Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:29:23 (4258)

2001-01-23 23:29:23# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:29]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst, enda hefur það komið afar skýrt fram í málflutningi hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að skoðun þingmannsins hefur ekki breyst, það er alveg ljóst. Ég virði skoðun þingmannsins þó að ég sé henni ósammála. Um það höfum við skipst á skoðunum og það liggur alveg ljóst fyrir að um þetta grundvallaratriði málsins erum við ósammála.

En ég virði einnig við þingmanninn alveg sérstaklega að hann skyldi hafa hugrekki til þess að koma upp í ræðustól og lýsa því yfir sérstaklega að hann teldi ekki við hæfi að lýsa því yfir að tilgangurinn með framlagningu frv. hafi verið að brjóta stjórnarskrána. Ég virði það líka við hv. þm.

Að því er varðar þennan tekjulága hóp, þá er það siðferðilega álitamál sem hefur vaknað í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar einmitt tengt tekjujöfnun. Fyrir liggur að í kjölfar úrskurðarins muni vakna kröfur hópa í þjóðfélaginu sem hafa verulegar fjölskyldutekjur. Í krafti úrskurðar Hæstaréttar er hægt að færa fyrir því rök að fjármunir verði færðir frá þeim sem minna hafa til hinna sem hafa meiri tekjur. Þessi dæmi munu koma upp. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það er einmitt þessi þáttur málsins sem vekur spurningar um siðferðilega hlið málsins. Ég get því ekki fallist á það með hv. þm. að hér sé verið að skerða tekjulægsta hópinn í þjóðfélaginu.