Bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:39:56 (4303)

2001-02-08 10:39:56# 126. lþ. 66.92 fundur 271#B bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sjálfsagt og eðlilegt er að taka málið upp með þeim hætti sem 1. varaforseti, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, hefur gert. Viðbrögð forseta þingsins nú eru því mjög sérkennileg. Engin fordæmi eru fyrir því að forseti Alþingis hafi með þeim einstæða hætti sem hv. þm. lýsir í bókun sinni óskað eftir íhlutun eða inngripi Hæstaréttar í hápólitískt deilumál sem fyrir Alþingi liggur. Þetta er slíkt frumhlaup að komast verður til botns í því hvað raunverulega bjó að baki slíku örþrifaráði sem einungis hluti forsn. ákveður á nokkurra mínútna fundi sínum. Af fullri alvörðu verður því að skoða með hvaða hætti Alþingi geti beitt sér í málinu og hvort skipa eigi til þeirra verka óvilhalla aðila eða rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að brjóta allt þetta mál til mergjar, m.a. að kanna tildrög og aðdraganda þessara bréfaskrifta. Allt of margt er enn á huldu um þetta mikilvæga mál til að álykta megi að hér hafi einungis verið um að ræða stjórnskipulegt slys eða afglöp að þessi bréfaskipti fóru fram. Leita verður allra leiða til að þetta mál hafi ekki fordæmisgildi. Því ber að skoða skipan rannsóknarnefndar í þessu máli.