Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:27:58 (4235)

2001-01-23 21:27:58# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Allur Hæstiréttur er sammála um að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka á tímabilinu 1994--1998, þar sem ekki var lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem beitt var við þá skerðingu. Allur Hæstiréttur var sammála um það. Kæra Öryrkjabandalags Íslands var tekin orðrétt upp í dómnum um að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap eftir að skerðingarreglan var sett í lög á Alþingi og varað var við þeirri gjörð af stjórnarandstöðunni. Hún varaði við því. Það standist ekki mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eftir að ný mannréttindaákvæði voru sett inn í VII. kafla árið 1995. Þess vegna ber að endurgreiða þessu fólki að fullu það sem tekið var af því í heimildarleysi. Það ber að endurgreiða þær fjárhæðir sem teknar voru í heimildarleysi að fullu.

Við höfum farið rækilega yfir frv. og við höfum rætt það ítarlega í þremur umræðum hver afstaða okkar til málsins er og höfum skilað mjög ítarlegu nefndaráliti um niðurstöðu okkar. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu hér. Niðurstaða okkar er sú að það stenst ekki stjórnarskrána eða mannréttindaákvæði hennar að fara þá leið sem ríkisstjórnin fer, og bréf það sem hefur verið hér til umræðu breytir engu þar um og er ekki neitt innlegg í að leysa þann ágreining sem hér er uppi. Aftur á móti hefur komið fram í umræðunni að ýmsir stjórnarliðar eru sammála okkur í þessari túlkun, m.a. yfirlögfræðingur ríkisstjórnarinnar, Jón Steinar Gunnlaugsson, og hefur verið vísað í viðtöl við hann í blöðum og fjölmiðlum þar sem fram kemur að hann er sammála okkur í túlkuninni þó svo hann hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu þegar hann samdi frv.

[21:30]

Það kom einnig fram hjá einum stjórnarliða í dag, hv. þm. Árna Johnsen, í andsvari við hv. þm. Jóhann Ársælsson, að hann skildi niðurstöðu Hæstaréttar á sama hátt og vændi hv. þm. um að ætla að leggja niður jafnaðarstefnuna með dómi þriggja dómara. Hann ætlar bara að fara að dómi dómara í Hæstarétti. Hann var greinilega á sama máli og Hæstiréttur og við um að þetta væri óheimilt. Síðan furðaði sami hv. þm. sig á því í öðru andsvari að jafnaðarmenn skuli þola slíka niðurstöðu hjá Hæstarétti Íslands. Það sagði hv. þm. Árni Johnsen, þó að það sé Hæstiréttur Íslands. Þetta kom fram í andsvari fyrr í dag þannig að hann skilur greinilega niðurstöðu Hæstaréttar og dóminn á sama hátt.

Hér hafa almennt verið til umræðu kjör lífeyrisþega og öryrkja. Því hefur verið lofað í umræðunni að bæta kjör þeirra og það verði gert áður en þessum vetri lýkur. Það er vel. Við munum sjá til þess að halda ríkisstjórninni við efnið og sjá til að kjör lífeyrisþega verði bætt því að það er löngu tímabært. Það þarf að hækka bæturnar og taka á málefnum ungra öryrkja. Það þarf að bæta stöðu þeirra sem lenda í því að missa starfsorkuna. Það er löngu orðið tímabært.

Mér finnst nokkuð merkilegt, herra forseti, að með frv. til laga sem komið er inn í þingið í kjölfar dóms Hæstaréttar skuli aðeins fylgja nál. frá lögfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar en ekki dómur Hæstaréttar sem þó er ástæðan fyrir framlagningu þess. Dómurinn fylgir ekki með í skjalinu, aðeins niðurstaða lögfræðinganefndarinnar. Þetta þykir mér segja talsvert um hugarfarið á bak við þetta frv.

Ég vil einnig spyrja, fyrst hér eru komnir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, spurningar sem öryrkjar hafa spurt mig um í dag: Hefur komið nokkur skýring á því í þingsölum hvers vegna tekjutrygging öryrkja í hjúskap á að vera 25 þús. kr. en ekki 32 þús. kr.? Hefur komið skýring á því? Hæstv. forsrh. talaði fjálglega um það í upphafi þessarar umræðu að það þyrfti að upplýsa ýmislegt í þessu máli. Hann hefur ekki enn upplýst hvar þeir fundu þessa tölu, 25 þús. kr. í tekjutryggingu eða 43 þús. kr. hámark til þeirra sem eru í hjúskap. Því hefur ekki verið svarað. Það væri ágætt að fá þær upplýsingar áður en umræðunni lýkur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa en mig langar að spyrjast fyrir um minnisblað, frá forsrh. til nefndarinnar, sem lögfræðingur Öryrkjabandalagsins hefur óskað eftir að sjá í krafti upplýsingalaga. Því hefur verið synjað og ég spyr, herra forseti: Hvaða pukur er á ferðinni hjá ríkisstjórninni í þessu máli? Hvað hafa þeir að fela? Hvers vegna er ekki hægt að birta öll plögg sem snerta málið, þetta þingmál sem á að skerða kjör ákveðins hóps öryrkja miðað við niðurstöðu Hæstaréttar, þ.e. öryrkja í hjúskap? Ég óska eftir, herra forseti, svari við því hvers vegna er ekki hægt að birta þetta minnisblað frá hæstv. forsrh. sem lögmaður Öryrkjabandalagsins hefur farið fram á að fá að sjá.

Ég vildi gjarnan fá svör við þessu. Hvaðan er upphæðin fengin sem á að skammta lífeyrisþegum í hjúskap úr hnefa? Hvað hefur ríkisstjórnin að fela með því að neita lögmanni Öryrkjabandalagsins um það minnisblað sem óskað hefur verið eftir?