Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:04:15 (4239)

2001-01-23 22:04:15# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir utan hina dæmalausu og óvenjulegu persónuárás hv. þm. á forseta Hæstaréttar, sem er afar óvenjuleg í þingsögunni, þá beindi hann til mín spurningum um það hvort ég vissi hvort fundir hefðu verið haldnir í Hæstarétti út af þessu tilefni og þessu bréfi. Ég hef ekki hugmynd um það. Það er forsætisnefnd þingsins sem biður um svar Hæstaréttar. Það er að vonum að forsætisnefnd þingsins geri það vegna þess að hér hefur því verið haldið fram að menn væru að fremja stjórnarskrárbrot ef þeir túlkuðu lög eða frv. með þeim hætti að tekjutrygging örorkulífeyrisþega í hjúskap væri að einhverju leyti bundin við tekjur maka hans. Í því fólust hinar stóru ásakanir um stjórnarskrárbrot.

Hæstiréttur svarar því að svo sé ekki. (Gripið fram í.) Ég hefði haldið að hér hefði orðið mikil gleði í þessum sal, til að mynda hjá þeim hv. þm. sem talaði um hinn mikla eið sinn, að hann vildi ekki brjóta stjórnarskrá og heimtaði að málið væri tekið af dagskrá vegna þess að menn væru að brjóta stjórnarskrá og túlkaði í sífellu það sem fyrir Hæstarétti vakti. (ÖJ: Þarf ekki að fá Jón Steinar til að túlka þetta aftur?) Þessi hv. þm. er nú þannig að menn máttu ekki tala saman tveir hér, þá reigði hann sig allan en hér er sífellt talað fram í. Ég hef fengið mörg bréf frá Hæstarétti í gegnum tíðina af ýmsum ástæðum sem forsrh. Það er jafnan skrifað undir þau af hálfu forseta Hæstaréttar og þá auðvitað í umboði Hæstaréttar. Það mikið veit ég um lögfræði að svona bréf er ekki sent nema Hæstiréttur eða a.m.k. meiri hluti Hæstaréttar standi á bak við það.