Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:43:28 (4307)

2001-02-08 10:43:28# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Upplýst hefur verið að Íslandspóstur hf. hafi fengið upplýsingar um meinta eiturlyfjaneyslu einstaklinga frá tollyfirvöldum í Reykjavík. Í fréttaumfjöllun um málið hefur komið fram að samstarf sé á milli lögreglu og tollyfirvalda um skráningu á einstaklingum sem taldir eru tengjast eiturlyfjum. Lítið hefur verið upplýst um þetta samstarf eða þær skrár sem hér er um að ræða en yfirlýsingar forsvarsmanna innan lögreglu og tolls í fjölmiðlum að undanförnu gefa tilefni til að leita eftir svörum hjá hæstv. dómsmrh. um varðveislu og notkun á upplýsingum af þessu tagi.

Í fyrsta lagi er svo að skilja að til séu listar um meint afbrot en ekki einvörðungu sönnuð afbrot þar sem dómar hafa fallið. Þannig gæti einstaklingur verið á slíkum lista fyrir það eitt að hafa legið undir grun um fíkniefnaneyslu, jafnvel á unga aldri þótt aldrei hafi verið færðar á það sönnur. Að mínum dómi samræmist þetta ekki þeim grundvallarkröfum sem við hljótum að gera til réttarríkis.

Í öðru lagi kemur fram að upplýsingum hafi verið miðlað ,,óformlega`` svo vitnað sé beint í ummæli tollstjórans í Reykjavík varðandi samskipti við Íslandspóst hf. Mjög alvarlegt er þegar það er staðfest að ekki séu skýrar reglur um þær upplýsingar sem yfirvöld búa yfir og hvernig þeim er miðlað.

Nú hlýtur sú spurning að vakna hvað átt sé við með því að upplýsingum sé miðlað óformlega. Er verið að tala um tveggja manna tal? Ef tryggja á réttindi einstaklinga þurfa að vera fyrir hendi skýrar formlegar reglur bæði um upplýsingar sem leyfilegt er að varðveita og hvernig þeim er miðlað.

[10:45]

Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur ítrekað verið bent á mikilvægi persónuverndar og er þess skemmst að minnast er við vöktum athygli á brotalömum í lögum um Schengen-upplýsingakerfið, þar sem við teljum persónuvernd ekki nægilega vel tryggða. Enda þótt mikilvægt sé að samfélagið snúist af alvöru og af alefli gegn hvers kyns afbrotum, ekki síst þeim sem varða sölu og dreifingu á eiturlyfjum, þarf jafnan að gæta að því að farið sé að reglum réttarríkis. Til þess höfum við dómstóla og sakaskrám er ætlað að geyma upplýsingar um niðurstöðu þeirra. Þar er ekkert óformlegt á ferðinni.

Um síðustu áramót tók gildi reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Hverju svarar hæstv. dómsmrh. þeirri gagnrýni sem fram hefur komið, að reglugerðin veiti lögreglu allt of rúmar heimildir til að safna upplýsingum og vinna með þær? Þar er vísað í ákvæði reglugerðarinnar sem heimilar lögregluyfirvöldum að halda skrár yfir einstaklinga sem kærðir hafa verið og aðra sem málið varðar án þess að dómur hafi verið felldur.

Í reglugerðinni eru vissulega mikilvæg ákvæði í þágu persónuverndar. Þar segir m.a. að ef skráðar hafi verið persónuupplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar eða persónuupplýsingar sem hafi verið skráðar án tilskilinnar heimildar skuli lögregla sjá til þess að upplýsingar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort séð verði til þess að farið verði að þessari reglugerðargrein og þá væntanlega máð brott ósönnuð brot, svo sem meint notkun fíkniefna, hugsanlega á æskuárum, og þannig komið í veg fyrir að einstaklingar séu að ósekju og óafvitandi brennimerktir fyrir lífstíð.