felur ekki í sér afstöðu til frekari álitaefna en hér um ræðir. Í því ljósi verður að svara spurningu yðar neitandi.

Garðar Gíslason.``

Ég hef kynnt þessi bréfaskipti á fundi bæði hjá forsn. og eins á fundi með formönnum þingflokka og beiðni barst frá formönnum þingflokka um að fundi yrði frestað í 15 mínútur til þess að þingflokkar gætu komið saman af þessu tilefni.