Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:27:12 (4257)

2001-01-23 23:27:12# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Skoðun mín er algjörlega óbreytt og stendur óhögguð í þessu máli. Dómur Hæstaréttar Íslands er skýr og afdráttarlaus. Það ber að greiða öryrkjum óskerta tekjutryggingu, ekki er heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka öryrkjans. Þetta er afdráttarlaust. Og einnig ber að greiða þessar bætur aftur í tímann.

Ríkisstjórnin hefur leitað allra leiða til að finna færar leiðir, eins og það var orðað í erindisbréfi sérfræðinganefndarinnar sem vélaði um þessi mál, til að túlka dóminn á annan veg.

Ég er ekki að halda því fram, og ég sagði það í ræðu í dag, að það væri vísvitandi verið að brjóta stjórnarskrá Íslands. Það er rangt að halda slíku fram, tel ég. Hins vegar er það mat mitt og afdráttarlaus skoðun mín að þetta stríði gegn mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá Íslands.

Ég vil nota þetta tækifæri til að beina þeirri pólitísku spurningu til talsmanns Sjálfstfl. hvaða skýringar hann hefur á því að Sjálfstfl. --- og reyndar Framsfl. einnig en hv. þm. svari fyrir Sjálfstfl. --- vill skerða tekjutryggingu hjá tekjulægsta þjóðfélagshópnum á Íslandi. Hvaða skýringar og rök hefur hann fyrir því að beita fyrningarákvæðum í lögum, sem reyndar standast að mínum dómi ekki lög, til að hafa af fólki þær kjarabætur og réttarbætur sem Hæstiréttur hefur úrskurðað?