Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:25:42 (4234)

2001-01-23 21:25:42# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um fyrninguna. Ég vil leyfa mér að lesa einu sinni enn það sem meiri hluti Hæstaréttar segir í VI. kafla atkvæðis síns:

,,Í 48. gr. sömu laga eru jafnframt ákvæði sem huga verður að`` --- segir Hæstiréttur --- ,,við ákvörðun lífeyris til hvers örorkulífeyrisþega um sig.`` --- Sú grein hljóðar svo:

,,Bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár.``

Hér er Hæstiréttur að segja að ekki skuli greiða lengra aftur í tímann en tvö ár frá dómsupptöku. Þess vegna er fyrningin fjögur ár því að málið var dómtekið 19. janúar 1999.

Hvað varðar lágmarksvextina, þá segir Hæstiréttur að það skipulag sem skoðað er sé ekki talið tryggja þau lágmarksréttindi sem í framangreindu stjórnarskrárákvæði felast. Þetta lágmark er hækkað. Verið er að bæta rétt manna og þegar verið er að bæta rétt manna, þá er ekki eðlilegt að miða við dráttarvexti heldur venjulega vextir, 5,5% eins og hér er um er um að ræða. Þetta er ívilnun, herra forseti.

Varðandi fyrninguna þá hefur stjórnarandstaðan lagt til að greitt verði í sjö ár sem þýðir eingreiðslur upp á 3 millj. til fólks sem yfir helming er með meira en 300 þús. kr. í fjölskyldutekjur á mánuði. Og fjórðungur þessara 700 einstaklinga er með yfir 400 þús. í fjölskyldutekjur á mánuði. Þetta fólk á núna að fá samkvæmt frv. 1,5 millj. í eingreiðslu. Stjórnarandstaðan vill hafa það 3 millj. og ég hef spurt hv. stjórnarandstöðuþingmenn hvort þetta samrýmist hugmyndum þeirra um jafnaðarmennsku. Ég hef ekki sagt að þetta sé á móti mínum skoðunum því að ég er hlynntur einstaklingshyggju.