Bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:36:20 (4300)

2001-02-08 10:36:20# 126. lþ. 66.92 fundur 271#B bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er sérstakt að 1. varaforseti fari í ræðustól til að ræða störf þingsins en það var stórt tilefni til að þessu sinni.

Guðmundur Árni Stefánsson alþm. hefur kynnt bókun sem hann hefur gert í forsn. Alþingis um þá vanhugsuðu ákvörðun forseta að skrifa bréf til Hæstaréttar í nafni forsn.

Ég vil taka fram, þess vegna kem ég hér, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar eru bókuninni algerlega sammála og telja bréfaskiptin hafa verið mistök.

Herra forseti. Þessir atburðir og atferlið á Alþingi í aðdraganda bréfasendinga eru ekki til eftirbreytni í framtíðinni. Þeir eru mistök sem vonandi verða ekki endurtekin.