Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:08:29 (4241)

2001-01-23 22:08:29# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:08]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg ótrúleg óskammfeilni sem hv. þm. sýnir. Hann segir að dómstóllinn sé að reyna að fara inn á svið Alþingis. Dómstóllinn er að svara bréfi, beiðni frá forsætisnefnd Alþingis, nefnd sem er í forsvari fyrir þingið út á við. Dómstóllinn hefur ekkert frumkvæði að þessu máli eins og þessi bréf bera með sér.

Það að mér sé ekki kunnugt um hvort Hæstiréttur fundar eða ekki frekar en hv. þm. sannar ekkert um það hvort rétturinn hafi haldið fund eða ekki. (Gripið fram í.) Það getur skipt máli en það að ég viti ekki um það segir ekkert frekar en að hv. þm. viti það ekki eða einhver annar. Það mikið veit ég þó um lögfræði og það mikið þekki ég til Hæstaréttar að svona bréf eru send í umboði Hæstaréttar og með stuðning Hæstaréttar eða meiri hluta Hæstaréttar á bak við sig. Þannig er þetta.

Hv. þm. bætir því síðan við, eftir að hafa ráðist með svívirðingum á forseta Hæstaréttar sem er afar óvenjulegt, gengur í stólinn á nýjan leik og segir: Ég sagði bara að forseti Hæstaréttar væri að ganga erinda vina sinna. Ég sagði það bara og það þykir nú bara fínt, sagði þessi hv. þm. Ég veit ekki á hvaða plani þessi hv. þm. er en hann er á mjög lágu plani hvar sem það liggur.