Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:58:08 (4311)

2001-02-08 10:58:08# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:58]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Á tímum mikilla tækniframfara er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að einstaklingurinn verður æ berskjaldaðri fyrir forvitni og jafnvel átroðningi annarra. Á hinn bóginn er eðlilegt að einstaklingar og fyrirtæki veiti ákveðnar upplýsingar um einstaklinga. Þær upplýsingar verða hins vegar að vera skýrt afmarkaðar og þeim sem aðgang eiga að slíkum upplýsingum settar verklagsreglur.

Sem betur fer hefur íslensk löggjöf það að markmiði að þessar reglur séu öllum kunnar. Markmiðið er að sjálfsögðu að virða friðhelgi einkalífs, samanber ákvæði stjórnarskrárinnar þar um. Þar fyrir utan hefur verið sett á stofn merkileg stofnun, Persónuvernd, en hlutverk hennar er fyrst og fremst að hafa eftirlit með því að grundvallarsjónarmið um friðhelgi einkalífs og persónuvernd séu virt.

Í fréttum undanfarna daga hefur verið rætt um meðferð viðkvæmra trúnaðarupplýsinga hjá opinberum stofnunum og hvort og á hvaða hátt slíkar upplýsingar hafi verið veittar. Ef satt er, sem haldið hefur verið fram, þá er það vitaskuld algjörlega óviðunandi en sem betur fer er laga- og réttarumhverfi okkar þannig að strax er tekið á svo viðkvæmu máli og því beint í ákveðinn farveg sem við hér á Alþingi höfum tekið þátt í að móta, skapa og samþykkja.

Þegar á fyrstu starfsdögum sínum hefur Persónuvernd sýnt hversu megnug hún getur verið í þágu réttaröryggis. Þessar fréttir hafa einnig leitt til þess að auka þarf enn frekar skilning starfsmanna stofnana á almennum stjórnsýsluháttum. Ekki þarf síður að efla og undirstrika þá miklu ábyrgð sem opinberir starfsmenn bera í störfum sínum svo ekki komi til árekstra við fólk, fyrirtæki og fjölmiðla, hugsanlega málaferla sem skaða mundu bæði ríki og einstaklinga.

Þrátt fyrir að réttarstaða borgaranna sé vel vernduð og lagaumhverfi hér á landi með ágætum þá skipta einnig aðrir þættir þjóðlífsins máli. Hér á ég ekki einungis við, herra forseti, ríkissaksóknara eða ríkislögreglustjóra heldur réttarvitund einstaklinganna sjálfra og ekki síður fjölmiðlanna, þ.e. að þessir aðilar standi sig og veiti stofnunum og fyrirtækjum aðhald í þágu persónuverndar. Það hafa þeir að mínu mati einnig gert í máli því sem er kveikjan að þessari utandagskrárumræðu.