Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:58:44 (4264)

2001-01-23 23:58:44# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að frv. sé beint gegn einhverjum. Það er alls ekki svo. Verið er að hækka lágmarkstryggingu þess fólks sem frv. snýst um. Verið er að hækka lágmarkstryggingu úr rúmum 18 þús. kr. í rúmar 43 þús. kr. Um það snýst málið. Þetta hef ég margreynt að útskýra fyrir hv. þm.

Mér finnst það afskaplega sérkennilegt þegar slíkur málflutningur er uppi skipti eftir skipti. Deilan snýst hins vegar um hvort mögulegt og rétt sé að skerða þessar tekjur við ákveðnar aðstæður og það er niðurstaðan. Fram að þessu hefur fyrst og fremst verið brugðist við með þeim hætti að hækka svokallað frítekjumark þess fólks sem hér um ræðir. Það hefur verið gert í tvígang á undanförnum árum. Að sjálfsögðu hefði mátt hugsa sér að halda því áfram því það hefði komið þeim betur sem lægri hafa tekjurnar. Nú hefur Hæstiréttur hins vegar ákveðið að þetta hafi ekki samrýmst stjórnarskrá að öllu leyti. Við því hefur verið brugðist með því að hækka þetta lágmark. Það er leitt til þess að vita að hv. þm. skuli skipti eftir skipti snúa þessu við. Ég vona að það sé ekki gert vísvitandi.