Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:47:43 (4308)

2001-02-08 10:47:43# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að vekja máls á því sem hér er til umræðu. Að mínu mati er hér um málefni að ræða þar sem vegast á mikilvægir hagsmunir. Annars vegar þau mikilvægu réttindi einstaklinga að ekki séu gerðar um þá leynilegar skrár með persónulegum upplýsingum, sem teljast brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra, og hins vegar er um að ræða þá almannahagsmuni að lögreglan safni upplýsingum sem nýtast henni við uppljóstrun glæpa og til að stemma stigu við afbrotum.

Áður en lengra er haldið vil ég að gefnu tilefni taka fram að þær miklu umræður sem á síðustu dögum hafa orðið um málaskrá lögreglunnar hafa að hluta til byggst á misskilningi og missögnum. Umræðan hér gefur mér hins vegar tilefni til að gera grein fyrir því hvernig að þessum málum er staðið.

Ég get ekki vitnað um það sem gerðist í samskiptum tollgæslu og Íslandspósts, formlega eða óformlega. Sé það rétt sem komið hefur fram, að þar hafi verið brotið gegn settum reglum, þá mun sú stofnun sem framfylgja á reglum um persónuvernd taka á því máli og hefur reyndar þegar byrjað á því verki eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.

Svo ég komi að því hvernig að þessum málum er staðið eins og er þá er, jafnt hér á landi sem í öllum öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við, viðurkennd nauðsyn þess að lögregla skrái og varðveiti upplýsingar um einstaklinga vegna rannsókna brotamála og annarra löggæsluþarfa. Dæmi um söfnun og dreifingu slíkra upplýsinga á alþjóðavettvangi er einmitt Schengen-upplýsingakerfið sem Íslendingar eru nú að tengjast en gríðarlega strangar kröfur eru gerðar í slíku alþjóðasamstarfi og strangar reglur um aðgang að upplýsingum og eftirlit með notkun þeirra.

Sama er að segja um upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun íslenskra löggæsluyfirvalda. Það er algjört skilyrði að skýrar reglur liggi til grundvallar heimildum lögreglunnar til söfnunar og varðveislu persónuupplýsinga og um réttindi manna til aðgangs að þeim. Hér er ekki tími til að rekja sögu og þróun þeirra mála hjá lögreglunni. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða við hv. þingmenn að miklar framfarir hafa orðið í setningu reglna um meðferð persónuupplýsinga á undanförnum tveimur árum. Meginlöggjöf okkar eru lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem byggð eru á sameiginlegum evrópskum reglum en löggjöfin tók gildi þann 1. janúar sl. Þar eru gerðar miklar kröfur til eftirlits með meðferð persónuupplýsinga.

Hér sem annars staðar viðurkenna lögin að ákveðnar sérreglur skuli gilda um söfnun og meðferð persónuupplýsinga þegar verkefni lögreglunnar eiga í hlut. Þannig er heimilt að setja þrengri reglur um aðgang einstaklinga og stofnana að upplýsingum hjá lögreglu og um eyðingu slíkra gagna. Ég vek sérstaka athygli á því að lagaheimild fyrir starfrækslu málaskrár lögreglunnar er skýr og sérstök reglugerð hefur verið sett til nánari útfærslu á henni en hún tók gildi þann 1. janúar sl.

Skv. 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga er ríkislögreglustjóra falið ,,að halda málaskrá um kærur sem berast lögreglu um afbrot með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem mál varða, dagbók lögreglu með upplýsingum um erindi til lögreglu og úrlausn þeirra, skrá yfir handtekna menn og aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum.``

Þessi málaskrá hefur verið starfrækt með tengingu við öll lögregluembætti frá 1. jan. 1998. Þar getur ríkislögreglustjóri m.a. fylgst með því hvaða mál eru til rannsóknar hjá lögreglunni. Á grundvelli þessa lagaákvæðis og einnig með vísan til laga um meðferð opinberra mála og nýju persónuverndarlaganna hefur verið sett reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Við gerð þeirra reglna var sérstaklega byggt á samþykktum Evrópuráðsins um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Það er alls ekki óeðlilegt heldur er það í reynd nauðsynlegt fyrir þarfir löggæslunnar að lögreglan haldi þessar skrár sem nánar er lýst í reglugerðinni. Hins vegar er alveg ljóst að enginn á að hafa aðgang að þessum skrám nema lögreglan sjálf.

Ríkislögreglustjóri er ábyrgur fyrir málaskránni og hefur hann sett strangar reglur um aðgangstakmarkanir að henni. Þannig hefur almennur lögreglumaður aðeins aðgang að þeim hluta sem varðar embættið sem hann starfar við en stjórnendur hjá hverju embætti hafa hins vegar aðgang að landskrá málaskrárinnar. Þetta er nauðsynlegt svo unnt verði að kanna hvort verið er að rannsaka mál á hendur sama manni í mörgum umdæmum. Að því leyti er málaskráin mikilvægt samræmingartæki.

Að gefnu tilefni get ég sagt að eftir minni bestu vitund eru hvergi í þessu landskerfi lögreglunnar haldnar skipulegar eða kerfisbundnar skrár yfir þá sem taldir eru í tengslum við fíkniefnaheiminn án þess að þeir hafi hlotið dóma.