Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:20:07 (4231)

2001-01-23 21:20:07# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi notað þau orð að meiri hlutinn væri vísvitandi, af einbeittum ásetningi að brjóta stjórnarskrána. Skoðun mín er hins vegar sú að það sé verið að gera, það verði gert með þessari lagasetningu. Það hef ég margsagt og ég þarf ekki að taka það fram í hvert einasta skipti sem ég tala í framsöguhætti fyrir skoðunum mínum að það sé að mínu mati eða mín skoðun. Það er óþarfi að segja það. Við erum hvert fyrir sig að tala fyrir sjónarmiðum okkar.

Ég er þeirrar skoðunar að frv. sé stjórnarskrárbrot líklega á þrennan hátt. Í fyrsta lagi að framlengja áfram þá skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka sem Hæstiréttur hefur að mínu mati dæmt ólöglega. Í öðru lagi að hafa íþyngjandi lagaákvæði afturvirk. Og í þriðja lagi lít ég svo á að verið sé að gera eign öryrkjanna upptæka með því að bera við fyrningu á fjármunum sem ranglega og sannanlega og með lögleysu hafa verið af þeim teknir. Allt eru þetta stjórnarskrárbrot. Það að taka eign manna án þess að almannahagsmunir krefjist, og það á ekki við hér, er stjórnarskrárbrot. Lög eiga ekki að vera afturvirk með íþyngjandi hætti. Og við teljum einnig að áframhaldandi skerðing tekjutryggingar vegna tekna maka sé stjórnarskrárbrot. Þetta er skoðun okkar og við erum ekki ein um hana og hv. þm. verður bara að una því að hann er að taka þá áhættu að höggva aftur í sama knérunn, en hann mun hafa verið hér á þingi og greitt atkvæði með þeim stjórnarskrárbrotum sem svo voru dæmd.